Útflutningur á heilum og hausskornum þorski, kældum og frystum, nam 11% af heildarútflutningi á þorski frá Íslandi á árinu 2022 en á sama tíma var 61% heildarútflutnings þorsks frá Noregi heill og hausskorinn þorskur, kældur og frystur. Þetta kemur fram í grein í vefritinu Radarnum sem gefið er út af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Störf úr landi eða aukin tæknivæðing

Þar er bent á að Ísland og Noregur séu hálaunalönd í alþjóðlegum samanburði. Þjóðirnar hafi hins vegar farið ólíkar leiðir þegar kemur að vinnslu og sölu á þorski. Tvennt hafi því verið í stöðunni hjá þessum þjóðum; að hagræða með því að flytja störf úr landi eða auka tæknivæðingu. Íslendingar hafi valið síðari leiðina. Til þess að viðhalda samkeppnishæfni hafi íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ráðist í miklar fjárfestingar í hátæknibúnaði fyrir fiskvinnslu. Sá búnaður sé að mestu leyti íslenskur og hafi þessi fjárfesting haft mikil jákvæð áhrif innanlands. Þá bætist við mikil verðmætasköpun úr hliðarafurðum þorsks, til dæmis lækningavörur, fæðubótaefni og snyrtivörur. Þessi tækifæri til verðmætasköpunar hefðu ekki skapast hefði þorskur verið fluttur að langmestu leyti óunninn úr landi.

Vatnsskurðarvélar með tölvusýn urðu til í samstarfi íslenskra sjávarútvegs- og tæknifyrirtækja. .
Vatnsskurðarvélar með tölvusýn urðu til í samstarfi íslenskra sjávarútvegs- og tæknifyrirtækja. .
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Þannig hefur vinnslan hér á landi þróast í að vera stöðugt flóknari og í átt að ferskum afurðum sem seldar eru á hærra verði. Á hinn bóginn hafa Norðmenn dregið úr framleiðslu á unnum afurðum. Í auknum mæli hafa þeir selt þorsk heilan úr landi, kældan eða frystan, til vinnslu í öðrum löndum.“

Mest aukning til Kína

Ólík samsetning þorskafurða í útflutningi þjóðanna endurspeglast einnig í viðskiptalöndunum. Á sama tíma og áhersla íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á ferskar afurðir hefur aukist hefur vægi franska markaðsins aukist umtalsvert. Útflutningur Norðmanna þangað hefur dregist verulega saman en mesta aukningin hefur verið á útflutningi til Kína. Einungis fjórar af tíu stærstu viðskiptaþjóðum Norðmanna í fyrra komust í efstu tíu sætin hjá Íslendingum, þ.e. Portúgal, Bretland, Holland og Bandaríkin.

„Útflutningur til Kína er aðallega heilfrystur þorskur, sem er því að langstærstum hluta hráefni til vinnslu þar í landi. Að vinnslu lokinni er hann fluttur frá Kína og ratar þá jafnvel á disk neytenda í Evrópu. Kína er í raun stærsti innflytjandi þorsks í heiminum, enda eru fleiri þjóðir en Norðmenn sem flytja þorsk til Kína til frekari vinnslu. Þar er önnur stór samkeppnisþjóð, Rússland, fremst í flokki. Kemur því ekki á óvart þegar litið er á innflutningstölur hinna ýmsu landa á þorskafurðum, að Kína er þar oft ofarlega á lista. Til að mynda hafa Kínverjar verið næststærstu útflytjendur á þorski til Bretlands á undanförnum árum, á eftir Íslendingum. Norðmenn og Rússar hafa svo komið þar á eftir.“

Ólíkar stoðir

Bent er á það í greininni að vægi þorskafurða í vöruútflutningi Íslendinga er mun hærra en hjá Norðmönnum. Undanfarin 5 ár hafi þorskafurðir vegð rúmlega 17% í verðmæti alls vöruútflutnings hér á landi en innan við 1% af vöruútflutningi frá Noregi.

„Noregur er í raun að stærstum hluta hráefnisframleiðandi þar sem umgjörð sjávarútvegs snýst fyrst og fremst um að styðja við strandbyggðir. Sjávarútvegur hefur á hinn bóginn verið einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur Íslendinga og ein mikilvægasta stoð efnahagslífsins. Það er því ekki um annan kost að ræða en að reka hann á eins hagkvæman hátt og kostur er og hann skili sem mestum þjóðhagslegum ábata. Norska leiðin er því síður vænleg með það markmið í huga. Í þessu sem öðru er það eflaust svo að leiðavalið ræðst af markmiðunum. Í því liggur einmitt svarið – Íslendingar eru á réttri leið.“