Elvar Antonsson líkanasmiður frá Dalvík er sáttur við líkan sitt af Húna II sem var afhjúpað við Iðnaðarsafnið á Akureyri í byrjun mánaðarins. Safnið fékk Anton til verksins í tilefni þess að skipið er 60 ára á þessu ári og 17. júní nk. verða 25 ár síðan safnið opnaði í fyrsta sinn.

Elvar hefur lagt fyrir líkanasmíði frá árinu 1998 þegar hann smíðaði eftirmynd af Akureynni. Nú er staðan sú að verkefnin hrannast upp og Elvar starfar ekki við annað í dag. Nú er hann á kafi í smíði á Stellunum svonefndu.

„Þegar maður vinnur með lifandi efni eins og timbur er ekki hægt að svína á einu eða neinu. Áferðin varð á endanum eins lík fyrirmyndinni og hægt var og ástæðan er sú að noaðir voru til eikarplankar frá því Húni II var smíðaður,“ segir Elvar.

Þetta var lykillinn að því að líkanið fékk þá fallegu áferð sem vakið hefur athygli. Elvar kláraði verkið með því að bera á skipið sömu gömlu fernisolíuna og var borin á fyrirmyndina á sínum tíma áður en hún fór á flot.

Húni II var smíðaður í skipasmíðastöð KEA og sjósettur í Eyjafirði 22. júní 1963. Hann var smíðaður fyrir Björn Pálsson á Löngumýri og Hákon Magnússon. Skipið er í eigu Iðnaðarsafnsins á Akureyri en félagsskapurinn Hollvinir Húna annast skipið af mikilli kostgæfni.

Menntastofnunin Húni II

Sigfús Helgason, forstöðumaður Iðnaðarsafnsins, segir að báturinn sé í dag menntastofnun. Aðalverkefni hans í um það bil 15 ár hafi verið að sigla með grunnskólakrakka og kynna fyrir þeim ýmislegt sjávar- og fiskitengt. Frá öngli til maga heitir verkefnið og er það unnið í samstarfi við sjávarútvegsdeild Háskólans á Akureyri. Ágæt umfjöllun er um afhjúpunina á www.akueyri.net.

Elvar Antonsson líkanasmiður á Dalvík. FF MYND/ÞORGEIR
Elvar Antonsson líkanasmiður á Dalvík. FF MYND/ÞORGEIR
© Þorgeir Baldursson (.)

Líkanið er í stærðinni 1:30 sem eru sömu stærðarhlutföll og Snæfellið EA sem Grímur Karlsson smíðaði fyrir nokkrum árum og er einnig á Iðnaðarsafninu. Menn vildu hafa þessi tvö skip í sömu stærðarhlutföllum svo stærðarmunurinn yrði sjáanlegur á skipunum.

„Í smíðaferlinu tók ég sérstaklega eftir því hve teikningin var vel unnin af Tryggva Gunnarssyni yfirskipasmiði sem teiknaði og hannaði Húna II á sínum tíma. Þetta var sérlega nákvæmt allt miðað við tímalínuna.“

Elvar byrjaði á smíði líkansins síðastliðið haust og hafa farið um 800 klukkustundir í smíðina. Hann var með trillu á strandveiði síðastliðið sumar en tók þá ákvörðun þá um haustið að selja hana og helga sig alfarið smíði skipslíkana.

„Núna er ég að byrja á Stellunum svokölluðu frá Akureyri. Stellurnar voru Svalbakur EA og Sléttbakur EA og voru taldir fallegustu skuttogarar á síns tíma. Sigfús Helgason, forstöðumaður Iðnaðarsafnsins, stofnaði hóp á samfélagsmiðlum í kringum verkefnið og er nánast búinn að safna upp í kostnaðinn,“ segir Elvar.