Færst hafa í vöxt farþegaskipti í tengslum við komur og brottfarir skemmtiferðaskipa til og frá Reykjavík. Farþegaskiptin kalla á annars konar umsýslu með tilheyrandi vegabréfseftirliti, tollgæslu og vopnaleit sem hefur í fyrsta sinn í sumar farið fram í tjöldum á Skarfabakka. Utan um þessa umsýslu halda Faxaflóahafnir. Stefnt er að fyrstu skóflustungu að nýrri 4.000 fermetra komustöð Faxaflóahafna að ári liðnu.

Gunnar Tryggvason, starfandi hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir sex mánaða uppgjör sýna mikinn vöxt. Á því tímabili sem skemmtiferðaskipin skiluðu sér ekki hingað til lands vegna heimsfaraldursins varð vöxtur í tekjum vegna vöruflutninga til landsins. Sú aukning haldi sér núna en til viðbótar sé mikill vöxtur vegna fjölda farþegaskipa.

Gunnar segir mjög stór verkefni framundan hjá Faxaflóahöfnum. Næsta vor verður komin landtenging fyrir minni gerðir skemmtiferðaskipa í gömlu höfninni. 2026 hefjast framkvæmdir við landtengingu fyrir stóru skemmtiferðaskipin á Skarfabakka. Sú framkvæmd kemur til með kosta nálægt einum milljarði króna.

Gunnar Tryggvason, starfandi hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Gunnar Tryggvason, starfandi hafnarstjóri Faxaflóahafna.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

30% aukning næsta sumar

Þá stefnir í að slegið verði met í komum skemmtiferðaskipa sumarið 2023. Komum skemmtiferðaskipa fjölgar þá um 30% samkvæmt bókunarstöðunni eins og hún er núna. Á þessu ári eru bókaðar 185 komur. Á næsta ári hafa verið bókaðar 240 komur skemmtiferðaskipa. Þessar tölur breytast dag frá degi og vel hugsanlegt er að komur verði langtum fleiri.

Meiri tekjur af hverjum farþega

„Á Skarfabakka ætlum við að byggja upp farþegaskipaaðstöðu sem svipar í raun til flugstöðvar. Eðli þessarar greinar er að breytast í grundvallaratriðum. Fyrir tveimur árum var staðan sú að allir farþegar með skemmtiferðaskipum komu hingað að morgni og voru farnir að kvöldi. Breytingin er sú að farþegaskipti verða hér. Farþegar koma með flugi til landsins og innrita sig í farþegaskipin hér. Farþegar sem koma með skipunum fara frá borði hér og halda heim leið með flugi. Þetta þýðir að farþegar hafa lengri viðveru í landinu því komufarþegar koma flestir hingað tveimur dögum áður en sigling hefst, bóka fyrir sig gistingu og njóta þess sem landið hefur að bjóða. Við erum að seilast inn á þennan markað þar sem ríkir mikil samkeppni við önnur Evrópulönd. Það vilja allir fá þetta til sín og okkur er að takast það. Það sem mestu skiptir er að meiri tekjur verða fyrir þjóðarbúið af hverjum farþega,“ segir Gunnar.

Í þessari nýju byggingu verður landamæraeftirlit, tollgæsla, innritunarborð og vopnaleit.

Faxaflóahafnir hafa auglýst stöðu hafnarstjóra lausa. Gunnar var meðal umsækjenda árið 2020 þegar Magnús Þór Ásmundsson var ráðinn hafnarstjóri í stað Gísla Gíslasonar. Magnús Þór hefur látið af störfum og staða hafnarstjóra verið auglýst laus til umsóknar. Gunnar, sem er starfandi hafnarstjóri, segir að tíminn leiði í ljós hvort hann verði á meðal umsækjenda núna.