Tom Egil Hansen útgerðarmaður í Honningsvåg í Noregi fékk á dögunum afhentan nýjan Cleopatra 36 bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði.

Tom Egil verður sjálfur skipstjóri á bátnum. Nýi báturinn heitir Maya. Hann er 10,99 metrar á lengd og mælist 11brúttótonn. Báturinn er kominn til Noregs og hefur hafið veiðar.

Aðalvélin í bátnum er af gerðinni Scania D9. Hún er 350 hestöfl, tengd ZF286IV gír. Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno, Olex og Simrad og vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringunni.

Báturinn er útbúinn til línu- og netaveiða og kemur veiðibúnaðurinn frá Noregi.

Nálægt 150 bátar frá Trefjum

Lest bátsins rúmar 15 stk 380 lítra fiskikör. Lífbátur og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking. Stór borðsalur og fullbúin eldunaraðstaða er í brúnni. Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar.

Þetta er ekki fyrsti báturinn frá Trefjum sem fer til Noregs. Í heildina eru í Noregi nálægt 150 bátar í rekstri frá Trefjum. Í mars fengu bræðurnir Tom-Kenneth og Kurth-Anders Slettvoll, útgerðarmenn frá Kabelvåg í Lofoten, afhenta tvo nýja Cleopatra 33 báta frá Trefjum. Um tvíburabáta var að ræða og eru bræðurnir skipstjórar á bátunum.

Í byrjun árs afhenti bátasmiðjan útgerðarfélaginu Ventura AS í Fosnavåg nýjan yfirbyggðan Cleopatra 50 netabát. Á þessu svæði eru 7 bátar í rekstri frá Trefjum.

Nýi báturinn heitir Maya og verður gerður út frá Honningsvåg.