Hetjudáðir á hafi úti er 25. bók Steinars J. Lúðvíkssonar sem fjallar um slys til sjós en áður hafði hann gert 20 bækur í bókaflokknum Þrautgóðir á raunastund sem náðu til atburða á allri 20. öldinni. Steinar segir að í þeim bókaflokki hafi verið lagt upp með það að hafa kafla stutta svo hægt væri að koma sem mestu fyrir í bókunum. Þessi aðferð leiddi svo til þess að mikið af óbirtu efni safnaðist fyrir.

Steinar J. Lúðvíksson.
Steinar J. Lúðvíksson.

„Það var Bjarni Þorsteinsson útgefandi hjá Veröld sem átti frumkvæði að því að við fórum að taka þessar bækur saman úr efni sem áður hafði lítið verið skrifað um. Fyrsta bókin í þeim flokki var Halaveðrið mikla sem kom út árið 2019.“

Ári síðar kom út bókin Brimaldan stríða, Skipskaðar á svörtum söndum árið 2022 og á síðasta ári Skipin sem hurfu. Hetjudáðir á hafi úti er því fimmta bók Steinar eftir að bókaflokkurinn Þrautgóðir á raunastund rann sitt skeið með útkomu 20. bókarinnar árið 2017.

Stendur nærri íslenskri þjóðarsál

„Ég á enn þá til mjög mikið efni sem ég veit ekki hvað ég geri við. Það safnaðist að mér mjög mikið af fjölbreyttu efni sem ég hef verið að vinna úr. Það er því af nógu að taka, því miður,“ segir Steinar.

Því miður segir hann því umfjöllunarefni bókanna eru engin gleðitíðindi heldur lýsa hættulegu starfi sjómannsins á hafinu í kringum Ísland og baráttuna við náttúruöflin. Bókum Steinars hefur ávallt verið afar vel tekið af lesendum.

„Það sem fjallað er um í þessum bókum stendur mjög nærri íslensku þjóðarsálinni á 20. öldinni þótt það hafi reyndar orðið algjör viðsnúningur í þessum málum síðustu árin. Þetta var hrein skelfing ár eftir ár. Sem betur fer hefur það farið til betri vegar. Það má þakka ýmsum þáttum. Fyrst og fremst eru skipin mun betri og betur búin tækjum. Tæknin í nýju skipunum er allt önnur og betri og nákvæmni í veðurspám hefur fleygt fram líka. Svo held ég að Slysavarnaskóli sjómanna eigi ekki lítinn þátt í þeim framförum sem hafa orðið á þessu sviði. Nú eru öryggismálin einfaldlega orðið fag sem allir sjómenn verða að læra. Öryggisvitund meðal sjómanna er orðin ráðandi.“

Hér á eftir fara kaflabrot úr bók Steinars

Snemma árs 1947 komu til landsins tveir togarar sem útgerð Vatneyrarbræðra, Friðþjófs og Garðars Jóhannessona, á Patreksfirði hafði fest kaup á en þeir bræður voru á þessum árum meðal umsvifamestu útgerðarmanna á landinu. Í stað þessara togara voru tveir togarar útgerðarinnar, Gylfi og Vörður, seldir til Færeyja. Þau skip voru komin nokkuð til ára sinna og voru mun minni en togararnir sem nú komu til sögunnar en báðir höfðu þeir reynst vel, verið happaskip, fært mikinn afla að landi og siglt utan með afla sinn öll stríðsárin. Hér á eftir fara brot úr þessari frásögn. Millifyrirsagnir eru blaðsins.

Ekki voru stríðsárin með öllu áfallalaus fyrir útgerðina. 24. ágúst 1942 réðst þýsk flugvél á togarann Vörð er hann var á heimleið til Patreksfjarðar af Halamiðum þar sem hann hafði stundað veiðar og fengið fullfermi eftir 6 daga. Veður og skyggni var gott á heimstíminu og allt gekk í fyrstu að óskum. Nokkrir hásetanna voru að ganga frá afla á þilfari. Í brúnni voru Sæmundur Auðunsson 1. stýrimaður og Kristján Jónsson loftskeytamaður og þangað upp til þeirra kom svo Jens Jensson 1. vélstjóri og hugðist fá sér kaffisopa með þeim. Var klukkan um hálftíu er Sæmundur kom auga á flugvél í fjarska og kom hún frá landi stjórnborðsmegin við Vörð. Fylgdust mennirnir með henni þar sem hún nálgaðist skipið. Hafði Kristján strax á orði að þetta væri þýsk Focke Wulf flugvél en Sæmundur og Jens töldu vélina vera breska eða bandaríska.

Hóf skothríð af löngu færi

Flugvélin flaug rakleiðis að Verði og þegar hún nálgaðist sá Kristján þýsku krossana á vængjum hennar. Var ekki um að villast hver var þarna á ferð og kallaði hann viðvörunarhróp til félaga sinna. Í sömu andrá flaug vélin rétt yfir siglutoppa togarans og yfir dundi vélbyssuskothríð. Kristján þaut þegar í stað inn í loftskeytaklefann. Mætti hann nokkrum hásetanna sem verið höfðu í borðsalnum og kallaði til þeirra að árás hefði verið gerð á Vörð og sagði þeim að fara í skjól. Þegar í loftskeytaklefann kom ræsti Kristján stöðina og klippti á innsigli hennar. Sendi hann síðan út kall á alþjóðlegri neyðarbylgju og skýrði frá því að þýsk flugvél væri að ráðast á Vörð. Taldi hann víst að loftskeytamaðurinn í þýsku flugvélinni myndi heyra þetta kall og vita þannig um þjóðerni skipsins sem þeir voru að ráðast á. Eftir að flugvélin hafði flogið yfir Vörð sneri hún við og kom nú aftan frá og hóf skothríð af löngu færi. Þegar hún var yfir skipinu heyrðist mikill gnýr og skipverjum á Verði fannst togarinn lyftast upp að aftan. Hafði flugvélin varpað sprengju eða sprengjum sem sprungu rétt fyrir aftan skipið en svo nærri að botnstykkið í dýptarmælinum sprakk og leiðslur í vélarrúminu rofnuðu.

Á meðan á þessu stóð sendi Kristján stöðugt út og bað um að nærstödd skip héldu til þeirra ef ekkert meira heyrðist frá Verði. Óttaðist hann, eins og reyndar allir skipverjarnir, að flugvélin myndi halda árásunum áfram og sökkva Verði.

En áhöfnin í flugvélinni lét sér þetta nægja. Hún tók stefnuna á Önundarfjörð og hvarf brátt sjónum togaramanna.

Lést fljótlega af sárum sínum

Þegar árásin var yfirstaðin kom í ljós að einn hásetanna, Sigurjón Ingvarsson, var illa særður. Hann hafði verið að bera til lifrarkörfu á móts við spilið er árásin var gerð og fékk hann vélbyssuskot í bakið og gekk það út um kviðinn. Tveir aðrir hásetar sem voru þarna að bera til körfur köstuðu sér niður er skothríðin hófst og sluppu þeir ómeiddir en karfan sem þeir héldu á var skotin í tætlur. Eftir á var það talið heppni að margir hásetanna voru í kaffi þegar árásin var gerð og því færri á þilfarinu en undir venjulegum kringumstæðum.

Sigurjón var borinn upp í borðsal hásetanna og lagður þar á borð þar sem Friðmann Þorsteinsson 2. stýrimaður og fleiri reyndu að gera að sárum hans. Var Sigurjón fyrst með meðvitund og gerði sér grein fyrir því að hverju stefndi. Var Verði siglt á fullri ferð inn á Önundarfjörð og beðið um að læknir yrði til taks þegar skipið kæmi. Á það reyndi ekki, þar sem Sigurjón lést fljótlega af sárum sínum. Var þá stefnu Varðar breytt og haldið inn á Patreksfjörð og kom skipið þangað inn um klukkan fimm.

Sigurjón Ingvarsson sem fórst í árásinni var 24 ára til heimilis að Geitagili í Rauðasandshreppi.

Togarinn Bjarni Ólafsson frá Akranesi. Undir stjórn Jónmundar Gíslasonar vann áhöfn skipsins mikið afrek við björgun 14 af 19 manna áhöfn Varðar.
Togarinn Bjarni Ólafsson frá Akranesi. Undir stjórn Jónmundar Gíslasonar vann áhöfn skipsins mikið afrek við björgun 14 af 19 manna áhöfn Varðar.

Lagt af stað í söluferð til Bretlands

Klukkan fimm síðdegis fimmtudaginn 27. janúar 1950 lagði togarinn Vörður úr höfn í Hafnarfirði áleiðis í söluferð til Grimsby. 19 manna áhöfn var á skipinu og eins og verið hafði frá því að það kom fyrst til landsins var Gísli Bjarnason skipstjóri. Þegar brottfarartími nálgaðist var veður tekið að versna og kominn slíkur súgur að skipið varð að liggja fyrir akkerum á meðan það var búið fyrir siglinguna. Gengið var frá öllum lestarlúgum og troðið með keðjuklussinu og auk þess þétt með því með steypu sem átti að harðna á stuttri stundu svo fremi að ekki kæmist bleyta að henni.

Aðfaranótt sunnudags töldu þeir sem voru á vakt að skipið hefði tekið á sig bakborðshalla og töluðu um það sín á milli að sennilega væri sjór kominn í lúkarinn. Vaktaskipti voru klukkan hálffjögur og tók þá Guðjón Ólafsson 2. stýrimaður við af Guðmundi Halldórssyni háseta sem verið hafði yfir stímvaktinni framan af nóttu. Taldi Guðmundur og þeir sem með honum voru á vakt, Páll Pálsson og Trausti Aðalsteinsson hásetar, sig verða varir við að nokkur bakborðshalli væri kominn á skipið og ræddu það við þá sem tóku við. Tók Guðjón undir þetta og lét lýsa dekkið upp með ljóskösturum. Ekki var neitt athugavert að sjá og allar hurðir virtust lokaðar og í lagi.

Ausið með fötum

Laust fyrir klukkan níu var öll áhöfnin ræst og gripið til aðgerða. Vélamönnum voru gefin þau fyrirmæli að brenna eingöngu kolum úr bakborðsboxunum og lempa kol yfir í stjórnborðsboxin. Allir vélamenn og kyndarar voru kallaðir til þess verks.

Vegna sjógangs varð því ekki við komið að nota véldælur sem voru undir hvalbak bakborðsmegin og því eina ráðið að nota fötur til að ausa úr skipinu. Röðuðu menn sér upp. Sá sem sökkti fötunum í austurinn stóð uppi á bekk í lúkarnum og var hann í sjó upp að hnjám og fékk auk þess miklar gusur yfir sig þegar skipið valt. Næsti maður sem tók við fötunni stóð á ofni við stigann, sá þriðji var ofarlega í stiganum og rétti fötuna til fjórða manns sem hellti úr fötunni út um mannop sem var um metra frá dekkinu. Skiptust menn ört á við austurinn, drógu ekki af sér og voru oftast tvær fötur á lofti í einu. Allir urðu mennirnir fljótt rennandi blautir en létu sér nægja að hella úr stígvélunum þegar þeir brugðu sér niður til þess að fá sér næringu.

Beðið um aðstoð

Snemma um morguninn var Grímur Jónsson loftskeytamaður kominn að tækjum sínum. Vitað var að togarinn Geir var staddur á útleið um 60 sjómílur vestur af þeim stað sem Vörður var á og um klukkan tíu bað Gísli skipstjóri Grím að kalla hann upp og biðja um að hann kæmi til Varðar svo fljótt sem verða mætti.

Haraldur Samúelsson loftskeytamaður á togaranum Bjarna Ólafssyni frá Akranesi, sem var á heimleið úr söluferð til Englands, heyrði þessar skeytasendingar og lét skipstjóra sinn, Jónmund Gíslason, vita að eitthvað hefði komið fyrir Vörð sem væri að biðja um að þau skip sem væru nálægt honum létu heyra frá sér. Bað Jónmundur loftskeytamann sinn að miða Vörð út og kom í ljós að Bjarni Ólafsson var töluvert nær honum en Geir. Var Verði tilkynnt þetta og spurt hvort hann þyrfti aðstoðar með og var því strax svarað að óskað væri eftir að Bjarni Ólafsson kæmi á vettvang. Var stefnunni þegar breytt og haldið á fullri ferð í átt til Varðar.

Jónmundur Gíslason, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni.
Jónmundur Gíslason, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni.

Siginn að framan og halli fór vaxandi

Í blaðaviðtali sagði Jónmundur svo frá: „Um klukkan 2.30 síðdegis komum við að Verði. Virtist mér hann þá orðinn talsvert siginn að framan og nokkur halli á honum út í bakborðshliðina. Ég var þeirrar skoðunar þá, að ekki væri ástæða til að ætla að illa færi, enda var þá sæmilegt veður þó að sjór væri nokkuð þungur. Ég taldi sennilegt að Varðar-mönnum myndi takast að ná skipi sínu upp aftur. Þá var kaldi.“

Guðmundur Halldórsson hlaut fyrstur allra afreksmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frækileg björgunarstörf er Vörður fórst. Guðmundur stundaði sjómennsku alla ævi og var m.a. skipstjóri á vélbátnum Sigurbjörgu frá Drangsnesi.
Guðmundur Halldórsson hlaut fyrstur allra afreksmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frækileg björgunarstörf er Vörður fórst. Guðmundur stundaði sjómennsku alla ævi og var m.a. skipstjóri á vélbátnum Sigurbjörgu frá Drangsnesi.

Skipverjarnir á Verði jusu sleitulaust. Ekki gerðu þeir sér glögga grein fyrir því hvort þeir höfðu erindi sem erfiði en miðuðu sjóinn í skipinu við tröppur í stiganum þar sem austursmenn stóðu. Stundum virtist sjórinn lækka nokkuð en stíga í annan tíma. Undir lúkarnum voru vatnstankar og frá þeim lá loftrör upp í klefann. Datt skipverjum í hug að með því að saga sundur rörið væri hægt að láta sjó renna niður í tankana og dæla síðan úr þeim eins neðarlega og unnt var. Það var erfitt og seinlegt verk en heppnaðist þó að lokum. Virtist sjór lækka nokkuð í skipinu um stund eftir að véldælurnar komu til sögunnar en brátt sótti í sama farið aftur.

Heiðursbréf frá forseta Íslands sem fylgdi afreksorðunni sem Guðmundur Halldórsson hlaut.
Heiðursbréf frá forseta Íslands sem fylgdi afreksorðunni sem Guðmundur Halldórsson hlaut.