„Það er ótal margt fram undan,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýr matvælaráðherra, um verkefni sem takast þarf á við gagnvart sjávarútvegi.

Kveðst ráðherra hafa staðið í ströngu við að finna leiðir til breytinga á strandveiðikerfinu. Þar sé þó fáu hægt að hnika nema með lagabreytingum á Alþingi.

„Það er litlu hægt að breyta í reglugerðum nema að ég náði að setja þarna inn breytingu varðandi eignarhaldið. Þá er miklu strangara eftirlit með því að þú sért ekki með tvo eða þrjá báta eins og menn hafa verið með. Nú er búið að setja það í reglugerð að það er algjörlega óheimilt,“ segir Bjarkey í viðtali í nýjasta blaði Fiskifrétta.

Lagði til aukna strandveiði

Sjálf stóð Bjarkey ásamt tveimur flokkssystkinum sínum úr VG að þingsályktunartillögu um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins. Þar er meðal annars lagt til að stækka í áföngum félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins svo að hann verði 8,3 prósent af heildarafla í stað 5,3 prósent. Endurskoða þurfi kerfið svo að veiðiheimildirnar í því nýtist sem best smærri byggðarlögum.

„Þetta er náttúrlega bara þingmannamál,“ segir Bjarkey spurð hvort hún sé bjartsýn á samþykkt þessarar tillögu.  Þingmenn leggi oftast fram mál til að sýna vilja sinn en langfæst þeirra komist áfram. „Þannig að ég hef ekki trú á því að þetta mál nái fram að ganga.“

Kerfið niður njörvað

Engar frekari breytingar sé heldur hægt að gera með reglugerðum.

„Strandveiðikerfið er svo niðurnjörvað að það þarf bókstaflega allt að fara í gegnum lagabreytingar. Það eru bara örfáir dagar eftir á þingi þannig að það næst ekkert slíkt,“ segir Bjarkey.

Varðandi haustþing segist ráðherra vera með auðlindafrumvarpið, Auðlindina okkar, sem Svandís Svavarsdóttir, forveri hennar, stóð að.

„Það er komið inn á mitt borð aftur eftir athugasemdir úr samráðsgáttinni. Ég á eftir að fara yfir þær athugasemdir og hvort ég held áfram með það óbreytt eða með þeim breytingum sem þar eru lagðar til eða hver afdrifin verða,“ segir Bjarkey, sem kveðst munu fara ofan í kjölinn á þessu máli, sem sé risavaxið.

„Það er ótal margt fram undan,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýr matvælaráðherra, um verkefni sem takast þarf á við gagnvart sjávarútvegi.

Kveðst ráðherra hafa staðið í ströngu við að finna leiðir til breytinga á strandveiðikerfinu. Þar sé þó fáu hægt að hnika nema með lagabreytingum á Alþingi.

„Það er litlu hægt að breyta í reglugerðum nema að ég náði að setja þarna inn breytingu varðandi eignarhaldið. Þá er miklu strangara eftirlit með því að þú sért ekki með tvo eða þrjá báta eins og menn hafa verið með. Nú er búið að setja það í reglugerð að það er algjörlega óheimilt,“ segir Bjarkey í viðtali í nýjasta blaði Fiskifrétta.

Lagði til aukna strandveiði

Sjálf stóð Bjarkey ásamt tveimur flokkssystkinum sínum úr VG að þingsályktunartillögu um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins. Þar er meðal annars lagt til að stækka í áföngum félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins svo að hann verði 8,3 prósent af heildarafla í stað 5,3 prósent. Endurskoða þurfi kerfið svo að veiðiheimildirnar í því nýtist sem best smærri byggðarlögum.

„Þetta er náttúrlega bara þingmannamál,“ segir Bjarkey spurð hvort hún sé bjartsýn á samþykkt þessarar tillögu.  Þingmenn leggi oftast fram mál til að sýna vilja sinn en langfæst þeirra komist áfram. „Þannig að ég hef ekki trú á því að þetta mál nái fram að ganga.“

Kerfið niður njörvað

Engar frekari breytingar sé heldur hægt að gera með reglugerðum.

„Strandveiðikerfið er svo niðurnjörvað að það þarf bókstaflega allt að fara í gegnum lagabreytingar. Það eru bara örfáir dagar eftir á þingi þannig að það næst ekkert slíkt,“ segir Bjarkey.

Varðandi haustþing segist ráðherra vera með auðlindafrumvarpið, Auðlindina okkar, sem Svandís Svavarsdóttir, forveri hennar, stóð að.

„Það er komið inn á mitt borð aftur eftir athugasemdir úr samráðsgáttinni. Ég á eftir að fara yfir þær athugasemdir og hvort ég held áfram með það óbreytt eða með þeim breytingum sem þar eru lagðar til eða hver afdrifin verða,“ segir Bjarkey, sem kveðst munu fara ofan í kjölinn á þessu máli, sem sé risavaxið.