Matvælakerfi heimsins eiga stóran þátt í loftslagsbreytingum, skógareyðingu og tapi á líffræðilegum fjölbreytileika. Áhrif frá landbúnaði eru þó margfalt meiri en frá fiskveiðum og fiskeldi en þar er þó einnig nauðsynlegt að grundvallarbreytingar verði því, eins og Birgir Örn Smárason, fagstjóri Sjálfbærni og eldi hjá Matís segir, stendur matvælaframleiðsla fyrir þriðjungi af allri losun gróðurhúsalofttegunda. Birgir flutti nýlega erindi á Matvælaþingi 2023 sem bar heitið Hvað er í matinn árið 2050?

Birgir Örn Smárason,  fagstjóri hjá Matís.
Birgir Örn Smárason, fagstjóri hjá Matís.

Í erindinu velti Birgir einmitt upp þessari spurningu, Hvað er í matinn 2050? Til þess að svara þessari stóru spurningu studdist hann meðal annars við gervigreind og allt myndefni sem fylgdi með erindinu var gert með gervigreind. Áherslan í erindi Birgis var á lausnir í landbúnaði sem miða að minni land- og vatnsnotkun og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Hann segir þó miklar áskoranir framundan í fiskveiðum og fiskeldi, m.a. hvað snýr að ofveiði, súrnun sjávar og fleiri þáttum.

Víxlverkandi áhrif

„Þetta hefur víxlverkandi áhrif. Það hve matvælaframleiðslan losar mikið og hve mikið loftslagsbreytingar og hlýnun hefur áhrif á matvælaframleiðsluna. Þetta sést til dæmis í súrnun sjávar, hlýnun, þurrkum og ofsaveðrum sem rústa uppskerum,“ segir Birgir.

Matarbakkinn 2050. Frumuræktað kjöt, ýmsar tegundir skordýra og  örþörungar.
Matarbakkinn 2050. Frumuræktað kjöt, ýmsar tegundir skordýra og örþörungar.

Þegar horft er sérstaklega til fiskveiða blasi það hins vegar við að almennt séð er losun á hvert kíló af fiski miklu minni en losun við framleiðslu á einu kíló af kjöti. Þar liggi því kannski ekki stærsta áskorunin. Hún felist fremur í því að veiðar séu sjálfbærar að því leyti að ekki sé gengið á stofnana. Íslendingar hafi að langmestu leyti komist yfir þennan hjalla en á heimsvísu sé þetta risavaxið vandamál.

Orkuskipti stóra viðfangsefnið

„Þegar við horfum á sjávarútveginn hér á landi blasir kannski við að viðfangsefnið á næstu áratugum er orkuskipti. Ég hef bent á það að á Íslandi er lítið sem ekkert fæðuöryggi. Ástæðan er sú að þjóðin er algjörlega háð innflutningi á orkugjöfum; eldsneyti fyrir skip, landbúnaðartæki og jafnvel fiskmjölsverksmiðjur. Að því leyti til eru orkuskiptin mikilvægasti áfanginn þegar kemur að sjávarútvegi á Íslandi.“

Lóðrétt ræktun og flutningamátinn frá búi til bæja er rafknúnir drónar.
Lóðrétt ræktun og flutningamátinn frá búi til bæja er rafknúnir drónar.

Hann bendir á að miklar tækniframfarir hafi orðið innan fiskvinnslu á Íslandi síðustu áratugi með aukinni sjálfvirkni og fullnýtingu afurða. Á því sviði standi Íslendingar einna fremst allra þjóða. Umbreytingin í landi verður mun minni en til sjós vegna þess hve mikið hafi verið fjárfest í vinnslutækni.

Stærsta áskorunin í fiskeldi er fóðrið

Birgir segir helstu áskorunina hvað varðar fiskeldi snúa að fóðri. Á milli 75-80% af losun gróðurhúsalofttegunda í fiskeldi megi rekja til fóðurframleiðslu og flutninga á fóðri. Stór hluti af laxafóðri, eins og fóðri húsdýra, sé mjöl úr soja sem í miklum mæli er ræktað í Brasilíu á svæðum Amazon þar sem regnskógar hafa verið ruddir.

Litríkar próteinkökur og drykkur úr handhægri heimilisvél. Jólagjöfin 2050.
Litríkar próteinkökur og drykkur úr handhægri heimilisvél. Jólagjöfin 2050.

„Því myndi fylgja gríðarlegur sparnaður á orku og losun ef soja yrði nýtt beint til manneldis í stað dýraeldis. Það þarf að horfa til þess að stuðla að umskiptum á þessu sviði með notkun nýpróteina til fóðurgerðar, t.a.m. úr örþörungum eða stórþörungum, skordýrum og örverupróteinum sem ræktað yrði á umhverfisvænan hátt, og á sama tíma þarf að horfa til tækifæra innanlands þegar kemur að ræktun hráefna.“

Prótein til fóðurframleiðslu úr grasi

Kollegar Birgis hjá Matís hafa unnið að rannsóknum á próteini úr grasi. Takist að þróa aðferðir til að vinna prótein úr grasi til fóðurgerðar yrði til mikils unnið. Með því yrði til innlendur fóðurgjafi því eins og staðan er núna er allt fiskfóður flutt inn að undanskildu innlendu fiskmjöli. Mikil uppbygging er á landeldi á Íslandi og flytji þessar stöðvar inn allt sitt fóður stefnir í innflutning alls á um 150-200 þúsund tonnum af fóðri á ári. Önnur áskorun sem fiskeldi stendur frammi fyrir er lúsaplágur og fisksjúkdómar ásamt ytri aðstæðum í sjókvíaeldi sem ekki verður stýrt. Þar er önnur umbreyting sem þarf að verða í fiskeldi, sem að hluta til er hægt að koma af stað með auknu landeldi eða bættri tækni og lokuðum kerfum í sjó.