Áhafnirnar á nýjum frystitogara Nesfisks í Garði, Baldvini Njálssyni GK, hafa gert það gott eftir að skipið komst í fulla drift í febrúar á þessu ári eftir að hafa glímt við stopp vegna heimsfaraldursins, endalausar brælur og stillingar á flóknum tækjabúnaði skipsins. Fyrr í þessum mánuði landaði skipið tæpum 1.100 tonnum, mestmegnis ýsu og ufsa, og var þetta mettúr hvað verðmæti varðar, alls um 630 milljónir kr.

Í sínum fyrsta heila túr undir lok marsmánaðar, þegar fiskverð voru í hæstu hæðum, var sett met í aflaverðmætum. Arnar Óskarsson skipstjóri sagði þá að á síðasta ári hefði þurft 850-900 tonn til að ná 300 milljóna króna aflaverðmætum. Veiðin var um 620 tonn upp úr sjó og aflaverðmætin um 385 milljónir kr.

Þorsteinn Eyjólfsson var skipstjóri í þessum nýja mettúr sem stóð yfir í 35 daga. Leikurinn barst vítt og breitt í kringum landið en mestur afli fékkst á suðausturmiðum undir lok úthaldsins.

Ævintýri líkast

„Þetta er langur tími úti á sjó en hann var fljótur að líða. Túrinn var skemmtilegur og eiginleika hálfgert ævintýri. Við fórum fyrst vestur á Hala og ég mátti ekki veiða karfi og ekki heldur þorsk. Eftir átján tíma vorum við samt komnir með 25 tonn af þorski og jafnmikið af karfa,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn Eyjólfsson skipstjóri.
Þorsteinn Eyjólfsson skipstjóri.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann segir þorskinn alltaf koma með, ekki sé hægt að komast hjá því. Og ekki hendi menn honum. Það sé hlutverk útgerðinnar að bjarga svona málum.

„Svo fórum við norður í Reykjafjarðarál og fengum ágæta ýsuveiði þar í tvo daga. Í framhaldi af því áttum við ekkert val annað en að fara austur á Papagrunn og Stokksnesgrunn. Þar vorum við heppnir að komast í þessa líka mokveiði á ýsu. Það eru fáir sem mega veiða svona magn af henni. Við byrjuðum eiginlega ekki kvótaárið fyrr en í mars og apríl út af öllum frátöfunum svo við getum dálítið beitt okkur. Þetta er nýtt skip og það stóðst allar væntingar núna,“ segir Þorsteinn.

Hann segir það jafnast á við ævintýri að komast líka í ufsa. Það óvenjulega var hvað hann veiddist á grunnu vatni eða langt uppi á Stokksnesgrunni á 55-70 föðmum. Það hafi verið algjör tilviljun að hitta á ufsann þarna. Á fimmta hundrað tonn fengust af honum þarna.

Í heildina veiddust tæp 1.100 tonn, þar af um 450 tonn af ýsu og lítið minna af ufsa.

Komnir í góða veiði á ný

„Verðin lækkuðu nú eitthvað á landleiðinni enda mátti alltaf búast við því. Verðin hafa verið í hæstu hæðum lengi. Engu að síður stóð á blaðinu hjá okkur að aflaverðmætið væri í 630 milljónum kr. En svo getur það hækkað og lækkað en ég vona frekar að það hækki heldur en hitt. Þetta er það mesta sem hefur fengist á þetta nýja skip og menn eru sáttir,“ segir Þorsteinn.

Fiskurinn er allur tegundar- og stærðarflokkaður í vélum, flakaður og frystur og kemur frágenginn á brettum í lest á tveimur hæðum, tilbúinn til löndunar, útflutnings eða inn í kæligeymslur.

Arnar Óskarsson skipstjóri og hans gengi tóku við skipinu að lokinni löndun. Þeir voru komnir á suðausturmið í byrjun vikunnar og var fínn gangur í veiðunum. Þótt langt sé liðið á kvótaárið mega þeir beita sér á fullu í þessum sömu tegundum og Þorsteinn og hans menn lönduðu fyrr í mánuðinum.