Landaður afli í janúar 2023 var 110,3 þúsund tonn en var 220 þúsund tonn í janúar á síðasta ári. Þar munar mestu um lítinn kraft í loðnuveiðum en á sama tíma í fyrra var umtalsverð veiði á loðnu. Landaður botnfiskafli er svipaður milil ára.

Af botnfiski var mestu landað af þorski eða tæplega 20 þúsund tonnum. Þá veiddust 5.446 tonn af ýsu og 3.265 tonn af ufsa. Uppsjávaraflinn var að mestu kolmunni, 72 þúsund tonn, en litlu var landað af loðnu og síld.

Á 12 mánaða tímabilinu febrúar 2022 til janúar 2023 veiddust rúm 1,3 milljónir tonna sem er nokkurn vegin sama magn og landað var á sama tímabili ári fyrr.

Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands, útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.