Brim hagnaðist um 4,5 milljónir evra, eða sem nemur 672 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaður félagsins á fyrsta fjórðungi dróst saman um nærri 70% frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 18,9 milljónir evra.

„Gæftir voru erfiðar á fyrstu þremur mánuðum ársins. Kolmunnaveiðin gekk ágætlega en loðnan lét ekki sjá sig. Loðnubrestur hefur alltaf mikil áhrif á afkomu félagsins á þessum ársfjórðungi. Afkoman núna er áþekk og á árum áður þegar lítið sem ekkert hefur veiðst af loðnu,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.

Gudmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.
Gudmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.

Hann segir markaði félagsins áfram erfiða, enn sé óvissa uppi vegna stríða og fjármunir eru áfram dýrir sem dragi bæði úr neyslu og uppbyggingu.

Guðmundur segir að félagið hafi ekki verið undir það búið að raforka til að knýja fiskimjölverksmiðjuna ´avopnafirði yrði ekki fáanleg.

„Eða kemur að því á næstunni að Brim og önnur fyrirtæki á Íslandi þurfi að kaupa rafmagn af stóriðjunni á uppsprengdu verði þar sem stóriðjan hefur gert langtíma raforkusamninga við Landsvirkjun en íslenskt atvinnulíf og almenningur ekki?,“ spyr Guðmundur.

Nánar er greint frá þessu á vb.is.