Fyrirtækið Kerecis, sem meðal annars framleiðir vörur til lækningameðferðar á sárum úr fiskroði, hlaut nýlega Nordic Scaleup verðlaunin sem eru verðlaun sem Nordic Innovation, framtak Norðurlandaráðs, veitir. Í frétt Viðskiptablaðsins segir að umsvif Kerecis hafi aukist mjög á undanförnum árum. Þau hafi um árabil meira en tvöfaldast árlega og geri fyrirtækið ráð fyrir að tekjur á þessu ári verði hátt í 20 milljarðar króna í samanburði við 10 milljarða í fyrra.

Aukaafurð frá fiskvinnslu

Í ræðu Svein Berg, formanns dómnefndar og forstjóra Nordic Innovation, sagði: „Kerecis er hávaxtarfyrirtæki sem byggir á atvinnuhefð Íslands, nýtir aukaafurð frá fiskvinnslu til að búa til verðmæta lækningavöru og hefur vegna takmarkaðs heimamarkaðar og sérþekkingar hugsað út fyrir rammann í ráðningar- og markaðsmálum frá fyrsta degi. Með einstakri tækni og góðum árangri í sölu- og markaðsmálum hefur það alla burði til að skila varanlegum áhrifum fyrir norrænt atvinnulíf.”