Sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir að leggja þyrfti kraft í rannsóknir á atferli og áhrif hnúðlaxa sem byrjaður er að tímgast í íslenskum veiðiám.

„Við höfum fengið upplýsingar um að hnúðlaxar hafi veiðst í milli 60 og 70 ám á landinu undanfarin þrjú ár,“ segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknarstofnunar.

„Það eru hnúðlaxaseiði að klekjast út í ám hérna hjá okkur og ganga til sjávar. Þannig að þau væntanlega koma til með að lifa af í einhverjum mæli og halda áfram að fjölga sér,“ segir Guðni.

Hnúðlax sem upprunninn er í Kyrrahafinu veiddist fyrst hér á landi árið 1960 en það er ekki fyrr en á alsíðustu árum sem vart hefur orðið við að þessi framandi tegund hefur hrygnt í íslenskum ám og seiði gengið til sjávar.

Það sem fer upp kemur niður

Guðni lagði í fyrravor í samstarfi við pólskan mann sem starfar í Bretlandi gildrur við ósa þriggja laxveiðaáa á Vesturland til að kanna hvort vart yrði við hnúðlaxaseiði að ganga til sjávar eftir að hafa klakist út í ánum.

Fleiri hundruð hnúðlaxaseiði komu í gildrurnar á þessum stöðum, til dæmis í Botnsá í Hvalfirði þar sem uppskeran var um sex hundruð seiði eftir þrjár nætur. Hinar árnar tvær voru Grímsá í Borgarfirði og Langá á Mýrum. Í þeirri síðarnefndu höfði fimmtán hnúðlaxar gengið upp í gegn um teljarann við Sjávarfoss árið áður og einn þeirra veiðst.

Guðni segist eiga von á því að hnúðlaxaseiðin sem gengu til sjávar úr íslenskum ám í fyrra skili sér aftur þangað nú í sumar.

„Það voru hnúðlaxar að veiðast í milli 60 og 70 ám hér á landi bæði 2019 og 2021 og þá eigum við alveg von á því að það hafi einhverjir hnúðlaxar hrygnt í þeim ám líka. Þannig að dreifingin er orðin býsna mikil,“ bendir Guðni á enn hnúðlaxagöngur eru jafnan á tveggja ára fresti.

Fátt til ráða í stærstu ánum

Spurður hvort Íslendingar ættu að gera eitthvað til að grípa inn í þróunina svarar Guðni játandi en segir þá verða að spyrja hvort það sé eitthvað sem hægt sé að gera.

„Það er ekkert hægt að gera í stórum ám eins og Ölfusá, í Hvítá í Borgarfirði eða Skjálfandafljóti svo dæmi séu tekin. En það væri alveg mögulegt þar sem eru fiskvegir, eins og í Selá til dæmis, þar sem sést hafa myndir í teljaranum af hnúðlaxi að ganga upp fyrir fossinn,“ segir Guðni.

„Ef það ganga 50 laxar inn í Selá þá skiptir það kannski ekki miklu máli en ef það ganga fimm þúsund laxar inn í Selá þá er ímynd hennar orðin önnur heldur en hún hefur verið hingað til,“ bendir Guðni á.

Árásargjarn gestur

Að sögn Guðna halda hnúðlaxar sig að mestu neðarlega í ánum og hrygna þar. Veiðimenn beri að þeir hreki aðra laxfiska úr hyljum.

„Það var einn finnskur kollegi minn sem var að snorkla í á og það kom hnúðlaxahrygna og beit í GoPro myndavélina sem hann var með. Það var tvisvar eða þrisvar sem hún kom með kjaftinn á móti honum. Svo getur verið að hann hafi áhrif á sjóbleikju og sjóbirting sem er oft á neðri svæðum ánna.“

Norskir strandveiðimenn hafa löngum nýtt hnúðlax sem veiðist í sjó sem meðafli þegar þeir eru á höttunum eftir Atlantshafslaxi á vorin. Við Kyrrahafið veiða Rússar að sögn Guðna á milli tvö og þrjú hundruð þúsund tonn. Hann segir hægt að velta fyrir sér hvort hnúðlax geti orðið nytjastofn hérlendis. „Getur hann orðið veiðistofn í einhverjum af þessum ám?“ spyr hann.

Hjálparhönd frá löggjafanum

Á árinu 2021 voru 368 hnúðlaxar skráðir í veiðibækur stangveiðimanna hér og hefur sú skráning verið ein helsta leið vísindamanna til að fylgjast með útbreiðslunni. Fjölmörgum spurningu er ósvarað.

„Ég hefði gjarnan viljað að ég væri með eins og tvo menn svo við gætum farið í það að skoða þetta af alvöru og geta einbeitt sér að því. Eitt er að fylgjast með og annað er að gera einhverjar almennilegar rannsóknir,“ segir Guðni sem bendir á að Alþingi hafi nýlega samþykkt lagaákvæði sem gildir til 2025 og gerir kleift að takmarka ágang hnúðlax á búsvæðum íslenskra laxfiska.

„Nú má Fiskistofa heimila veiðifélögum að beita veiðiaðferðum sem annars hefðu verið ólöglegar með ádrætti í ám til þess að stemma stigu við fjölgun hnúðlaxa. Hnúðlaxinn er yfirleitt neðarlega í ánum og menn verða varir við hann í hyljum og hafa þá verið að að draga fyrir í einhverjum ám. Það var verið að breyta þessu ákvæði þannig að menn yrðu ekki teknar við ólöglegar veiðar. En líka þá að menn yrðu að gæta varfærni og væru ekki að skaða okkar lax eða bleikju eða sjóbirting,“ segir Guðni Guðbergsson.