EFTIR ARNAR ATLASON
Þegar fólk fjallar um sjávarútveginn – og ekki síst þegar það vill slá um sig – eru orð eins og nýsköpun, rekjanleiki, þjóðarhagur og sjálfbærni vinsæl.
Við bætist að í landinu er vinstri blá-græn hægri stjórn. Í anda norræns velferðarkerfis er önnur hver stofnun í landinu með endi á heiti sínu stofa eða ohf. Fyrirtæki eru að sama skapi ekkert sérstök eða spennandi nema vera í góðum klasa. Þá er kannski ekki að furða að fólk skilji lítið í umræðunni.
Hvers vegna nefni ég þetta? Jú flest af því sem hér hefur verið nefnt er okkur í sjávarútvegstengdum rekstri mikilvægt. Rekjanleiki og sjálfbærni er nánast orðið að órjúfanlegum hluta af nútíma sjávarútvegi. Enda vill hann taka sig alvarlega og byggja til framtíðar. Nýsköpun er að sama skapi, auk vandaðs markaðsstarfs og eðlilegrar samkeppni á mörkuðum, lykill að framþróun innan greinarinnar.
Það er því sérstaklega merkilegt og um leið ánægjulegt að benda fólki á það að á Íslandi hefur síðustu 40 árin eða svo verið starfræktur klasi að þessari fyrirmynd. Klasi þessi hefur frá upphafi verið uppspretta nýsköpunar, en hér er ég að ræða um fiskmarkaði landsins.
973.000 tonn seld á síðustu 10 árum
Í dag er svo komið að Reiknistofa fiskmarkaða heldur uppboð kl. 13.00 6 daga vikunnar. Á uppboðinu er seldur allur fiskur sem fiskmarkaðir landsins hafa upp á að bjóða. Í dag eru samkvæmt heimasíðunni www.rsf.is 25 fiskmarkaðir sem selja þar, víðs vegar um landið. Reiknistofan hefur frá 1. maí 2015 til 30. apríl 2024 eða síðastliðin 10 ár selt 973 þúsund tonn af fiski fyrir 265,7 milljarða. Ef við leikum okkur aðeins að því að reikna þjóðarhag af þessari sölu, sem um leið er kaup fyrir kaupendur aflans, þá má áætla að miðað við 50-75% hráefnishlutfall hjá kaupendunum hafi framlegð þeirra verið á bilinu 133-266 milljarðar fyrir þetta tímabil. Fyrirtæki þau sem byggja afkomu sína á kaupum þessa afla þiggja fæst styrki til nýsköpunar. Þau búa aftur á móti daglega við gríðarlega samkeppni sem drífur þau áfram í þeirra nýsköpun og markaðsstarfi.
Örlítið meira verð ég að nefna varðandi kerfi fiskmarkaða á Íslandi, sem ætíð hverfur í umræðunni í skuggann af stærstu útgerðum landsins. Nefnt var hér að ofan að fiskur hvaðanæva af landinu er seldur á uppboðinu. Á það jafnt við hvort sem honum er landað á Bolungarvík (stysta leið frá Reykjavík 428 km), Stöðvarfirði (stysta leið 628 km) eða Þórshöfn (stysta leið 621 km). Allan ársins hring er miðað við að afla dagsins sé skilað til kaupenda strax morguninn eftir, áður en vinnsla hefst. Við Íslendingar þekkjum mismunandi veðurfar og því er ótrúlegt að segja frá því að þessi afhending er nánast hnökralaus allt árið um kring.
Að þessu viðbættu hafa fiskmarkaðir landsins gegnt mikilvægu hlutverki við rekjanleika afla. Allar upplýsingar um afla þann sem seldur er á uppboðinu er hægt að sækja á einum miðlægum stað, hjá Reiknistofu fiskmarkaða. Þessu til viðbótar hafa nú fiskmarkaðir landsins tekið upp MSC-vottun sem er þekktasta rekjanleikavottun fyrir sjávarafurðir heimsins.
Innlendum vinnsluaðilum fækkað
Þetta hljómar allt vel en þó er ýmislegt sem býr að baki og veldur þeim sem umhugað er um málefnið áhyggjum. Innlendum vinnsluaðilum sem kaupa hráefni á mörkuðunum hefur fækkað. Með því hefur vinnslugeta í landinu minnkað. Þegar það gerist, hefur það þau áhrif til skamms tíma að verð getur fallið þegar mikið framboð er á skömmum tíma. Hlutfall þess afla sem seldur er á uppboði, sem ekki kemur til vinnslu hér innanlands, hefur einnig minnkað. Að sama skapi hefur hlutfall þess afla sem fluttur er út óunninn aukist. Þekkt er að framlegðarhlutfall þess afla sem unninn er erlendis er mun lægra enda liggur það í hlutarins eðli að vinnslan þarf sinn hluta af framlegðinni. Fyrir okkur Íslendinga aftur á móti þýðir þetta minnkandi þjóðarhag.
Ég vil með grein þessari hvetja alla þá sem koma með einhverjum hætti að sjávarútvegi til að þjappa sér saman um þessa sérstöðu okkar sem fiskmarkaðirnir gefa. Þeir hafa orðið til þess að það sem áður var verðlaust eða verðlítið skilar nú gríðarlegum tekjum í þjóðarbúið. Verjum fiskmarkaðina með öllum ráðum, tryggjum áframhaldandi sölu afla þar. Hvort sem það er með ívilnunum eða með því að áskilja löndun hluta afla þar. Tryggjum aukna vinnslu innanlands að sama skapi með því að jafna stöðu innlendra framleiðenda við erlenda kaupendur afla. Íslenskur sjávarútvegur þarf á fjölbreytni og nýsköpun að halda.
Greinarhöfundur er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.
EFTIR ARNAR ATLASON
Þegar fólk fjallar um sjávarútveginn – og ekki síst þegar það vill slá um sig – eru orð eins og nýsköpun, rekjanleiki, þjóðarhagur og sjálfbærni vinsæl.
Við bætist að í landinu er vinstri blá-græn hægri stjórn. Í anda norræns velferðarkerfis er önnur hver stofnun í landinu með endi á heiti sínu stofa eða ohf. Fyrirtæki eru að sama skapi ekkert sérstök eða spennandi nema vera í góðum klasa. Þá er kannski ekki að furða að fólk skilji lítið í umræðunni.
Hvers vegna nefni ég þetta? Jú flest af því sem hér hefur verið nefnt er okkur í sjávarútvegstengdum rekstri mikilvægt. Rekjanleiki og sjálfbærni er nánast orðið að órjúfanlegum hluta af nútíma sjávarútvegi. Enda vill hann taka sig alvarlega og byggja til framtíðar. Nýsköpun er að sama skapi, auk vandaðs markaðsstarfs og eðlilegrar samkeppni á mörkuðum, lykill að framþróun innan greinarinnar.
Það er því sérstaklega merkilegt og um leið ánægjulegt að benda fólki á það að á Íslandi hefur síðustu 40 árin eða svo verið starfræktur klasi að þessari fyrirmynd. Klasi þessi hefur frá upphafi verið uppspretta nýsköpunar, en hér er ég að ræða um fiskmarkaði landsins.
973.000 tonn seld á síðustu 10 árum
Í dag er svo komið að Reiknistofa fiskmarkaða heldur uppboð kl. 13.00 6 daga vikunnar. Á uppboðinu er seldur allur fiskur sem fiskmarkaðir landsins hafa upp á að bjóða. Í dag eru samkvæmt heimasíðunni www.rsf.is 25 fiskmarkaðir sem selja þar, víðs vegar um landið. Reiknistofan hefur frá 1. maí 2015 til 30. apríl 2024 eða síðastliðin 10 ár selt 973 þúsund tonn af fiski fyrir 265,7 milljarða. Ef við leikum okkur aðeins að því að reikna þjóðarhag af þessari sölu, sem um leið er kaup fyrir kaupendur aflans, þá má áætla að miðað við 50-75% hráefnishlutfall hjá kaupendunum hafi framlegð þeirra verið á bilinu 133-266 milljarðar fyrir þetta tímabil. Fyrirtæki þau sem byggja afkomu sína á kaupum þessa afla þiggja fæst styrki til nýsköpunar. Þau búa aftur á móti daglega við gríðarlega samkeppni sem drífur þau áfram í þeirra nýsköpun og markaðsstarfi.
Örlítið meira verð ég að nefna varðandi kerfi fiskmarkaða á Íslandi, sem ætíð hverfur í umræðunni í skuggann af stærstu útgerðum landsins. Nefnt var hér að ofan að fiskur hvaðanæva af landinu er seldur á uppboðinu. Á það jafnt við hvort sem honum er landað á Bolungarvík (stysta leið frá Reykjavík 428 km), Stöðvarfirði (stysta leið 628 km) eða Þórshöfn (stysta leið 621 km). Allan ársins hring er miðað við að afla dagsins sé skilað til kaupenda strax morguninn eftir, áður en vinnsla hefst. Við Íslendingar þekkjum mismunandi veðurfar og því er ótrúlegt að segja frá því að þessi afhending er nánast hnökralaus allt árið um kring.
Að þessu viðbættu hafa fiskmarkaðir landsins gegnt mikilvægu hlutverki við rekjanleika afla. Allar upplýsingar um afla þann sem seldur er á uppboðinu er hægt að sækja á einum miðlægum stað, hjá Reiknistofu fiskmarkaða. Þessu til viðbótar hafa nú fiskmarkaðir landsins tekið upp MSC-vottun sem er þekktasta rekjanleikavottun fyrir sjávarafurðir heimsins.
Innlendum vinnsluaðilum fækkað
Þetta hljómar allt vel en þó er ýmislegt sem býr að baki og veldur þeim sem umhugað er um málefnið áhyggjum. Innlendum vinnsluaðilum sem kaupa hráefni á mörkuðunum hefur fækkað. Með því hefur vinnslugeta í landinu minnkað. Þegar það gerist, hefur það þau áhrif til skamms tíma að verð getur fallið þegar mikið framboð er á skömmum tíma. Hlutfall þess afla sem seldur er á uppboði, sem ekki kemur til vinnslu hér innanlands, hefur einnig minnkað. Að sama skapi hefur hlutfall þess afla sem fluttur er út óunninn aukist. Þekkt er að framlegðarhlutfall þess afla sem unninn er erlendis er mun lægra enda liggur það í hlutarins eðli að vinnslan þarf sinn hluta af framlegðinni. Fyrir okkur Íslendinga aftur á móti þýðir þetta minnkandi þjóðarhag.
Ég vil með grein þessari hvetja alla þá sem koma með einhverjum hætti að sjávarútvegi til að þjappa sér saman um þessa sérstöðu okkar sem fiskmarkaðirnir gefa. Þeir hafa orðið til þess að það sem áður var verðlaust eða verðlítið skilar nú gríðarlegum tekjum í þjóðarbúið. Verjum fiskmarkaðina með öllum ráðum, tryggjum áframhaldandi sölu afla þar. Hvort sem það er með ívilnunum eða með því að áskilja löndun hluta afla þar. Tryggjum aukna vinnslu innanlands að sama skapi með því að jafna stöðu innlendra framleiðenda við erlenda kaupendur afla. Íslenskur sjávarútvegur þarf á fjölbreytni og nýsköpun að halda.
Greinarhöfundur er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.