Íslensk nýorka ehf. í samtarfi við Brim Explorer í Noregi og hönnunarfyrirtækið Ocean e-connect hafa fullhannað tvíbytnur með tvinnaflrás í tveimur stærðum sem gætu á einhverjum tímapunkti orðið hluti af samgöngukerfi landsins. Miðað við útreikninga gæti árlegur sparnaður af rekstri bátastrætós af þessu tagi milli Naustabryggju í Bryggjuhverfinu og Hörpu numið 8,5 milljónum króna á ári miðað við rekstur bátastrætós með hefðbundinni dísilaflrás og tæpum 12 milljónum milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar.

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku, segir að hönnuð hafi verið raftvíbytna sem gæti sinnt hlutverki farþegabáts, annars vegar 15 metra löng og hins vegar 24 metra löng sem tæki allt að 150 farþega. Hugmyndin kom upphaflega frá fyrrverandi eigendum Norðursiglingar á Húsavík sem hafa nýtt þessa tækni í hvalaskoðunarbátum fyrirtækisins.

Beðið viðbragða

„Í tengslum við lýsingu á byggingarframkvæmdum í Gufunesi er talað um bátastrætó. Aðstandendur þess verkefnis funduðu með fulltrúum Reykjavíkurborgar sem sýndu því mikinn áhuga að skoða möguleikana á því að nota bátastrætó af þessu tagi. Þannig varð þetta verkefni til að hanna bátastrætó og gera um leið úttekt á því hvernig íbúar í Gufunesi myndi nýta þennan samgöngukost,“ segir Jón Björn.

Niðurstöður þessarar úttektar ásamt hönnun bátastrætós hafa verið sendar Reykjavíkurborg og Strætó B/S og nú er beðið viðbragða frá þessum aðilum. Íbúðabyggð er enn sem komið er frekar lítil í Gufunesi.

„Við sáum þetta fyrir okkur sem mögulega tengingu við borgarlínuna og að unnt yrði að draga úr bílaumferð til og frá Gufunesi. Hugsunin er sú að strætisvagnar gangi úr Mosfellsbæ, Grafarvogi og víðar að Gufunesbryggju og bátastrætó tæki þar við farþegum og sigldi í miðbæ Reykjavíkur, jafnvel með viðkomu í Sundahöfn. Þarna situr málið núna og snýst raunverulega aðeins um það hvort áhugi sé fyrir því að fara í svona verkefni,“ segir Jón Björn.

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku.
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Einnig snýst hugmyndin um að raftvíbytnan gæti nýst fyrir erlenda ferðamenn til siglinga um Sundin þótt það hafi ekki verið skoðað neitt í þaula. Bátastrætóar eru víða í notkun erlendis og gengur rekstur þeirra vel. Jón Björn segir viðbrögð þeirra sem fara með samgöngumál hér á landi hafa verið fremur dræm. Menn beri því við að hér séu aðrar veðurfarslegar aðstæður sem geri notkun bátastrætós ekki eins fýsilega og annars staðar.

„Rekstur bátastrætós í tengslum við nýja og mun stærri byggð sem mun rísa á Höfða við Elliðaárvoginn. Líkt og í Gufunesi verður takmarkaður fjöldi bílastæði í þessu nýja hverfi sem er hugsað til þess að hvetja fólk til þess að nýta sér almenningssamgöngur.“

Lengri gerð raftvíbytnunnar er 24 metrar á lengd.
Lengri gerð raftvíbytnunnar er 24 metrar á lengd.

Raftvíbytnan gæti hentað vel til hreinna farþegaflutninga, t.a.m. milli Landeyja og Vestmannaeyja og Hríseyjar og Árskógsstrandar.

„Við skoðuðum meira í gamni farþegaflutninga með raftvíbytnu sem sigldi á fimm mínútna fresti milli Kársness og Nauthólsvíkur í stað brúar sem þar á að reisa fyrir margfalt hærri kostnað. Þannig eru möguleikarnir eiginlega alls staðar,“ segir Jón Björn.

Raftvíbytnan er hönnuð af Ocean e-connect í samstarfi við Íslenska nýorku og Brim Explorer.
Raftvíbytnan er hönnuð af Ocean e-connect í samstarfi við Íslenska nýorku og Brim Explorer.