Theresa Henke, sem er í hópi fjölmargra erlendra vísindamanna við HÍ og í hópi ungra vísindamanna sem rannsaka nýjar tegundir í lífríki vatns hérlendis, segir fluundruna hafa fest sig hér í sessi.

Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Háskóla Íslands. Theresa er sögð beina sjónum sínum að flundrunni í doktorsrannsókn eftir að hafa rannsakað þennan flatfisk í meistaraverkefninu sínu.

„Þessi tegund er nú skilgreind sem hugsanlega ágeng því á röskum tveimur áratugum hefur hún dreift sér nánast umhverfis allt landið. Þótt flundran hafi fyrst sést við suðvesturströndina um síðustu aldamót er hún nú komin í ósa og ár á Hornströndum en sá sem hér lemur lyklana hefur ítrekað séð hana lengst uppi í ám í friðlandinu,“ segir á hi.is.

Mikill áhugi og þekking til staðar

„Frá fyrstu athugun á Suðvesturlandi árið 1999 hefur flundran fest sig í sessi víðast hvar á Íslandi þar sem hún er algengust við árósa en gengur einnig í ár og vötn samhliða staðbundnum laxfiskategundum eins og Atlantshafslaxi, urriða og bleikju,“ er haft eftir Theresu sem segir hluta af rannsókninni snúast um viðtöl við veiðimenn sem hafi oft komist í návígi við flundru við ólíkar aðstæður. 

„Þegar ég var að vinna meistararitgerðina mína, sem var líka um flundruna, þá hitti ég fullt af fólki, sérstaklega veiðimenn, sem sýndu þessu viðfangsefni ekki bara mikinn áhuga heldur höfðu einnig talsverða þekkingu á þessu efni. Þessi samskipti við fólk veittu mér innblástur við að halda áfram þessum rannsóknum í doktorsverkefninu og þá til þess að bæta skilning okkar á tegund sem á ekki uppruna sinn í hafinu hér,“ segir Theresa sem kveðst vona að rannsóknin verði til þess að „vekja athygli á líffræðilegum innrásum á Íslandi“.

Á vef Háskóla Íslands er að finna ítarlega umfjöllun um málið.