Heildaraflamagn íslenskra skipa árið 2022 var samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands um 1.415 þúsund tonn. Við fyrstu sölu aflans var verðmætið um 195 milljarðar króna. Aflamagn jókst um 23% frá fyrra ári á meðan aflaverðmæti jókst um rúmlega 20% samanborið við árið 2021. Rétt er að árétta að hér er átt við viðskipti við fyrstu sölu afla sem endurspeglar ekki endanlegt verðmæti sjávarafurða. Til viðmiðunar er áætlað útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2022 tæplega 350 milljarðar króna.

Aflaverðmæti botnfiskafla við fyrstu sölu var tæplega 136 milljarðar króna. Þar af var þorskur verðmætastur, rúmlega 85 milljarðar króna, verðmæti ýsu var um 21 milljarður króna og verðmæti ufsa rúmir 14 milljarðar. Verðmæti uppsjávarafla var tæplega 48 milljarðar króna. Þar af var loðna 19,5 milljarðar króna, síld um 12 milljarðar króna og makríll rúmir 9 milljarðar króna. Verðmæti flatfiskafla var 10,5 milljarðar króna og skelfisks 1,1 milljarðar króna.

Aflamagn var mest á fyrsta ársfjórðungi þegar uppsjávarafli var sem mestur. Aflaverðmæti dreifist þó nokkuð jafnt yfir árið, þar sem botnfisafli er meginuppistaðan. Hlutfall afla sem seldur var beint til eigin vinnslu útgerðaraðila jókst um 24% frá fyrra ári, sjófrysting afla jókst einnig um 24% en útflutningur fisks í gámum dróst saman um 14%. Magn afla sem seldur var á íslenskum fiskmörkuðum jókst um 12% frá fyrra ári.