Við ljósveiðar er notast við ljós sem smala fiski upp í veiðarfærin, sem gefur möguleika á því að láta veiðarfærin svífa yfir hafsbotninum í staðinn fyrir að draga þau eftir honum með margvíslegu raski.

„Við höfum náð þeim árangri að við getum svifið yfir hafsbotni, erum fet frá botni og smölum fiskinum upp með ljósum,“ segir Halla Jónsdóttir hjá Optitog, fyrirtækinu sem leiðir þessa þróunarvinnu.

Hún og samstarfsmenn hennar hlutu strax árið 2011 Framúrstefnuverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar fyrir uppfinningu sína um ljósvörpu og ljósveiðar.

Allar götur síðan hafa þau unnið áfram að þróun hugmyndarinnar í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Nýsköpunarmiðstöð, Hraðfrystihúsið-Gunnvör og Fjarðanet, sem nú heyrir undir Hampiðjuna Ísland. Þessi þróunarvinna hefur verið studd af Tækniþróunarsjóði og AVS styrktarsjóði í sjávarútvegi.

Dregið úr umhverfisáhrifum

Halla segir að upphaflega hafi verkefnið byrjað eftir að hún og fleiri hafi skoðað umhverfisáhrif togveiða. „Mér fannst niðurstöðurnar þannig að það mætti hugsanlega gera betur, miklu betur. Tæknin sem menn voru að beita við togveiðar, og eru enn að beita, hefur í grunnatriðum breyst lítið í mjög langan tíma.“

„Þetta eru allt saman einhvers konar net sem menn draga á eftir skipum og nota til að sía fiskinn úr sjónum. Okkur langaði að vita hvort við gætum ekki gert þetta á umhverfisvænni hátt. Hún kallaði til hóp sérfæðinga til að hugsa út fyrir kassann. Hugmynd Einars Hreinssonar, Geirs Guðmundssonar og hennar, að prófa að smala fiski með ljósi varð ofan á.

Þetta hefur nú verið prófað á rækju og virkar. Kostirnir eru þeir að botni er hlíft og eldsneytisnotkun minnkar.

„Þegar við sleppum því að koma við botninn þá minnkar eldsneytisnotkun á hvert veitt kíló. Við getum þá annað hvort dregið úr orkunotkun eða stækkað veiðarfærin og veitt þá meira með sömu orku.“

Halla segist þó ekki reikna með því að í framtíðinni verði allar veiðar stundaðar á þennan hátt, því tegundir bregðist á ólíkan hátt við ljósi. Hún segir að byrjað verði á rækjuveiðum vegna þess að um rækjuna eru komin góð gögn sem hægt er að byggja á.

„Það er svo auðvelt að fá tölfræðilega marktæk gögn með rækjunni, þar eru margir einstaklingar, það liggur því vel við að byrja þar. Við höfum prófað þetta á rækju sem veiðist við Ísland og víðsvegar um Norður Atlantshaf.“

Áhugaverðar niðurstöður

Halla segir niðurstöður þessara tilrauna mjög áhugaverðar og rækjuútgerðir vilji prófa tæknina við sínar veiðar. „Við erum að útbúa fyrstu vörur fyrir þessa viðskiptavini.“

Í febrúar voru gerðar tilraunir með veiðarfæri til rækjuveiða í Bolungarvík, í Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Það var Georg Haney, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, sem sá um þær tilraunir og segir hann rannsóknirnar hafa skilað mikilvægum árangri þótt enn eigi eftir að vinna úr niðurstöðunum.

„Í svona rannsóknum þarf að taka eitt skref í einu. Að mínu mati erum við með nóg til að halda áfram. Aðalmarkmiðið með þessum prófunum er að ná því að veiða fisk án þess að snerta hafsbotninn. Það versta sem togveiði gerir er að snerta hafsbotninn og um allan heim er fólk að reyna að finna leiðir til að koma í veg fyrir það,“ segir Haney.

„Það sem við vitum er að ljós fær rækjur til að hreyfa sig, og við vitum að þegar við erum með kveikt á ljósunum þá veiðum við meiri rækju. En við þurfum að prófa betur hvað gerist með rækjuna, hversu nálægt henni ljósið þarf að vera og slíkt. Til þess fórum við með þessar rannsóknir til Bolungarvíkur þar sem þau eru með flottan búnað í rannsóknarumhverfi. Þetta er fiskabúr þar sem við búum til sjó með réttri seltu og hitastigi, höldum rækjunni lifandi og getum þá notað alls konar ljós.“

Georg segist reyndar vera nýr í þessu verkefni. Starfsbróðir hans á Hafró á Ísafirði, Einar Hreinsson, sinnti þessu lengi vel en hann hefur unnið að veiðarfærarannsóknum þar.