Marine Collagen í Grindavík framleiðir gelatín og kollagen úr 3-4 þúsund tonnum af roði á ári og veltan á síðasta ári var um 650 millljónir króna. Fyrirtækið er í jafnri eigu útgerðarfélaganna Þorbjarnar og Vísis í Grindavík, Brims og Samherja. Áætlanir eru uppi um stækkun verksmiðjunnar í Bakkalág með það fyrir augum að auka framleiðslu á kollageni sem er umtalsvert verðmætari afurð en gelatín.

Þegar Fiskifréttir heimsóttu Marine Collagen í byrjun desember 2018 var verið að setja upp fyrstu tækin. Framkvæmdastjóri þá var Tómas Eiriksson en er í dag stjórnarformaður félagsins.

Tómas Þór Eiríksson, stjórnarformaður Marine Collagen, með hreint gelatínpúður úr þorskroði. FF MYND/GUGU
Tómas Þór Eiríksson, stjórnarformaður Marine Collagen, með hreint gelatínpúður úr þorskroði. FF MYND/GUGU
© Guðjón Guðmundsson (.)

„Um þetta leyti vorum við að rembast við að koma einni til þremur lotum í gegnum framleiðsluferlið á viku sem eru 7 til 20 tonn af roði. Núna tökum við auðveldlega 8-9 lotur á viku, það er 60-70 tonn af roði,“ segir Tómas.

Nú er unnið á þremur vöktum og vinnsla er allan sólarhringinn. Fjórir starfa á hverri vakt. 30 klukkustundir tekur að vinna roðið í gelatín. Kollagenframleiðslan tekur lengri tíma.

Verð á roði margfaldast

Um 11% af roðinu verður að afurðum og Lýsi hf. kaupir hratið og notar það til fóðurframleiðslu hjá fyrirtækinu Ice Fish í Sandgerði, áður Skinnfisk, sem fyrirtækið keypti núverið. Roðið er því allt fullnýtt. Úr hráefninu er unnið gelatín og kollagen. Það fyrrnefnda verður til fyrr í ferlinu. Dæmi um vörur sem innihalda gelatín er matarlím, hjúpur í lýsisperlur og fleira. Ákveðnir eiginleikar gelatíns henta fyrir matvæla- og lyfjaiðnaðinn. Fyrir kílóið af gelatíni í magnsölu fæst yfir 22 evrur, 3.300 krónur.

Gelatínblað beint úr þurrkaranum.
Gelatínblað beint úr þurrkaranum.

Marine Collagen kaupir roð af Vísi, Brim, Samherja, Þorbirni, Einhamri, G.Run í Grundarfirði, Sjávariðjunni á Rifi, Hraðfrystihúsi Hellissands, Kambi og Ramma. Sú breyting hefur orðið á þeim fimm árum sem Marine Collagen hefur starfað að eftirspurn eftir roði hefur aukist mikið. Tómas áætlar að Marine Collagen kaupi um 40% - 50% af öllu þorskroði sem fellur til í landinu. Það sem hefur líka breyst frá því á árum áður er aukin ferskfiskvinnsla í landinu með tilheyrandi auknu framboði á roði.

„Verð á roði hefur margfaldast. Þegar við vorum að byrja kostaði kílóið um 16 krónur en núna er verðið að nálgast 100 krónur fyrir kílóið. Þetta hefur verið skemmtilegur slagur og þessi hækkun á roði ánægjuleg fyrir útgerðina í landinu. Þetta gerist þegar hráefni færist úr fóðurframleiðslu yfir í framleiðslu til manneldis. Það er mikill slagur um roðið og meiri en ég átti von á. Það eru líka margir erlendis sem sækja í roðið fyrir sambærilega vinnslu þar. Við erum ekkert eyland og þurfum að vera samkeppnishæfir í verðum,“ segir Tómas.

Aukin kollagenframleiðsla

Marine Collagen hefur ákveðið forskot á þá erlendu framleiðendur sem kaupa roð af íslenskum útgerðarfyrirtækjum. Það felst í því að ekki þarf að frysta roðið sem fyrirtækið fær og þar með sparast vinna og pakkningar. Dæmi um aðfangakeðjuna er þegar lyftarar frá Vísi koma með kör full af roði beint úr fiskvinnslunni inn á gólf hjá Marine Collagen. Þar fer það beint í vinnslu og 30 klukkustundum síðar er það orðið að hvítu gelatínpúðri. Stór hluti framleiðslunnar fer til Asíulanda og annað fer að mestu til Þýskalands og Bandaríkjanna. Gelatínið er selt í 15 kg pokum og eru 750 kg á hverju bretti.

Nú eru uppi hugmyndir um stækkun verksmiðjunnar og að bæta við öðrum þurrkara til að vinna betra kollagen. Vonir eru bundnar við að framkvæmdir við stækkunina hefjist á þessu sumri. Verksmiðjan er nú á 1.000 fermetrum en stefnt er á tvöfalda hana. Fyrirtækið á lóð sem liggur að núverandi verksmiðju þar sem yrði byggt.

Tómas segir að frá upphafi hafi verið stefnt að ákveðnum hluta af gelatínframleiðslu til þess að halda stöðugleika í rekstri en að kollagenið yrði þó ávallt sú afurð sem áhersla yrði lögð á. Það er mun verðmætari afurð og spurn eftir kollageni hefur aukist mikið á alþjóðavísu. Kollagen er notað í fæðubótarefni, snyrtivörur og drykkjarvörur svo dæmi sé tekið. Gelatínið er eingöngu framleitt úr þorskroði en með aukinni kollagenframleiðslu opnast möguleikar á notkun á ýsuroði og jafnvel roði af ufsa. Enn fremur eru uppi hugmyndir um meiri fullvinnslu afurða úr kollageni í neytendavörur og þá hugsanlega í samtarfi við aðra framleiðendur, til að mynda framleiðendur drykkjarvara.

Þekkingin komin til Grindavíkur

Stefnan var strax í byrjun sett á það að innan fimm ára frá stofnun fyrirtækisins yrði öll þekking á sviði framleiðslu og sölu komin til Grindavíkur. Nú hefur því markmiði verið náð með samstilltu átaki frábærts starfsfólks og þjónustuaðila.

Tómas hefur verið viðriðinn Marine Collagen alveg frá því hún var hugmynd á blaði. Henni var komið á framfæri við Codland, nýsköpunararm Þorbjarnar og Vísis, sem m.a. á Haustak í Grindavík. Þar var málið unnið áfram og varð að þessu fyrirtæki sem í dag veltir um 650 milljónum króna á ári.

Marine Collagen er skýrt dæmi um framsýni, framkvæmdahug og samstarfsvilja stórra sjávarútvegsfyrirtækja. Tómas segir einsýnt að ekki hefði verið hægt að byggja upp fyrirtæki eins og Marine Collagen án aðkomu þeirra. Til að standa undir framleiðslunni þarf gríðarlegt magn af roði. Til þess þarf líka að líta að roð er ekki nema 4% af massa fisks.

Helsta úrslausnarefni Marine Collagen er og verður einmitt hráefnisöflun. Róðurinn í þeim efnum hefur þyngst núna í ljósi kvótaskerðingar og það á ekki síður við um fiskvinnsluna sjálfa.