Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, segir helming félagsmanna verkalýðsfélagsins á almennum vinnumarkaði á Hólmavík missa vinnuna með lokun rækjuvinnslunnar Hólmadrangs.

Í pistli á vef Verkalýðsfélags Vestfjarða í gær segir Bergvin að af þeim 21 starfsmanni sem missi starf sitt með boðari lokun Hólmadrangs um næstu mánaðarmót séu átján í verkalýðsfélaginu. Lesa má pistil Bergvins hér.

„Erfitt er að bera það áfall sem nú dynur yfir Hólmvíkinga saman við önnur landsvæði þar sem tölurnar yrðu svo ótrúlegar að fólk á erfitt með að ímynda sér slíkt,“ segir Bergvin í pistlinum daginn eftir að tíðindin af lokun Hólmadrangs bárust frá móðurfélaginu Samherja. Hann kveður málið hvorki hafa verið nefnt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins né Stöðvar 2 um kvöldið. Hann setur stöðuna síðan í samhengi við fólksfjölda.

„Á Hólmavík missa 21 vinnuna af 436 íbúum, eða 4,82 prósent. Ef við heimfærum það upp á Reykjavíkurborg eina og sér jafngildir það því að 6.828 manns myndu missa vinnuna, og ef við heimfærum það upp á höfuðborgarsvæðið í heild jafngildir það því að 12.062 myndu missa vinnuna. Það má í það minnsta gefa sér að það hefði verið rætt í kvöldfréttum,“ benti Bergvin á.

Bergvin Eyþórsson varaformaður og skrifstofustjóri Verkalýðsfélags Vestfjarða.
Bergvin Eyþórsson varaformaður og skrifstofustjóri Verkalýðsfélags Vestfjarða.

Fram kemur hjá Bergvini að í Strandabyggð búi 436 manns samkvæmt upplýsingum Hagstofu. Samkvæmt gögnum Verkalýðsfélags Vestfjarðar, Verk Vest, sem sé deildaskipt stéttarfélag séu að jafnaði 103 félagsmenn starfandi á Hólmavík og af þeim starfi að jafnaði 64 fyrir ríki og sveitarfélög.

„Þetta skilur eftir að jafnaði 39 manns á vinnumarkaði sem er eru almennir launamenn á almennum vinnumarkaði sem spannar verkafólk, sjómenn, skrifstofu- og verslunarfólk, en af þessum fjölda starfa að jafnaði 19 hjá Hólmadrangi. Um næstu mánaðamót missir 48,72 prósent þessa hóps vinnuna!“

Rakið er í pistli Bergvins að með þessum tíðindum ljúki 58 ára sögu rækjuvinnslu Hólmadrangs. Fyrirtækið hafi verið mikil stoð í atvinnulífi Hólmvíkinga þrátt fyrir að gengið hafi með skini og skúrum.

„Í október 2018 var Hólmadrangi veitt heimild til greiðslustöðvunar og síðar veitt heimild til nauðasamninga, en allt fór vel að lokum og hélt Hólmadrangur áfram vinnslu og starfsfólk hélt áfram að hafa atvinnu og nýr ráðandi hluthafi kom til sögunnar, Snæfell, dótturfélag Samherja. Því miður var það skammgóður vermir því nú hefur Hólmadrangur tilkynnt starfsfólki sínu um áformaða hópuppsögn og lokun fyrirtækisins eftir erfiðan rekstur undanfarinna ára,“ segir varaformaðurinn.

Að sögn Bergvins hefur verið boðað til fundar á fimmtdaginn í næstu viku þar sem farið verði yfir hvort forsendur hafi breyst og skapað rými fyrir aðrar nálganir til að bregðast við vandanum. Að auki verði áhersla lögð á samtal við starfsmenn.

„Þrátt fyrir að talað sé um sóknarfæri í fiskeldi og ferðamannaþjónustu er ekkert í hendi sem taki neitt við hjá því starfsfólki sem missir vinnuna um komandi mánaðamót. Ekki er hægt að vísa fólki til nágrannabyggðarlaga til vinnu þar sem vetrarþjónusta Vegagerðarinnar yfir Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda er naumt skömmtuð,“ rekur Bergvin, sem jafnframt því að vera varaformaður er skrifstofustjóri hjá Verkalýðsfélagi Vestfjarða.