Sigurður Pétursson stofnaði eldisfélagið Arctic Fish á Vestfjörðum fyrir rúmum áratug. Hann var framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu þangað til síðasta sumar en sneri sér í haust að því að styðja við nýsköpun og fræðslu um stöðu og tækifæri uppbyggingar eldisstarfsemi hér á landi.Hann stofnaði fræðslumiðstöðina LAX-INN þar sem hann tekur á móti hópum og einstaklingum.
Árið 2006, fimm árum áður en hann stofnaði Arctic Fish, stofnaði hann ásamt félaga sínum fyrirtækið Novo ehf sem á Novo Food í Frakklandi sem er með samninga við alla stærstu stórmarkaðina um sölu á neytendaafurðum inná þennan stærsta markað Íslands fyrir ferskar sjávarafurðir.
„Ég er frumkvöðull í mér,“ segir Sigurður. Honum hafi því þótt kominn tími til að hugsa sér aftur til hreyfings þegar heil tíu ár voru komin frá stofnun Arctic Fish.
„Arctic Fish var skráð á markað og farið að ganga vel, og þá fannst mér mínu hlutverki vera lokið. Ég er hættur þar sem starfsmaður þótt ég eigi ennþá hlut í fyrirtækinu. Síðan einhenti ég mér í þennan þátt sem mér fannst hafa vantað, eftir að hafa verið tíu ár í þessari vegferð. Það vantaði miðstöð sem sinnti stuðningi við nýsköpun og fræðslu þessarar mikilvægu atvinnugreinar sem við Íslendingar höfum möguleika á að ná sérstöðu í umhverfisvænni matvælaframleiðslu eldisafurða.“
- LAX-INN, þarna er tekið á móti gestum sem vilja upplýsingar. Aðsend mynd
Frá því í september hafa meira en 3000 gestir komið í fræðslumiðstöðina, sem er til húsa við höfnina í Reykjavík.
„Svo erum við líka að fara í heimsóknir í fyrirtæki úti í bæ. Það er búið að vera mikið að gera og oft sækir fólk í að fræðast um eldisstarfsemi þar sem hvatinn hefur verið að kanna hvort fiskeldið sé í raun eins og sú mynd sem stundum er dreginn upp í fjölmiðlum. Það kemur ekkert í staðinn fyrir að fara og kynna sér eldisstarfsemina sem að stórum hluta fer fram í nokkurri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. LAX-INN er með opnar dyr í 101 Reykjavík þar sem hægt er að kynna sér beinar útsendingar úr land sem og sjóeldi ásamt fræðsluefni og stuðning við nýsköpun í greininni.“
Heimsmeistarar
„Við erum öflug á heimsvísu í ýmsum þáttum fiskeldis,“ segir Sigurður og minnir á að Íslendingar eigi nú þegar nokkur heimsmet á þessu sviði.
„Við erum heimsmeistarar í bleikjueldi, það eru engir stærri en Ísland. Við erum enn þann dag í dag heimsmeistarar í matfiskeldi á landi í laxi. Það er enginn stærri í heiminum heldur en Samherji í Öxarfirði, með um 2.000 tonn á síðasta ári.“
Með nýrri uppbyggingu félagsins á Reykjanesi er áætlað að fara í um 40 þúsund tonna matfiskeldi á laxi með landeldi. Landeldi ehf í Þorlákshöfn er þegar komið af stað með áform um álíka mikið eldi og Geo Salmo er líka með í undirbúning eldi á nærliggjandi svæði. Í Vestmannaeyjum er ILFS að undirbúa landeldi á laxi og ýmis önnur verkefni að fara af stað.
„Ef fram fer sem horfir þá eru áætlanir um álíka aukningu úr landeldi hér á landi eða framleiðslu um 100 þúsund tonn á næstu 3-5 árum og áætlanir eru um í sjóeldi. Það er mjög ólíkt því sem er í öðrum löndum sem áætlanir á heimsvísu gera ráð fyrir að geta orðið um 10% af því magni sem framleitt er í sjóeldi. Það skýrist á einstökum umhverfisaðstæðum hér á landi með aðgang að grænni raforku, jarðvarma og landsvæðum sem hafa möguleika á hreinu vatni og sjó.“ segir Sigurður.
- Sigurður fóðrar lax í Dýrafirði þar sem Arctic Fish er með eldisstöðvar. Aðsend mynd
„Í prósentum talið er síðan enginn að vaxa eins hratt í sjóeldi eins og Ísland undanfarnin ár og vöxtur milli ára á síðasta ári var 23%. Áætlanir Noregs fyrir þetta ár gera ráð fyrir 0 til 2 prósent vöxt á þessu ári. En þetta er að vísu allt í prósentum, þannig að vöxturinn hjá þeim er meiri í tonnum talið.“
Hann segir heldur ekki alla átta sig á því að af þeim 2,6 milljónum tonna af eldislaxi sem framleidd voru í heiminum á síðasta ári, kom eitt af hverjum fjórum hrognum frá Vogunum hjá Benchmark Genetics Iceland.
„Ekki átta sig heldur allir á því að ég hef ekki komið í neina eldisstöð í heiminum þar sem íslenska fyrirtækið Vaki er ekki með einhvern tækjabúnað, talningar, lílfmassamælingar, eitthvað slíkt. Ég hef ekki komið inn í vinnslu á laxfiski þar sem Marel er ekki með tæki og tól.“
Öfgar í umræðunni
Svo segir hann að ekkert land í heiminum sé með eins opið kerfi þegar kemur að því að nálgast upplýsingar um fiskeldið.
„Þetta er allt opið á netinu, og þegar fólk heyrir það rekur það í rogastans miðað við umræðuna.“
Spurður út í umræðuna, sem oft hefur orðið heiftarleg, segir hann: „Kannski má segja að öfgar hafi verið báðu megin, og ég ber að sumu leyti ábyrgð á því sjálfur. Fiskeldisfyrirtækin hafa vanmetið mikilvægi þess að kynna hvað þau eru að gera, og opna dyrnar.“
Hann segist ekki sjá neina ástæðu til að gera lítið úr áhættuþáttum á borð við erfðablöndun.
„Ég viðurkenni að erfðablöndun getur verið áhættuþáttur, og þetta er einn af þeim þáttum þar sem andstæðingar fiskeldis hafa alveg rétt fyrir sér, og við eigum bara að segja það. Hún er samt klárlega ekki áhættuþáttur meðan það veiðast örfáir laxar sem eiga uppruna sinn úr fiskeldi, en ef það væri síendurtekið í einhverjum ám þá er það áhættuþáttur. En þessu þurfa menn alltaf að fylgjast með, og það er verið að fylgjast með því. Ef þetta fer yfir einhver mörk, þá finnst mér eðlilegt að menn bregðist við. Gætum samt að því að eldisbændum er annt um sín eldisdýr og gera allt sem þeir geta til þess að lágmarka áhættu í eldinu þar með talið að koma í veg fyrir slysasleppingar.“
Óþolinmótt fjármagn
Oft er spurt út í eignarhaldið, sem að stórum hluta er í höndum Norðmanna, en Sigurður bendir þá á að hann hafi svo sannarlega reynt að fá íslenska fjárfesta með sér í lið. Árið 2011 var hann búinn að stofna Arctic Fish, þá eini starfsmaður félagsins, og hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig ætti að byggja upp fyrirtækið. Hann hafi leitað til innlendra fjárfesta, gekk á milli banka og lífeyrissjóða og bankaði upp hjá íslenskum útgerðarfélögum.
„Ég fór út um allt, en þegar ég útskýrði að það þurfi svona mikið fjármagn og það þurfi að vera þolinmótt í 7 til 10 ár, þá er svarið oftast: gleymdu því. Menn höfðu aldrei heyrt um fjárfestingar sem þurfti að verja og geyma í svona langan tíma áður en menn gætu séð fram á að ávaxta stofnframlagið. En þetta skilja Norðmenn. Ég held að aldrei hafi verið stofnað laxeldisfyrirtæki í Noregi í eldi sem hefur verið að skila arðsemi fyrr en eftir svona tíu ár. Það er meðgöngutíminn. Hér sögðu menn bara: Siggi þetta er ekki hægt. Það er búið að reyna þetta oft.“
Novo ehf. fékk þó í lið með sér viðskiptafélaga frá Póllandi, sem Novo Food hafði mikið unnið með.
„Hann deildi sömu skoðunum um uppbyggingu félags í eldi með áherslu á einstakan uppruna og umhverfisvottaðar eldisafurðir. Við settum fjármagn í þetta sjálfir, en áfram var alltaf opið fyrir íslenska fjárfesta, en við náðum því ekki að fá einn einasta heimamann til þess að taka þátt í verkefninu. Svo koma, án þess að við báðum um það, aðilar frá Noregi sem spurðu hvort þeir mættu vera með. Það var svolítið öðru vísi en maður hafði upplifað áður.“
Hann segir að vissulega megi hafa mismunandi skoðanir á erlendu eignarhaldi.
„Á maður til dæmis að fá sér páskaegg frá Sirius sem er orðið norskt, eða fara inn á hótel hér á landi sem er í erlendri eigu? Í sjóeldi á laxi eru núna þrjú fyrirtæki með lax í sjó og bráðum bætist Háafell við í Ísafjarðardjúpi sem er frábær áfangi. Þau hafa verið fjögur, Arctic Fish og Arnarlax fyrir vestan, sem eru sambærilega stór, og svo Fiskeldi Austfjarða og Laxar, sem eru nú að sameinast. Hugsanlega munu hin sameinast líka, og að öllum líkindum mun það gerast einhvern tímann. En hjá öllum er sama sagan, menn fóru á milli og reyndu að fá fjárfesta en það gekk ekki. En það sem er ólíkt við þennan iðnað er að þessi þrjú fyrirtæki sem nú eru með lax í sjó eru öll skráð á hlutabréfamarkaði í Osló. Það er sem sagt mögulegt að fjárfesta í þeim, og lífeyrissjóðir hafa gert það. Hver sem er getur fjárfest í fiskeldi en það á ekkert við um alla geira þar sem erlent eignarhald er.“
Engin stefnumótun
Hann segist líka lengi hafa talað fyrir daufum eyrum um að hér á landi vanti alla stefnumótun varðandi fiskeldi og í raun varðandi eldisstarfsemi í heild sinni þar sem eru möguleikar í meira en bara laxfiskaeldi svo sem þara, ýmsum skelfisktegundum og öðrum eldisfisk. Það hreinlega standi greininni fyrir þrifum.
„Margir hafa mótmælt þessu og segja að það sé búið að gera fullt af skýrslum, en stefnumótun er eitthvað sem er tímasett og magnsett. Það eru auðvitað stjórnvöld sem eiga að skapa einhverja stefnu, með fyrirtækjunum.“
Aftur vísar hann til Noregs, þar sem stjórnvöld hafa sett sér skýra stefnu og uppfært hana nokkrum sinnum.
„Núna er stefnan að fara í fimm milljónir tonna. Þetta gerðu þeir rétt áður en þeir fóru í milljón tonn, og á undan því var til stefna um það að fara úr 300 þúsund í 900 þúsund tonn. Ég man eftir því að þeir ætluðu að ná því á þremur árum, og mönnum fannst það ofboðslega bratt. En það urðu innan við þrjú ár. Þegar þú ert með stefnuna klára og veist hvað þú ætlar að fara að gera, þá geturðu náð þessu.“
Fleygiferð
Laxeldið á Íslandi er þrátt fyrir þetta á fleygiferð. Árið 2021 seldu Íslendingar eldisafurðir fyrir 36 milljarða, og þar af eldislax fyrir 20,5 milljarða. Laxinn er þá kominn í annað sæti yfir verðmætustu sjávarafurðir Íslendinga, næst á eftir þorski sem seldist fyrir 132 milljarða.
- Vinnubáturinn Saltnes á ferð við Arnarnes þar sem Arctic Sea er með eldi. MYND/Jón Steinar Sæmundsson
„Við vorum ánægð þegar við komumst á topp tíu listann 2016, en þetta er staðan í dag. Við verðum ennþá hærri á næsta ári, og ég tel öruggt að eftir bara 3-5 ár þá verði laxinn orðinn í efsta sæti. Ekki í magni, þetta verða orðin 200 þúsund tonn, en í verðmætum. Tala nú ekki um þegar laxinn er að seljast á yfir 1.200 kr. líkt og nú er og verðið aldrei verið hærra.“
Hann segir Fræðslumiðstöðina hafa fundið fyrir auknum áhuga á þróun nýsköpunarverkefna tengdum uppbyggingu eldisstarfsemi hér á landi og aukið vægi verið á slíkan stuðning á undanförnum misserum. Þar sé sjálfbærni lykillinn.
„Það er ljóst að við munum þurfa að efla ímynd uppbyggingu eldisins með frekari fræðslu laða að nýtt starfsfólk og nýta nýsköpun til frekari uppbyggingar geirans. Þetta eru vissulega mikilvægasti stuðningur sem fræðslu- og nýsköpunarmiðstöðin getur stutt við.“
Sigurður Pétursson stofnaði eldisfélagið Arctic Fish á Vestfjörðum fyrir rúmum áratug. Hann var framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu þangað til síðasta sumar en sneri sér í haust að því að styðja við nýsköpun og fræðslu um stöðu og tækifæri uppbyggingar eldisstarfsemi hér á landi.Hann stofnaði fræðslumiðstöðina LAX-INN þar sem hann tekur á móti hópum og einstaklingum.
Árið 2006, fimm árum áður en hann stofnaði Arctic Fish, stofnaði hann ásamt félaga sínum fyrirtækið Novo ehf sem á Novo Food í Frakklandi sem er með samninga við alla stærstu stórmarkaðina um sölu á neytendaafurðum inná þennan stærsta markað Íslands fyrir ferskar sjávarafurðir.
„Ég er frumkvöðull í mér,“ segir Sigurður. Honum hafi því þótt kominn tími til að hugsa sér aftur til hreyfings þegar heil tíu ár voru komin frá stofnun Arctic Fish.
„Arctic Fish var skráð á markað og farið að ganga vel, og þá fannst mér mínu hlutverki vera lokið. Ég er hættur þar sem starfsmaður þótt ég eigi ennþá hlut í fyrirtækinu. Síðan einhenti ég mér í þennan þátt sem mér fannst hafa vantað, eftir að hafa verið tíu ár í þessari vegferð. Það vantaði miðstöð sem sinnti stuðningi við nýsköpun og fræðslu þessarar mikilvægu atvinnugreinar sem við Íslendingar höfum möguleika á að ná sérstöðu í umhverfisvænni matvælaframleiðslu eldisafurða.“
- LAX-INN, þarna er tekið á móti gestum sem vilja upplýsingar. Aðsend mynd
Frá því í september hafa meira en 3000 gestir komið í fræðslumiðstöðina, sem er til húsa við höfnina í Reykjavík.
„Svo erum við líka að fara í heimsóknir í fyrirtæki úti í bæ. Það er búið að vera mikið að gera og oft sækir fólk í að fræðast um eldisstarfsemi þar sem hvatinn hefur verið að kanna hvort fiskeldið sé í raun eins og sú mynd sem stundum er dreginn upp í fjölmiðlum. Það kemur ekkert í staðinn fyrir að fara og kynna sér eldisstarfsemina sem að stórum hluta fer fram í nokkurri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. LAX-INN er með opnar dyr í 101 Reykjavík þar sem hægt er að kynna sér beinar útsendingar úr land sem og sjóeldi ásamt fræðsluefni og stuðning við nýsköpun í greininni.“
Heimsmeistarar
„Við erum öflug á heimsvísu í ýmsum þáttum fiskeldis,“ segir Sigurður og minnir á að Íslendingar eigi nú þegar nokkur heimsmet á þessu sviði.
„Við erum heimsmeistarar í bleikjueldi, það eru engir stærri en Ísland. Við erum enn þann dag í dag heimsmeistarar í matfiskeldi á landi í laxi. Það er enginn stærri í heiminum heldur en Samherji í Öxarfirði, með um 2.000 tonn á síðasta ári.“
Með nýrri uppbyggingu félagsins á Reykjanesi er áætlað að fara í um 40 þúsund tonna matfiskeldi á laxi með landeldi. Landeldi ehf í Þorlákshöfn er þegar komið af stað með áform um álíka mikið eldi og Geo Salmo er líka með í undirbúning eldi á nærliggjandi svæði. Í Vestmannaeyjum er ILFS að undirbúa landeldi á laxi og ýmis önnur verkefni að fara af stað.
„Ef fram fer sem horfir þá eru áætlanir um álíka aukningu úr landeldi hér á landi eða framleiðslu um 100 þúsund tonn á næstu 3-5 árum og áætlanir eru um í sjóeldi. Það er mjög ólíkt því sem er í öðrum löndum sem áætlanir á heimsvísu gera ráð fyrir að geta orðið um 10% af því magni sem framleitt er í sjóeldi. Það skýrist á einstökum umhverfisaðstæðum hér á landi með aðgang að grænni raforku, jarðvarma og landsvæðum sem hafa möguleika á hreinu vatni og sjó.“ segir Sigurður.
- Sigurður fóðrar lax í Dýrafirði þar sem Arctic Fish er með eldisstöðvar. Aðsend mynd
„Í prósentum talið er síðan enginn að vaxa eins hratt í sjóeldi eins og Ísland undanfarnin ár og vöxtur milli ára á síðasta ári var 23%. Áætlanir Noregs fyrir þetta ár gera ráð fyrir 0 til 2 prósent vöxt á þessu ári. En þetta er að vísu allt í prósentum, þannig að vöxturinn hjá þeim er meiri í tonnum talið.“
Hann segir heldur ekki alla átta sig á því að af þeim 2,6 milljónum tonna af eldislaxi sem framleidd voru í heiminum á síðasta ári, kom eitt af hverjum fjórum hrognum frá Vogunum hjá Benchmark Genetics Iceland.
„Ekki átta sig heldur allir á því að ég hef ekki komið í neina eldisstöð í heiminum þar sem íslenska fyrirtækið Vaki er ekki með einhvern tækjabúnað, talningar, lílfmassamælingar, eitthvað slíkt. Ég hef ekki komið inn í vinnslu á laxfiski þar sem Marel er ekki með tæki og tól.“
Öfgar í umræðunni
Svo segir hann að ekkert land í heiminum sé með eins opið kerfi þegar kemur að því að nálgast upplýsingar um fiskeldið.
„Þetta er allt opið á netinu, og þegar fólk heyrir það rekur það í rogastans miðað við umræðuna.“
Spurður út í umræðuna, sem oft hefur orðið heiftarleg, segir hann: „Kannski má segja að öfgar hafi verið báðu megin, og ég ber að sumu leyti ábyrgð á því sjálfur. Fiskeldisfyrirtækin hafa vanmetið mikilvægi þess að kynna hvað þau eru að gera, og opna dyrnar.“
Hann segist ekki sjá neina ástæðu til að gera lítið úr áhættuþáttum á borð við erfðablöndun.
„Ég viðurkenni að erfðablöndun getur verið áhættuþáttur, og þetta er einn af þeim þáttum þar sem andstæðingar fiskeldis hafa alveg rétt fyrir sér, og við eigum bara að segja það. Hún er samt klárlega ekki áhættuþáttur meðan það veiðast örfáir laxar sem eiga uppruna sinn úr fiskeldi, en ef það væri síendurtekið í einhverjum ám þá er það áhættuþáttur. En þessu þurfa menn alltaf að fylgjast með, og það er verið að fylgjast með því. Ef þetta fer yfir einhver mörk, þá finnst mér eðlilegt að menn bregðist við. Gætum samt að því að eldisbændum er annt um sín eldisdýr og gera allt sem þeir geta til þess að lágmarka áhættu í eldinu þar með talið að koma í veg fyrir slysasleppingar.“
Óþolinmótt fjármagn
Oft er spurt út í eignarhaldið, sem að stórum hluta er í höndum Norðmanna, en Sigurður bendir þá á að hann hafi svo sannarlega reynt að fá íslenska fjárfesta með sér í lið. Árið 2011 var hann búinn að stofna Arctic Fish, þá eini starfsmaður félagsins, og hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig ætti að byggja upp fyrirtækið. Hann hafi leitað til innlendra fjárfesta, gekk á milli banka og lífeyrissjóða og bankaði upp hjá íslenskum útgerðarfélögum.
„Ég fór út um allt, en þegar ég útskýrði að það þurfi svona mikið fjármagn og það þurfi að vera þolinmótt í 7 til 10 ár, þá er svarið oftast: gleymdu því. Menn höfðu aldrei heyrt um fjárfestingar sem þurfti að verja og geyma í svona langan tíma áður en menn gætu séð fram á að ávaxta stofnframlagið. En þetta skilja Norðmenn. Ég held að aldrei hafi verið stofnað laxeldisfyrirtæki í Noregi í eldi sem hefur verið að skila arðsemi fyrr en eftir svona tíu ár. Það er meðgöngutíminn. Hér sögðu menn bara: Siggi þetta er ekki hægt. Það er búið að reyna þetta oft.“
Novo ehf. fékk þó í lið með sér viðskiptafélaga frá Póllandi, sem Novo Food hafði mikið unnið með.
„Hann deildi sömu skoðunum um uppbyggingu félags í eldi með áherslu á einstakan uppruna og umhverfisvottaðar eldisafurðir. Við settum fjármagn í þetta sjálfir, en áfram var alltaf opið fyrir íslenska fjárfesta, en við náðum því ekki að fá einn einasta heimamann til þess að taka þátt í verkefninu. Svo koma, án þess að við báðum um það, aðilar frá Noregi sem spurðu hvort þeir mættu vera með. Það var svolítið öðru vísi en maður hafði upplifað áður.“
Hann segir að vissulega megi hafa mismunandi skoðanir á erlendu eignarhaldi.
„Á maður til dæmis að fá sér páskaegg frá Sirius sem er orðið norskt, eða fara inn á hótel hér á landi sem er í erlendri eigu? Í sjóeldi á laxi eru núna þrjú fyrirtæki með lax í sjó og bráðum bætist Háafell við í Ísafjarðardjúpi sem er frábær áfangi. Þau hafa verið fjögur, Arctic Fish og Arnarlax fyrir vestan, sem eru sambærilega stór, og svo Fiskeldi Austfjarða og Laxar, sem eru nú að sameinast. Hugsanlega munu hin sameinast líka, og að öllum líkindum mun það gerast einhvern tímann. En hjá öllum er sama sagan, menn fóru á milli og reyndu að fá fjárfesta en það gekk ekki. En það sem er ólíkt við þennan iðnað er að þessi þrjú fyrirtæki sem nú eru með lax í sjó eru öll skráð á hlutabréfamarkaði í Osló. Það er sem sagt mögulegt að fjárfesta í þeim, og lífeyrissjóðir hafa gert það. Hver sem er getur fjárfest í fiskeldi en það á ekkert við um alla geira þar sem erlent eignarhald er.“
Engin stefnumótun
Hann segist líka lengi hafa talað fyrir daufum eyrum um að hér á landi vanti alla stefnumótun varðandi fiskeldi og í raun varðandi eldisstarfsemi í heild sinni þar sem eru möguleikar í meira en bara laxfiskaeldi svo sem þara, ýmsum skelfisktegundum og öðrum eldisfisk. Það hreinlega standi greininni fyrir þrifum.
„Margir hafa mótmælt þessu og segja að það sé búið að gera fullt af skýrslum, en stefnumótun er eitthvað sem er tímasett og magnsett. Það eru auðvitað stjórnvöld sem eiga að skapa einhverja stefnu, með fyrirtækjunum.“
Aftur vísar hann til Noregs, þar sem stjórnvöld hafa sett sér skýra stefnu og uppfært hana nokkrum sinnum.
„Núna er stefnan að fara í fimm milljónir tonna. Þetta gerðu þeir rétt áður en þeir fóru í milljón tonn, og á undan því var til stefna um það að fara úr 300 þúsund í 900 þúsund tonn. Ég man eftir því að þeir ætluðu að ná því á þremur árum, og mönnum fannst það ofboðslega bratt. En það urðu innan við þrjú ár. Þegar þú ert með stefnuna klára og veist hvað þú ætlar að fara að gera, þá geturðu náð þessu.“
Fleygiferð
Laxeldið á Íslandi er þrátt fyrir þetta á fleygiferð. Árið 2021 seldu Íslendingar eldisafurðir fyrir 36 milljarða, og þar af eldislax fyrir 20,5 milljarða. Laxinn er þá kominn í annað sæti yfir verðmætustu sjávarafurðir Íslendinga, næst á eftir þorski sem seldist fyrir 132 milljarða.
- Vinnubáturinn Saltnes á ferð við Arnarnes þar sem Arctic Sea er með eldi. MYND/Jón Steinar Sæmundsson
„Við vorum ánægð þegar við komumst á topp tíu listann 2016, en þetta er staðan í dag. Við verðum ennþá hærri á næsta ári, og ég tel öruggt að eftir bara 3-5 ár þá verði laxinn orðinn í efsta sæti. Ekki í magni, þetta verða orðin 200 þúsund tonn, en í verðmætum. Tala nú ekki um þegar laxinn er að seljast á yfir 1.200 kr. líkt og nú er og verðið aldrei verið hærra.“
Hann segir Fræðslumiðstöðina hafa fundið fyrir auknum áhuga á þróun nýsköpunarverkefna tengdum uppbyggingu eldisstarfsemi hér á landi og aukið vægi verið á slíkan stuðning á undanförnum misserum. Þar sé sjálfbærni lykillinn.
„Það er ljóst að við munum þurfa að efla ímynd uppbyggingu eldisins með frekari fræðslu laða að nýtt starfsfólk og nýta nýsköpun til frekari uppbyggingar geirans. Þetta eru vissulega mikilvægasti stuðningur sem fræðslu- og nýsköpunarmiðstöðin getur stutt við.“