Ísfélag Vestmannaeyja kaupir tæplega 16% hlut í fiskeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm AS, sem hét áður Fiskeldi Austfjarða, fyrir hátt í 9 milljarða íslenkra króna. Sagt er frá þessu á vef Viðskiptablaðsins.

Ísfélag Vestmannaeyja, eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands, hefur náð samkomulagi um kaup á tæplega 16% hlut í fiskeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm AS, sem hét áður Fiskeldi Austfjarða. Ætla má að kaupverðið hafi verið nálægt 650 milljónum norskra króna, eða um 8,6 milljörðum íslenskra króna.

Ísfélagið kaupir hlutina af Måsøval Eiendom, stærsta hluthafa Ice Fish Farm sem átti fyrir viðskiptin 56% hlut. Viðskiptin fela í sér að eignarhlutur Måsøval Eiendom verður færður inn í nýstofnaða félagið Austur Holding AS, sem Ísfélagið mun eiga 29,3% í.