Á Íslandi er það viðtekin venja að nota 460 lítra ker við veiðar. Kerin eru um borð í skipum og eru oft notuð til flutnings á ferskum fiski á erlenda markaði. Kerin eru svo flutt aftur heim þar sem þau eru notuð ár eftir ár.

Hjá keraleigufyrirtækinu iTUB eru notuð ker frá Sæplasti á Dalvík.

„Við notum aðeins Polyethylene (PE) ker sem eru endurvinnanleg að loknum líftíma sínum“ segir Bragi Smith sölu- og vöruþróunarstjóri hjá iTUB.

Á leigutímanum eru kerin löguð og það er vel hugsað um þau.

„Það er mikill metnaður hjá okkur að halda kerunum í góðu standi því þau geyma og flytja matvæli á erlenda markaði“ segir Bragi og minnir á að það er lögð rík áhersla á að viðhalda gæðum á fiskinum sem kerin bera.

Nýlega hóf Sæplast að framkvæma gæðakönnun á eldri kerum fyrir iTUB.

„Það skiptir okkur miklu máli að vita hvernig eldri kerin í leigukerfinu okkar standa sig út frá styrkleika og endingu því þetta eru þau atriði sem hafa mikið að gera með öryggi“ segir Bragi.

„Við erum núna að kanna ker sem eru framleidd hjá Sæplast árið 2010. Það eru nokkur atriði sem við erum að skoða. Í fyrsta lagi er það stöflunarstyrkur keranna og svo styrkur á höldunum sem notaðir eru við hífingar. Þetta eru mikilvægar upplýsingar því kerin eru hífð og þeim er staflað um borð í fiskiskipum og við löndun. Í þessari úttekt erum við einnig að kanna útlit keranna og bera það saman við viðgerðarsöguna. Það er þekkt að ker sem hafa verið löguð margsinnis geta misst styrk sinn og því er nauðsynlegt að skipta þeim út. Reynslan sýnir okkur að kerin endast vel og því eru flest þeirra sem voru framleidd árið 2010 enn í fullri notkun“ segir Bragi.

Úttekt í álagsbúri

Úttektin á kerunum fór fram í sérútbúnu álagsbúri sem Sæplast hefur þróað þar sem hægt er að kanna styrk kera við hífingu og stöflun. Könnunin leiðir í ljós að stöflunarstyrkur keranna er umfram það sem staðlar gera ráð fyrir. Til að uppfylla staðalinn (ÍST 110:2016) þarf stafli af tveimur kerum að þola 10 kN álagsaukningu á hverja mínútu þar til 80 kN álagi er náð. Eftir það þurfa kerin að þola 80 kN (8,1 tonn) álag í 5 mínútur. Álagsprófunin sýndi fram á að kerin þola jafndreift álag upp á 155 kN (16 tonn) í skamma stund sem er langt umfram það sem kerin voru hönnuð til að þola.

Styrkur hankanna var einnig mældur við sömu aðstæður og með sama staðli (ÍST 110:2016). Til að standast styrkleikaprófið þurfa höldurnar að halda 72kn (7 tonn) en könnunin sýndi fram á að þær þoldu tog upp að 78 kN (7,65 tonnum) sem er umfram það sem staðallinn gerir ráð fyrir.

„Það er alltaf öryggið sem skiptir mestu máli. Að fá þessa niðurstöðu, að PE kerin haldi fullum styrk sínum í þetta langan tíma er mikið öryggisatriði fyrir alla þá sem vinna með kerin“ segir Bragi að lokum.