Sjósókn hefur verið með minnsta móti vegna nánast stöðugrar ótíðar það sem af er árinu sunnan- og suðvestanlands og víðar. Ástandinu fylgir lítið framboð á fiskmörkuðum sem veldur sjálfstæðum fiskvinnslum vandræðum hvað varðar hráefniskaup og sömuleiðis smásöluaðilum. Eins og lögmálið kveður á um hefur fiskverð hækkað og er reyndar í hæstu hæðum þessa dagana.

Staðan er reyndar fremur óvenjuleg hvað þetta varðar og þarf að leita eina tvo áratugi aftur í tímann til að finna sambærilegt ástand í byrjun árs. Nú ætti að vera hávertíð með miklu fiskframboði og hagstæðu verði á mörkuðum. En því er alls ekki að heilsa.

Á þriðjudag sýslaði Fiskmarkaður Suðurnesja, sem er með starfsstöðvar á sex stöðum á landinu, með einungis 35 tonn af fiski, þar af hálft tonn af þorski og 5 tonn af undirmálsþorski. Leita þarf langt aftur í tímann að slíkum tölum. Þetta sáralitla framboð veldur fiskvinnslum verulegum vandræðum við að uppfylla gerða samninga og halda dampi. Í eðlilegu árferði fara nálægt 450 tonn í gegnum fiskmarkaðina á degi hverjum og hefur Fiskmarkaður Suðurnesja verið með þriðjungshlut af þeirri sölu, þ.e. nálægt 150 tonnum. Þeir eru margir dagarnir sem ekki hefur gefið á sjó og fyrirsjáanlegt að það verði út alla þessa viku að minnsta kosti.

Milli jóla og nýárs, 27. desember, fór kílóverð á óslægðum þorski í 813 krónur og 643 krónur á ýsu, en þá barst, eins og jafnan á þessum tíma árs, afar lítið af fiski á land. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti nú að vera hávertíð á suðvesturhorninu með miklu framboði á fiskmörkuðum og mun lægri verði. Meðalverð á óslægðum þorski var 705 krónur 6. febrúar síðastliðinn.