„Þetta byrjaði allt hjá honum Steina mink,“ segir Skarphéðinn Ásbjörnsson, forvígismaður fiskasýningarinnar sem fylgt hefur Fiskideginum mikla frá því hann var haldinn í annað sinn.

Skarphéðinn segir vin sinn Steina mink, sem réttu nafni heitir Þorsteinn Már Aðalsteinsson, hafa fundið upp Fiskidaginn.

„Steini gekk einn daginn á milli fyrirtækja með þá hugmynd að þau myndu bara skaffa mat handa öllum bæjarbúum til að setja á grill þarna í götunni, gera svona bæjarhátíð. Þetta fyrsta skipti sem Fiskidagurinn var haldinn var eiginlega bara götupartí,“ rifjar Skarphéðinn upp.

Innblástur á Reyðarfirði

Hugmyndina að fiskasýningunni segir hann hafa kviknað þegar hann var með félögum sínum í sjóstangaveiði fyrir austan.

„Steini fékk okkur nokkur sem vorum með honum í sjóstangaveiðinni til að hjálpa honum að gera þessa hátíð áhugaverðari. Við vorum eitt sinn á leið frá sjóstangamóti í Neskaupstað og stoppuðum á Reyðarfirði. Þá var björgunarsveitin þar með nokkra fiska úr einhverjum togaranum sem höfðu verið settir á kassa þegar það var kynning á björgunarsveitinni fyrir bæjarbúa. Þá kviknaði sú hugmynd að setja upp fiskasýningu árið eftir á Dalvík,“ segir Skarphéðinn

Búrfiskur og sædjöfull og aftan við þá sést í tvær stórar bleikjur. Mynd/Jóhann Már Kristinsson
Búrfiskur og sædjöfull og aftan við þá sést í tvær stórar bleikjur. Mynd/Jóhann Már Kristinsson

Innsýn í hulinn heim

Skarphéðinnn tekur undir að fiskasýningin veiti mjög mörgum gestum góða innsýn í heim sem venjulega er þeim hulinn.

Hér sést í vogmær, grjótkrabba og sæstjörnu. Þá trjónukrabba, surtlu og sandkola. Því næst bretahveðni, svarthveðni, kolmunna, hveljusogsfiski og litla Lúsífer. Svo sést þar sláni og inn á milli fólksins sést glitta í gjölni. Mynd/Jóhann Már Kristinsson
Hér sést í vogmær, grjótkrabba og sæstjörnu. Þá trjónukrabba, surtlu og sandkola. Því næst bretahveðni, svarthveðni, kolmunna, hveljusogsfiski og litla Lúsífer. Svo sést þar sláni og inn á milli fólksins sést glitta í gjölni. Mynd/Jóhann Már Kristinsson

„Ég hef verið aðeins að útvíkka það í þá áttina til þess að sýna fólki til hvers fiskurinn er og hvað við erum að gera við hann,“ segir Skarphéðinn og nefnir sem dæmi kör sem stillt er upp hlið við hlið þar sem sjá má þorsk á ýmsum stigi, allt frá því hann kemur upp úr sjónum og þar til hann er kominn í þá mynd sem fólk þekkir úr fiskbúðum. „Hugmyndin er að sýna fólki hvernig maturinn verður til.“

Á sýningunni eru myndbönd af togveiðum, uppsjávarveiðum og línuveiðum og þar er líka neðansjávarmyndband. Þar getur fólk séð handtökin sem unnin eru á veiðunum. Skarphéðinn segir um að ræða klippur úr þáttum sem Árni Gunnarsson á Sauðárkróki gerði og voru sýndir í Sjónvarpinu.

„Hann fór um borð í togarana og fór með þeim í túra.“

Vita allt en samt ekkert

Skarphéðinn segir gesti fiskasýningarinnar af öllu tagi.

„Þarna er að koma fólk sem veit ekkert um fiska og þarna eru líka að koma gamlir sjómenn sem vita allt um fiska. Þeir hafa rosalega gaman af þessu,“ segir hann. „Svo koma svo líka menn sem vita allt en vita kannski samt ekkert,“ bætir hann við og hlær.

Hér má sjá hákarl, hámeri, sleggjuháf, litlu brosmu, ufsa, dvalfisk, blágómu, djöflaskötu, lúðu, skötusel og aldamótakarfa. Á karinu fyrir aftan eru seglfiskur og tunglfiskur. Á ísnum eru einnig töskukrabbi og trjónukrabbi. Mynd/Jóhann Már Kristinsson
Hér má sjá hákarl, hámeri, sleggjuháf, litlu brosmu, ufsa, dvalfisk, blágómu, djöflaskötu, lúðu, skötusel og aldamótakarfa. Á karinu fyrir aftan eru seglfiskur og tunglfiskur. Á ísnum eru einnig töskukrabbi og trjónukrabbi. Mynd/Jóhann Már Kristinsson

Ungu kynslóðina segir Skarphéðinn hafa gaman af því sem fyrir augu ber enda er fólk að sjá alls kyns tegundir sem það vissi ekki að væru til.

„Við setjum sýninguna upp þannig að krakkarnir geti notið hennar sem best. Þau mega pota og snerta fiskana. Við teljum það vera áríðandi í dag í veröld þar sem ekki má koma við neitt. Þetta er allt fyrir framan fólk og kassarnir í þeirri hæð að krakkarnir geta komið við fiskana.

Lifandi fiskar sem má snerta

Í sumum körum eru lifandi fiskar sem Skarphéðinn veiðir í gildrur í höfninni á Dalvík. Þessa fiska má líka koma við. „Það er ákveðin upplifun fyrir börn að fá að snerta,“ segir hann.

Skarphéðinn og Guðbrandur Ægir Ábjörnssynir. Mynd/Aðsend
Skarphéðinn og Guðbrandur Ægir Ábjörnssynir. Mynd/Aðsend

„Það er misjafnt sem ég fæ,“ svarar Skarphéðinn spurður hvað rati í gildrurnar. „Nú fékk ég nokkra sandkola, rauðsprettu og marhnút og slatta af krossfiski.“

Fiskasýningin opnar þannig huga fólks gagnvart sjávarútvegi og viðfangsefnum hans, en Skarphéðinn verður ásamt bróður sínum Guðbrandi Ægi, sem komið hefur að sýningunni um árabil, á sínum stað á Fiskideginum mikla á næsta ári. Það verður tuttugasta sýning Skarphéðins.

Þýðir ekkert að hætta

„Ef þetta verður með sama sniði þá munum við taka þátt geri ég ráð fyrir. Það þýðir ekkert að hætta,“ svarar hann. Um mikla vinnu er að ræða fyrir þá bræður. „Við fáum aðeins greitt fyrir þetta núorðið en fyrstu tíu árin fékk ég ekki neitt. Ég lít svolítið á þetta sem það að vera hluti af samfélaginu. Þetta er mitt framlag í því samfélagi sem ég lifi og hrærist í,“ segir Skarphéðinn sem dags daglega er rafmagnstæknifræðingur og vélstjóri og starfar hjá Rarik.