Laxeldisstöð Landeldis er að rísa um þessar mundir í Þorlákshöfn. Meðal áætlana Landeldis er að fullnýta afurðir og lífrænan úrgang. Hugmyndirnar ganga út á framleiðslu áburðar úr lífrænum úrgangi til notkunar fyrir íslenskan landbúnað. Þegar framleiðslan verður komin í fullan gang gæti hún sparað milljarða króna í innfluttum áburði og aukið fæðuöryggi Íslands.

Fiskifréttir sögðu frá uppbyggingaráformum Landeldis hf. í október á síðasta ári. Líkt og þar kom fram stendur hópur innlendra fjárfesta að baki fyrirtækinu. Fjárfestingafélagið Stoðir hf. hefur aukið við hlut sinn í félaginu síðan þá, eða í 35,8%. Stofnendur og starfsmenn eiga einnig umtalsverðan hlut. Landeldi á seiðaeldisstöð við Hveragerði sem hefur þegar náð fullum afköstum. Í fyrsta áfanga fulleldisstöðvarinnar verður 2.500 tonna ársframleiðsla en í beinu framhaldi verður framleiðslan aukin upp í 5.000 tonn. Forsvarsmenn Landeldis stefna þó enn hærra eða á um 33.500 tonna framleiðslu í framtíðinni og hafa tryggt skalanleika með nægu landrými í Ölfusi.

Fyrr í sumar hlaut Landeldi hæsta styrk umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem ætlað er að styðja við verkefni sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi, alls 20 milljónir króna og samtals 30 milljónir frá Tækniþróunarsjóði á síðustu 12 mánuðum. Þeir fjármunir eru nýttir til visthæfingar landeldis, en í því felst að þróa aðferðir til að nýta fiskimykju og hliðarstrauma frá eldinu í áburð. Styrkveitingarnar munu opna dyr fyrir frekari styrkjum upp á mun hærri upphæðir frá evrópskum tækni- og iðnaðarsjóðum.

Rúnar Þór Þórarinsson, yfirmaður nýsköpunar- og umhverfismála hjá Landeldi, segir laxinn vera alinn upp í sláturstærð í landkerjum. Landeldi á svo stórum iðnaðarskala, allt að 33.500 tonn, þekkist hvergi í heiminum sem stendur. Við þetta falli til mikið af lífrænum úrgangi; fiskimykju.

Rík af nitur og fosfór

„Það er mikill samhugur hjá öllum sem að þessu standa að gera allt sem við getum að fara vel með það sem okkur er treyst fyrir. Víða um heim er verið að gera tilraunir sem snúa að umbreytingu fiskimykju í nothæfan áburð. Það sem vantar í húsdýramykjuna, hvað efnainnihald varðar og til að fá sem kröftugastan áburð, er einmitt að finna í fiskimykju. Hún er rík af nitur og fosfór. Þegar húsdýramykja og fiskimykja eru unnar saman í áburð verður hann miklum mun breiðvirkari“ segir Rúnar Þór.

Rúnar Þór Þórarinsson, yfirmaður nýsköpunar- og umhverfismála hjá Landeldi.
Rúnar Þór Þórarinsson, yfirmaður nýsköpunar- og umhverfismála hjá Landeldi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann segir að verksmiðja sem blandi saman þessum lífræna úrgangi úr fiskeldi og húsdýraeldi sé ekki til á landinu en samhugur sé innan landeldisins og fyrirsvarsmönnum bænda að hrinda verkefninu í framkvæmd.

„Okkar fýsileikakönnun leiddi í ljós að áburðarverksmiðja á stórum skala getur gert framkvæmdina arðbæra og þar með framkvæmanlega. Til þess þurfa ýmsir hagaðilar að vera samstíga þ.m.t. landeldisfyrirtækin sem og bændur, að ógleymdu hinu opinbera. Það er til mikils að vinna. Verkefnið er umhverfisvænt og stóreflir umhverfisvernd með því að nýta betur aðföng innanlands og þar með styrkja hringrásarhagkerfið, minnka flutning til landsins með tilheyrandi kolefnisfótspori og nýta verðmæt næringarefni. Einnig er verðmætt fyrir okkur sem þjóð að stýra betur okkar áburðarmálum. Sem dæmi hefur rafmagnsverð á Íslandi ekki hækkað á við hækkanir erlendis. Innlendur áburður þar sem hráefnið er innlent að mestu myndi tryggja meiri fyrirsjáanleika í verði og framboði en nú er raunin.

Mikið samtal hefur átt sér stað meðal hagsmunaaðila og nefna má að Landeldi hf. er nú aðili að Bændasamtökunum. Nú er viðfangsefnið meðal annars að kortleggja hve mikinn áburð bændur þurfa og hve mikið þarf til landræktar og til annarra þátta.

Þá hafa verið stofnuð Landeldissamtök Íslands sem eru samtök þeirra fyrirtækja sem eru vel á veg komin í undirbúningi að fulleldi á landi, sem felst í að vera langt komin í umhverfismati fyrir hreint landeldi. Landeldi hf. hefur leitt þessa vinnu með Samherja hf., Fiskeldi Vestmannaeyja, Geo Salmo og Matorku, og hafa fleiri aðilar þegar sótt um inngöngu. Einhugur er hjá aðilum að fullkanna áformin um framleiðslu á áburði úr fiskimykju og húsdýramykju sem líklega yrði staðsett á Suðurlandi þar sem mesta uppbyggingin fer fram.

Fyrsta kynslóð í fyrsta tankinum hjá Landeldi.
Fyrsta kynslóð í fyrsta tankinum hjá Landeldi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Gæti uppfyllt ríflega helming innlendrar eftirspurnar

„Eftir 10-15 ár væntum við þess að úr þurrefnismagninu sem fellur til hjá landeldisstöðvum og landbúnaði einungis hér sunnan heiða getum við framleitt 25-30.000 tonn af áburði á ári. Á síðasta ári voru flutt inn 56.000 tonn af áburði fyrir landbúnað, skógrækt, landgræðslu og annarra verkefna. Meðalverð á tonni af innfluttum áburði var þá kr. 132.000 og hafði þá tvöfaldast frá því árið áður. Áburðarverð hefur hækkað verulega síðan þá. Margt bendir til að verð á áburðartonni verði komið upp í kr. 200.000 á yfirstandandi ári. Þetta er í raun neyðarástand,“ segir Rúnar Þór.

Þetta þýðir að innflutningsverð á 56.000 tonnum af áburði á þessu ári gæti numið um 12 milljörðum króna. Með innlendri framleiðslu yrði hægt að uppfylla ríflega helming af áburðarþörf með úrvinnslu lífræns úrgangs sem til fellur innanlands.

Bændasamtökin hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga. Um er að ræða ríflega helming af öllum innflutningi áburðar og það eru tölur sem eru farnar að skipta verulega máli. Landeldislax og aðrar landbúnaðarvörur verða einnig fyrir vikið umhverfisvænni og þjóðin í heild sinni minnkar kolefnissporið. Tilbúinn áburður er framleiddur erlendis með mjög háu kolefnisspori og fosfórnámur heimsins eru að stærstum hluta í Rússlandi og þær eru takmörkuð auðlind. Þörfin fyrir áburð heldur áfram að aukast í takt við fjölgun mannkyns og við því þarf að bregðast með samstöðu og metnaðarfullum áformum,“ segir Rúnar Þór.