Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR) hefur staðið fyrir fræðslu og varðveislu og umfjöllun um bátaarf landsmanna. Þar fara fremstir í flokki frændurnir Hafliði Aðalsteinsson skipasmiður, sem er formaður félagsins og Sigurður Bergsveinsson, sem er ritari þess.

Frændurnir Hafliði Aðalsteinsson og Sigurður Bergsveinsson, formaður og ritari Félags áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum.
Frændurnir Hafliði Aðalsteinsson og Sigurður Bergsveinsson, formaður og ritari Félags áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum.
© Guðjón Guðmundsson (.)

Haustið 2010 hófst samstarf FÁBBR, Reykhólahrepps og æðarræktarfélagsins Æðarvéa og sumarið 2011 var síðan opnuð ný sýning og fékk hún heitið Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum. Sýningin er gluggi að skemmtilegum heimi fugla, báta og náttúrunytja Breiðafjarðar. Meðal annars fá gestir að kynnast æðarfuglinum á sérstakan hátt og fræðast um gömlu súðbyrðingana með breiðfirska laginu. Á þessari lifandi sýningu er hægt að sjá stuttar og lengri heimildarmyndir um lífið í Breiðafjarðareyjum, sem teknar voru um miðbik síðustu aldar.

Súðbyrðingurinn Öxney  á bátadögum (smíðuð á námskeiðum 2012-16).
Súðbyrðingurinn Öxney á bátadögum (smíðuð á námskeiðum 2012-16).

Teinæringurinn Egill og fleiri bátar

Hafliði er sonur Aðalsteins Eyjólfs Aðalsteinssonar (1923- 2014), skipasmiðs í Hvallátrum sem hafði lengi haft áhuga á að bátarnir hans yrðu varðveittir á safni og var tilbúinn að gefa þá þangað. Þar á meðal var teinæringurinn Egill, sem smíðaður var 1904 af Ólafi Bergsveinssyni, afa Aðalsteins Eyjólfs, sexæringurinn Björg sem smíðaður var af Bergsveini Ólafssyni, langafa Aðalsteins Eyjólfs, og Súlan, lítill vélbátur sem smíðaður var 1939 af Valdimar Ólafssyni, föðurbróður Aðalsteins Eyjólfs.

Varðveisla báta

Í dag á FÁBBR rúmlega 30 báta. Sá elsti var smíðaður árið 1870 og sá yngsti árið 1983. Erfitt hefur verið að fá hentugt húsnæði til að geyma bátana og flestir eru geymdir í gamalli hlöðu. Egill er enn geymdur í smíðaskemmu í Hvallátrum. Nokkrir bátanna eru geymdir úti sem er afleitt. Nú hefur félagið eignast geymsluhúsnæði í gömlum bragga á Reykhólum og stefnt er að því að setja þar inn alla báta safnsins og þar með djásn félagsins, teinæringinn Egil.

Frá báta- og hlunnindasýningunni Reykhólum.
Frá báta- og hlunnindasýningunni Reykhólum.

Bátadagar

FÁBBR hefur staðið fyrir Bátadögum fyrstu helgina í júlí á hverju sumri síðan 2008. Á Bátadögum er farið í hópsiglingu um Breiðafjörð á súðbyrtum bátum. Bátadagar FÁBBR hafa verið mörgum bátseigandanum hvatning til að standsetja bát sinn og koma og sigla honum undir leiðsögn kunnáttumanna. Bátadagarnir hafa því stuðlað að einskonar „vakningu“ um varðveislu súðbyrtra báta. Heimamenn hafa miðlað fróðleik um þá staði sem heimsóttir hafa verið, og hefur þessi tilhögun mælst mjög vel fyrir.

Bátadagar á Breiðafirði. Siglt í röð innanskerja.
Bátadagar á Breiðafirði. Siglt í röð innanskerja.

Námskeiðahald

Hafliði ólst upp í Hvallátrum þar sem var mikil skipasmíði á sínum tíma. Hafliði hefur verið starfandi tréskipasmiður alla tíð, lærði fyrst hjá föður sínum og nam síðar við Iðnskólann í Reykjavík. Hann hefur smíðað nokkurn fjölda báta og einnig og ekki síst unnið viðgerð og endurgerð eldri báta. Þá hefur Hafliði verið óþreytandi við að efla þekkingu á skipasmíðum og haldið fjölda námskeiða í skipasmíði í samstarfi við IÐUNNI fræðslusetur, m.a. í Reykjavík og á Reykhólum. Iðan gaf út 2018 kennslubók í samvinnu við FÁBBR um bátasmíði á grunni aðferða við smíði súðbyrðinga. Bókin er 55 blaðsíður með leiðbeiningum og upplýsingum um verkfæri og að[1]ferðir. Hafliði segir að með þessu sé hefðinni viðhaldið og búið að tryggja það að þessi verkkunnátta haldist í að minnsta eina kynslóð til viðbótar. Tveir áhugasamir einstaklingar hafa nýlega útskrifast sem tréskipasmiðir undir handleiðslu Hafliða. Annar þeirra er nú að sækja sér enn meiri þekkingu á smíði plankabyggðra báta í Noregi.

Hvallátur 1909, Egill með öll segl upp. Mynd/Haraldur Lárusson Blöndal.
Hvallátur 1909, Egill með öll segl upp. Mynd/Haraldur Lárusson Blöndal.

Kvikmyndagerð

Árið 2010 lauk fyrirtæki Ásdísar Thoroddsen, Gjóla ehf., við fimm ára verkefni í samvinnu við FÁBBR. Verkefnið er tvíþætt: Annar þátturinn er útgáfa fjögurra klukkustunda efnis á tveimur mynddiskum þar sem fylgst er með og stöku sinnum útskýrð smíði á sexæringi, eftirgerð Staðarskektunnar Bjargar. Heitir verkið Björg – leiðarvísir í bátasmíði. Á aukahljóðrás á diskunum er heilmikill viðbótarfróðleikur. Björg – leiðarvísir í bátasmíði hefur selst bæði í söfn og á almennum markaði og hefur verið notuð á námskeiðum félagsins. Í janúar 2011 var sýnd í Bíó Paradís hinn þáttur verkefnisins, en það er heimildarmyndin Súðbyrðingur – saga báts. Þar er rakin saga bátasmíði á Norðurlöndum allt frá steinöld, en bátasmíði FÁBBR á Reykhólum er notuð sem rammi sögunnar. FÁBBR heldur úti heimasíðunni www.batasmidi.is þar sem mikinn fróðleik er að finna um bátasmíði og bátavernd