Bragi Smith, sölu- og vöruþróunarstjóri hjá iTub segir að áætlað sé að 80% af öllum afla sem er landaður á Íslandi komi í gegnum leigukerfi á fiskikerum.

„Með því að deila kerunum í hringrásarhagkerfi fæst betri nýting sem dregur úr notkun auðlinda og stuðlar að aukinni sjálfbærni. Með því að taka þátt í hringrásarhagkerfinu eru sjávarútvegsfyrirtækin að halda sem lengst orkunni sem fer í að vinna kerin inn í kerfinu,“ segir Bragi.

Mikilvægt að endurvinna fiskiker

„Allt frá stofnun iTUB árið 2010 höfum við þróað starfsemi okkar í kringum hringrásarmódelið. Ferlið hófst með því að velja ker sem er hægt að endurvinna að fullu. Þessi ker eru gríðarlega sterk og endingargóð enda líftími þeirra á bilinu 12-15 ár. Þegar fyrstu kerin komu á markað, fyrir nokkrum áratugum, þá völdu flestir PUR ker. Í PUR kerunum eru veggir keranna úr PE (polyethylene) en einangrunin úr PUR (polyuethane). Ókosturinn við PUR kerin er sá að það er erfitt og kostnaðarsamt að endurvinna kerin. Í dag eru PE kerin, þar sem veggir og einangrun er framleidd úr sama efni, umhverfisvænni þar sem þau er að fullu endurvinnanleg. Stöðugt fleiri fyrirtæki eru nú að hætta að nota PUR kerin og núna síðast tilkynnti Royal Greenland að fyrirtækið ætli færa sig alfarið yfir í umhverfisvæn PE ker“ segir Bragi og bendir á að umhverfissjónarmið hafi verið helsta ástæðan fyrir þessari ákvörðun.

Viðgerðir lengja líftíma og draga úr sóun

Mikilvægur þáttur í hringrásinni er að það sé mögulegt að gera við vöruna. „Hjá okkur er gert við öll ker sem lengir líftíma þeirra og heldur hráefninu lengur í notkun. Í dag erum við með rúm 55.000 ker í notkun og til að halda styrk þeirra og endingu þá lögum við um 20% af kerunum á hverju ári. Þetta er einnig mikilvægur þáttur í gæðaferlinu því kerin flytja verðmætar afurðir sem þurfa að komast á markað í sem mestum gæðum.“

Sæplast, sem er framleiðandi keranna, hefur náð að lækka kolefnisspor keranna umtalsvert með því að nota hverfisteypuofn sem knúinn er með rafmagni í stað jarðefnaeldsneytis. „Þegar kerin eru orðin lúin eru þau send í endurvinnslu þar sem þau eru kurluð niður og endurunnin í ný ker. Með þessu verður engin úrgangur og ekkert fer til spillist. Þetta er hagkvæmasta leiðin til að þróa lokaða auðlindahringrás sem færir okkur nær kolefnishlutleysi.“