Slippurinn Akureyri vinnur þessa dagana að hönnun, smíði og uppsetningu á vinnsludekki um borð í línuskipinu Kiviuq 1 sem áður hét Anna EA 305 og var í eigu Útgerðarfélags Akureyringa. Verkkaupi er kanadíska útgerðarfyrirtækið Arctic Fishery Alliance sem gerir út á grálúðu á heimskautasvæði Kanada.

Ásamt nýju vinnsludekki sér Slippurinn um yfirgripsmikil verkefni svo sem nýjar klæðningar í vinnslu og línurými, heilmálun, upptektir á vélbúnaði, stálvinnu auk annarra viðhaldsverkefna.

Við hönnun á vinnsludekkinu var lögð áhersla góð afköst, blæðingu og þvott á fiski, lágmörkun yfirvigtar og fækkun á handtökum við pökkun og úrslátt.

„Slippurinn Akureyri er með þá sérstöðu að geta boðið heildarlausn fyrir útgerðarfyrirtæki sem felst í almennri viðhaldsþjónustu ásamt hönnun/uppfærslu og smíði á vinnsludekki – allt á einum stað. Í þessu felast miklir möguleikar og töluverð hagkvæmni fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Magnús Blöndal sviðsstjóri DNG sem er eitt af vörumerkjum Slippsins.

Framsýnir útgerðarmenn

„Samstarfið við útgerðina á hönnunarstiginu gekk vel og var fróðlegt fyrir Slippinn Akureyri þar sem áskoranirnar á þeirra heimamiðum eru ólíkar því sem við eigum að venjast. Til dæmis er blóðdálkurinn soginn úr lúðunni og slógi safnað allan daginn. Það er gert til að hvalur laðist síður að línunni. Eins valdi útgerðin rafmagnsknúinn línubúnað frá Mustad til að minnka hávaða frá skipinu. Það er alltaf gaman að vinna með framsýnum útgerðum sem eru tilbúnar til að gera nýja hluti,” segir Ásþór Sigurgeirsson verkefnastjóri.

Áætlað er að skipið verið tilbúið til veiða í sumar og er mikil tilhlökkun hjá útgerðinni að taka við skipinu.

„Við hjá Arctic Fishery Alliance erum mjög spennt að hefja veiðar á skipinu og bindum miklar vonir við nýja vinnsludekkið. Við erum afar ánægð með samstarfið við Slippinn, þeirra sérfræðiþekkingu og vinnubrögð. Nýja vinnsludekkið mun skila hágæða hráefni og við erum full tilhlökkunar fyrir áframhaldandi samstarfi við Slippinn Akureyri,“ segir Keith Coady, útgerðarstjóri Arctic Alliance Fisheries.