Hrygningarstofn þorsks stækkaði úr 220 þús. tonnum í 300 þús. tonn frá byrjun síðasta árs til upphafs yfirstandandi árs. Rúmlega helminginn af aukningunni eða 50 þús. tonn má rekja til þorsks sem gengið hefur frá Grænlandi til Íslands.

Þetta kemur fram í viðtali við Jóhann Sigurjónsson forstjóra Hafrannsóknastofnunar í Fiskifréttum í dag.

,,Þorskaflinn á allra næstu árum verður borinn uppi af [slöku] árgöngunum 2001-2007. Hámarksafraksturinn af þeim gæti numið 180 þúsund tonnum á ári ef farið væri hægt í aukningu afla,” segir Jóhann.

Fram kemur í máli hans að árgangarnir frá 2008 og 2009 séu mun sterkari en árgangarnir þar á undan og eftir að þeir komi inn í veiðina af krafti eftir 3-4 ár sé þess að vænta að aflinn mjakist meira upp. ,,Við þurfum hins vegar að fá fleiri árganga af þeirri stærð inn í stofninn til þess að eiga möguleika á að nálgast langtímameðaltalið sem gefur 270 þúsund tonna hámarksafrakstur,” segir Jóhann Sigurjónsson.

Sjá nánar viðtali við forstjóra Hafrannsóknastofnunar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.