Óhætt er að segja að lagareldisfrumvarpið sem nú er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd hafi fengið blendnar móttökur á Alþingi.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra segir nefndina hafa fengið tillögur frá sér og ráðuneytinu um leiðir ef nefndarmenn vilji horfa til þess að hafa leyfin tímabundin eins og helsta gagnrýnin hafi snúist um.

„Þá er mikilvægt að horfa niður allan lagabálkinn og ganga úr skugga um að markmiðsgrein laganna haldist og að við getum áfram verið með jafn íþyngjandi aðgerðir og eru í frumvarpinu sem var lagt fram. Þau eru að minnsta kosti komin með hugmyndir til að vinna úr og kanna málin sjálf auðvitað betur,“ segir Bjarkey.

Trú á möguleikum fiskeldis

Fréttir bárust nýlega af fjórtán þúsund sýktum strokulöxum í Noregi. Er þetta aðeins nýjasta fréttin af alvarlegum atvikum í fiskeldi. Bjarkey segist leyfa sér að trúa því að þrátt fyrir áföll muni Íslendingar ná tökum á þessari atvinnugrein.

„Eitt af því sem við erum að innleiða núna eru smitvarnarsvæði. Norðmenn sögðu að ef það væri eitthvað sem við gætum breytt væri það að það væri bara einn aðili á einu smitvarnasvæði. Þá væri bara hver aðili ábyrgur fyrir þeim stað sem hann væri á,“ segir Bjarkey.

Vöxtur ef fiskeldi er haldið innan lagarammans

Áformin segir Bjarkey vera þau að fiskeldi geti vaxið ef greinin haldi sig innan markmiða laganna. „Ef hún gerir það ekki eru líkur á að það fjari frekar undan en hitt,“ segir ráðherra.

Hér sé verið að innleiða miklu skýrara regluverk en þekkist í Noregi eða Færeyjum og ekki nema brotabrot af því regluverki gildi í Skotlandi. „Nái þetta fram að ganga er umgjörðin orðin mjög góð að okkar mati.“