Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til við Faxaflóahafnir að samskipti dráttarbátaskipstjóra og hafnsögumanns verði á ensku í tilfelli erlendra skipa.
Tillaga rannsóknarnefndarinnar er sett fram í skýrslu um svokallað öryggisatvik sem varð í Sundahöfn 26. maí 2023 er skemmtiferðaskipið Norwegian Prima rak undan vindi og nálgaðist grynningar við Viðey.
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar var rædd á síðasta fundi stjórnar Faxaflóahafna. Þar sagði Gunnar Tryggvason hafnarstjóri að rýna þyrfti þessa tillögu vandlega og helst í samstarfi við aðrar hafnir landsins.
Er okkar svar núna
Upplýsti Gunnar að hann hefði á vettvangi Hafnasambands Íslands óskað eftir því að Siglingaráð hlutaðist til um heildarúttekt á öryggismálum skemmtiferðaskipa við strendur landsins. Nefndi hann sem fyrirmynd úttekt sem Norðmenn gerðu fyrir tveimur árum eftir að skemmtiferðaskip varð vélarvana í Norður-Noregi.
„Við erum ekki sammála því að breyta þessu svona einn, tveir og þrír heldur ætlum við að ræða þetta í samráði allra hafna á Íslandi. Það er okkar svar núna,“ segir Gunnar við Fiskifréttir spurður nánar um afstöðuna til fyrrgreindrar tillögu rannsóknarnefndarinnar.
Ein ábending ekki nóg
Gunnar segir það vinnuferli sem málið snýst vera samvinnu þriggja einstaklinga; skipstjóra skemmtiferðaskips, hafnsögumanns og skipstjóra dráttarbáts sem báðir séu frá Faxaflóahöfnum.
„Hafnsögumaðurinn er að tala sitthvort tungumálið; hann talar ensku við skipstjórann og íslensku við skipstjóra dráttarbátsins. Tillaga rannsóknarnefndarinnar er að þetta fari allt fram á ensku og við erum ekki tilbúin að taka slíka ákvörðun út af einni ábendingu,“ ítrekar hafnarstjórinn. Það séu fleiri atriði sem þurfi að hugsa um.
„Dráttarbátasjómennirnir ganga oft á milli verkefna í mismunandi höfnum. Þannig að það væri farsælast ef þetta væri sameiginleg ákvörðun allra hafna á Íslandi. Það þarf ekki endilega að vera þannig en við ætlum að minnsta kosti að ræða það á víðari vettvangi áður það verður tekin ákvörðun,“ segir Gunnar.
Litlir dráttarbátar mega sín lítils
Varðandi ósk hafnanna um úttekt á öryggismálum í tengslum við skemmtiferðaskip segir Gunnar enga ákvörðun liggja fyrir um að ganga í það verk. Fyrrnefnt atvik sem orðið hafi í Norður-Noregi og úttektina á þessum málum þar í landinu veki menn til umhugsunar hér. Þar hafi skemmtiferðaskip orðið vélarvana í vondu veðri og byrjað hafi verið á því að flytja farþegana með þyrlum í land er vélstjóranum tókst loks að koma vélinni aftur í gang og afstýra frekari hættu.
„Hefði þetta gerst á Íslandi hefði væntanlega bara ein þyrla komið í verkefnið,“ bendir hafnarstjórinn á. Slík aðgerð mætti sín lítils ef það væru kannski fjögur þúsund manns um borð í skemmtiferðaskipi í háska. „Það hafa líka orðið atvik víða um land hér þar sem veður hafa sett strik í reikninginn og það eru litlir dráttarbátar sem hafa ekki roð í þessi skip.“
Aftur á byrjunarreit
Sjálfur vill Gunnar ekki nefna sérstök atriði sem hann telji að þurfa að bæta úr.
„Ég tel bara mjög mikilvægt að fá úttekt óháðra aðila og held að það sé löngu tímabært. Þá getur fólk mótað sér skoðanir um það hvað við þurfum að gera,“ segir Gunnar.
Siglingaráð hefur að sögn Gunnars fjallað um málið. „En þá urðu ráðherraskipti og mér skilst að ráðherrann vilji skipta um formann í Siglingaráði þannig að málið er aftur komið á byrjunarreit. Ég ítreka þetta alltaf annað slagið en hef ekkert heyrt í ráðuneytinu.“
Öryggi eitt helsta stefnumál Faxaflóahafna
Þegar fyrrnefnd skýrsla var lögð fram í stjórn Faxaflóahafna var samþykkt samhljóða bókun þar sem fram kom að öryggismál séu eitt helsta stefnumál Faxaflóahafna. „Leggur stjórn sérstaka áherslu á siglingayfirvöld láti framkvæma öryggis- og áhættumat fyrir umferð skemmtiferðaskipa um allt land, enda hefur stærð þeirra skipa vaxið töluvert á undanförnum árum,“ sagði í bókuninni.
Kom einnig fram í bókun hafnarstjórnarinnar að Faxaflóahafnir hefðu þegar endurskoðað þjálfun hafnsögusögumanna og að verið væri að endurskoða verklagsreglur hvað varðar veðurviðmið og aðstæður.
Aðeins munaði sekúndum
Rannsóknarnefnd í Noregi sagði aðeins hafa munað sekúndum að skemmtiferðaskipið Viking Sky hefði strandað er það missi allt vélarafl í Hustadsvika í Romsdal í mars 2019. Allar 1.373 sálirnar um borð hafi verið í lífsháska áður en náðist að endurræsa vélarnar. Stór sveit af björgunarþyrlum var ræst út því ekki var hægt að skjóta út björgunarbátum Viking Sky vegna veðurofsans. Um hefði getað orðið að ræða eitt af verstu sjóslysum sögunnar sagði rannsóknarnefndin.