„100% Fish - How smart seafood companies make better use of resources“ er bók sem er nýútkomin eftir Þór Sigfússon stofnanda Sjávarklasans.

Útgefandi er Leete’s Island Books í Bandaríkjunum.

Í bókinni er fjallað um sjávarútvegsfyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki víða um heim sem eru að leiða grænu byltinguna í sjávarútvegi og stuðla að betri umgengni um auðlindir hafsins. Tekin eru dæmi af m.a. íslenskum fyrirtækjum sem hafa verið í fararbroddi á heimsvísu í betri nýtingu sjávarafurða og hvernig þau hafa tileinkað sér nýja tækni sem hefur bætt samkeppnisstöðu þeirra og gert þeim kleift að verða leiðandi í hringrásarhagkerfinu. Jafnframt er rætt við leiðtoga sjávarútvegsfyrirtækja víða um heim sem hafa tekið sjálfbærni og betri nýtingu traustum tökum.

Þór Sigfússon er höfundur bókarinnar.
Þór Sigfússon er höfundur bókarinnar.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Íslenski sjávarklasinn hefur í samstarfi við ýmsa aðila hérlendis hafið markvissa kynningu utan Íslands á mikilvægi þess að draga úr sóun í sjávarútvegi. Á meðan Íslendingar nýta allt að 90% af hverjum veiddum fiski eru margar þjóðir að henda hliðarafurðum sem nema allt að 30-40% af afla; verðmæt auðlind sem oft endar sem landfylling eða er hent í sjóinn í öðrum löndum.

„Það eru næg tækifæri fyrir sjávarútveginn til að verða leiðandi í sjálfbærni og kynna afurðir sínar sem þau matvæli sem hafa lægsta kolefnissporið og þar sem sjálfbærni og fullnýting eru leiðarljósin,“ segir í frétt frá Íslenska sjávarklasanum.