Tekjur Ísfélagsins jukust töluvert milli ára og námu 194 milljónum dala sem rekja má að mestu til sameiningar Ramma hf. og Ísfélagsins um mitt ár 2023. Rammi rak frystitogarann Sólberg, bolfiskskip, rækjuverksmiðju á Siglufirði og bolfiskvinnslu í Þorlákshöfn.

Í skýrslu stjórnar Ísfélagsins á aðalfundi nýlega segir að rekstur félagsins hafi gengið vel á árinu 2023. Loðnuvertíðin hafi verið stór, en enn eigi eftir að selja hluta af afurðum vertíðarinnar sem skýrir að hluta háa birgðastöðu í árslok.

Hrognahús og fiskeldi

„Á árinu var lokið við að byggja nýtt hrognahús í Vestmannaeyjum sem var tekið í notkun í byrjun mars 2023, ásamt því að fjárfest var í búnaði í vinnslum félagsins. Þann 8. mars 2023 var tilkynnt um samstarf Ísfélags hf. og Måsøval Eiendom AS varðandi eignarhald í Ice Fish Farm AS, sem er skráð félag í Noregi og rekur laxeldi í sjó á Austurlandi. Eignarhaldsfélagið, þar sem Ísfélag hf. á 29,3% hlut, er stærsti eigandi laxeldisfyrirtækisins með 56,1% hlut.“

Í ársreikningnum er vikið að loðnubrestinum á þessu ári og sagt að hann muni hafa talsverð áhrif á afkomu félagsins á yfirstandandi ári.

Sigurbjörg væntanleg í maí

„Félagið stendur í umtalsverðum fjárfestingum á árinu þar sem verið er að auka afköst fiskimjölsverksmiðjunnar í Vestmannaeyjum og undirbúa byggingu frystigeymslu á Þórshöfn. Þá er togarinn Sigurbjörg, sem er í smíðum í Tyrklandi, væntanlegur í maí. Allar þessar stóru fjárfestingar munu bæta reksturinn í framtíðinni auk þess sem félagið er áfram fjárhagslega afar sterkt til að takast á við frekari fjárfestingar og tækifæri á komandi árum.“