Hampiðjan, ásamt dótturfélögum og samstarfsaðilum, hefur verið tilnefnd til útslita verðlaunanna Aquaculture Awards 2024 sem veitt eru fyrir framúrskarandi framlag til lagareldis. Verkefnið sem tilnefnt er kallast Circular Fish Farming Nets (CFFN) og snýst um notkun endurunnins nælons í framleiðslu á fiskeldiskvía sem falla vel undir hugmyndir hringrásarhagkerfisins.

Endurnýting nælons

Verkefnið, sem styrkt er af norska úrvinnslusjóðnum Handelens Miljøfond, er unnið í samstarfi Hampiðjunnar, Nofir, Aquafil, Akva Group og Grieg Seafood. Markmið þess er að skoða nýtingu á 100% endurunnu næloni í netaframleiðslu þar sem það kæmi í staðinn fyrir nýtt nælon sem unnið er úr hráolíu.
Takist að nota endurunnið nylon við framleiðsluna gæti það valdið byltingu þegar kemur að sjálfbærni í lagareldi og sjávarútvegi í framtíðinni.
Endurvinnsluaðferðin sem nýtt er í verkefninu er svokölluð sundurliðun en sú aðferð hefur verið stunduð árum saman af Aquafil, einum af samstarfsaðilum Hampiðjunnar. Sundurliðun er efnafræðilegt ferli sem brýtur pólýamíð, þ.e. nylon, niður í grunnolíu sem nota má til að búa til nýjar nylon 6 fjölliður. Þannig verður til nýtt hráefni til framleiðslu þráða sem standast kröfur um gæði og styrk sem nauðsynlegur er í lagareldi.

Verðlaunin verða veitt 15. maí næstkomandi.
Verðlaunin verða veitt 15. maí næstkomandi.

Notaðar hjá Grieg Seafood Noregi

Framlag Hampiðjunnar til verkefnisins er unnið í nánu samstarfi við dótturfélögin Hampiðjan Baltic, Vónin og Mørenot og felst í framleiðslu á hnútalausu neti úr þráðum úr endurunna efninu ásamt gerð sjálfar fiskeldiskvíarinnar í fullri stærð. Umfangsmiklar prófanir verða gerðar á bæði þráðum og neti kvíanna til að staðfesta að endurunna nylonið standist samanburð við hið upprunalega. Eldiskvíarnar verða svo notaðar í eins og aðrar kvíar í eldi einnar kynslóðar laxa hjá Grieg Seafood í Noregi.

Ef vel tekst til þá mun CFFN verkefnið gefa Hampiðjunni færi á að bjóða viðskiptavinum sínum hringrásarvöru sem minnkar kolefnislosun svo um munar í virðiskeðju laxeldisisns. Verkefnið þjónar einnig því hlutverki að sýna fram á hvað hægt er að gera í atvinnugreininni með þverfaglegu samstarfi.

Áhersla á endurvinnslu

Nylon gegnir mörgum hlutverkum í sjávarútvegs- og fiskeldisgeiranum en er mest áberandi í gerð trollpoka fyrir uppsjávarveiðar, hringnætur og fiskeldiskvíar. Hampiðjan hefur árum saman safnað og sent til endurvinnslu notað nylonefni ásamt því sem viðskiptavinir hafa skilað til fyrirtækisins. Það er hakkað niður og brætt og úr því gert nylonkurl. Afraksturinn er þó afurð sem er lakari en upprunalegt nylon og sökum óhreininda óhæf til notkunar í framleiðslu á gæðaþráðum og er mest notað í steypta hluti.

Á síðustu árum hefur Hampiðjan haft forgöngu um og unnið í nánu samstarfi við viðskiptavini og fagaðila til að finna endurvinnslulausnir fyrir stærstu efnisflokkana sem notaðir eru í framleiðslunni. Auk nylons, er polyethylene endurunnið, ásamt gúmmíi og járnvöru. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að finna nýjar leiðir til að endurvinna öll þau hráefni sem það nýtir við framleiðslu sína og er samstarf í verkefnum eins og CFFN ein af þeim.