Til umræðu er nú á Alþingi að setja kvóta í grásleppu. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra segir að það megi ekki verða til þess að einhverjir gangi út úr kerfinu með fúlgur fjár.

„Menn segja að það sé hægt að ná betri stjórn á veiðunum með því að setja kvóta eða hlutdeildarsetningu. Hagkvæmnin og fyrirsjáanleikinn geti verið meiri. En svo eru hin sem segja bara að það sé alls ekki þannig, þetta sé bara tóm vitleysa,“ segir Bjarkey við Fiskifréttir.

Bíða bara eftir að geta selt

Ráðherra segist reyndar síður vilja úttala sig um þetta mál því það geti komið inn á hennar borð. Margir gestir hafi verið kallaðir fyrir atvinnuveganefnd á þingi og margar umsagnir verið fengnar. Mikilvægast sé að ekki sé hægt að framselja kvóta, ekki síst á milli svæða.

„Það var hugsunin í þessu frumvarpi að það væri þá ekki hægt að framselja milli svæða af því að því var haldið fram að menn biðu bara eftir því að þetta yrði gert þannig að þeir gætu selt og búið til peninga úr þessu. Nefndin var meðvituð um það og er að skoða það, að því er ég best veit,“ segir Bjarkey.

Erfitt fyrir þjóðina

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Almennt segist Bjarkey ekki hlynnt kvótasetningu í tegundum sem minni bátarnir séu fyrst og fremst að veiða.

„Það er í ljósi þessarar reynslu af veðsetningu og framsali sem ég held að við getum sagt að hafi verið þjóðinni dálítið erfið. Ef það á að gera eitthvað slíkt þarf að girða fyrir svona hluti. Þannig að þetta gangi ekki kaupum og sölum og einhverjir verði bara ríkir af því einu saman að hafa einhvern tíma verið á grásleppu og jafnvel ekki hafa stundað hana í fjöldamörg ár,“ ítrekar ráðherra.

Þarf meira gagnsæi

Varðandi það hvort einhvers sátt geti verið í sjónmáli um það hvernig ríkið hagi málum í sjávarútvegi segist Bjarkey ekki vita það.

„Því miður hafa allar breytingar sem við höfum verið að reyna að gera á fiskveiðistjórnunarkerfinu síðustu áratugi verið afskaplega þungar og erfiðar. Það virðist mikil óeining bæði innan stórra og smárra stétta og útgerða þannig að það eru ekki öll að tala einu máli. Gagnrýnin er þannig að það sé hver að halda um sitt og það er kannski að einhverju leyti ekkert óeðlilegt,“ segir Bjarkey.