„Það eru verri og skárri tímar,“ segir Sigurður Baldursson hjá Baldri Halldórssyni ehf. á Akureyri um verkefnastöðuna í bátaviðgerðum.

Fyrirtækið flytur inn allra handa búnað í báta, fyrst og fremst frá Vetus í Hollandi, og segir Sigurður söluna hafa minnkað á þessu ári.

„Trillukarlar eru alltaf að bíða eftir að strandveiðikerfið verði eitthvað lagað,“ segir Sigurður. Menn séu hikandi við að fjárfesta þegar strandveiðunum sé lokið í byrjun júlí án þess að þeir hafi náð ásættanlegri veiði. Sumir flytji á brott og það bitni á afleiddum störfum. „Kerfið er ekki að styrkja brothættar byggðir ef þeir þurfa að fara vestur til veiða og skilja heimabyggð sína eftir tekjulægri en áður.“

Hraðgengur en valtur

Í síðustu viku var strandveiðibáturinn Karri, sem gerður er út frá Hrísey, sjósettur eftir yfirhalningu hjá Sigurði. „Þetta er Mótunarbátur sem er hraðgengur en var valtur og við settum á hann svokallaða síðustokka sem hægja á veltingnum,“ segir hann.

Karri EA 26 sjósettur. Mynd/Þorgeir Baldursson
Karri EA 26 sjósettur. Mynd/Þorgeir Baldursson

Næstu verkefnin segir Sigurður vera hobbíbáta sem ekki hafi strandveiðileyfi. „Við erum að setja nýja Vetus-vél í Færeying og síðan þar á eftir erum við með nokkrar skemmtibáta til viðgerðar,“ segir hann.

Fyrirtækið Baldur Halldórsson ehf. á sér langa sögu.

„Pabbi byrjaði að smíða trébáta á Hlíðarenda 1953. Þetta hefur eiginlega verið starfrækt óslitið síðan. Allt breyttist upp úr 1975 þegar Fiskveiðasjóður hætti að lána til bátakaupa og trébátasmíðar dóu út,“ segir Sigurður. Þá hafi trefjaplastbátar tekið við.

Yfir hundrað bátar síðan 1952

„Pabbi fór að flytja inn skrokka og sá í framhaldi af því þessar vörur frá Vetus sem er risafyrirtæki í Hollandi með allt í báta; vélar og niður í smæstu hluti,“ segir Sigurður.

Það sem var í upphafi aukabúgrein á landlitlum bóndabæ tók fljótlega alveg fyrir búskapinn. Alls voru smíðaðir fimmtíu trébátar hjá Baldri Halldórssyni og síðan þá hafa verið smíðaðir rúmlega fimmtíu plastbátar.

Auk Sigurðar sjálfs er einn annar starfsmaður við bátana og Ingunn systir hans og meðeigandi er á skrifstofunni.

Trefjaplastið  ódrepandi

„Í seinni tíð eru þetta mest breytingar á bátum. Það er verið að lengja báta og flikka upp á þá. Við höfum lengt allar gerðar af bátum, til dæmis Sómabáta og þessa Starlet-báta sem pabbi flutti inn á sínum tíma,“ segir Sigurður. Trefjaplast sé magnað efni.

„Það virðist næstum ódrepandi. Ef skrokkurinn hefur verið vel gerður á sínum tíma er endalaust hægt að að laga bátana.“

Athygli vekur að reksturinn er enn á sama stað og í upphafi, við Hlíðarfjallsveg í um 160 metra hæð yfir sjávarmáli.

„Ég hef stundum sagt þegar verið er að tala um hnattræna hlýnun og hækkun sjávar að þá sé kannski bara vissara að vera hér,“ segir Sigurður Baldursson.