Vörusala hjá Brim jókst á milli fyrsta ársfjórðungs þessa og fyrra árs. Hún nam 113 milljónum evra í ár en 94 milljónum evra í fyrra. Þrátt fyrir þetta dróst hagnaður saman, en hann var 19 milljónir evra í ár borið saman við 26 milljónir evra í fyrra.

Í tilkynningu frá Brim segir meðal annars að svo mikið hafi verið framleitt af loðnuhrognum að áhrifin hafi verið verðlækkun á mörkuðum.

Veiðar á loðnu hófust í byrjun febrúar og gengu veiðar og vinnsla mjög vel. Skipin lönduðu 56 þús. tonnum í vinnslur félagsins á Akranesi og Vopnafirði og náðist að veiða allan kvóta félagsins auk þess að um 6 þús. tonna afli var keyptur af þriðja aðila. Það skipti sköpum að veður var með eindæmum gott til loðnuveiða á tímabilinu og munaði miklu frá því sem var á árinu 2022, þegar vertíðin einkenndist af stöðugum brælum.

Loðnunni var landað til heilfrystingar fyrir markaði í Asíu og A-Evrópu, til frystingar á loðnuhrognum og til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi. Mikil óvissa ríkti um hversu stór loðnukvótinn yrði á vertíðinni og var endanlegur loðnukvóti ekki ljós fyrr en 15. febrúar og olli það vandræðum með skipulagningu veiðanna og vinnslu aflans.

Óvissa af þessu tagi leiðir til þess að veiðum er frestað til að tryggja að nægar veiðiheimildir séu eftir til veiða á hinni verðmætu hrognaloðnu. Met var sett í framleiðslu á loðnuhrognum á Íslandi og framleiðslan því umfram það sem selst öllu jafna innan árs sem hafði þær afleiðingar að verð loðnuhrogna lækkaði.

Eignir upp á 155,3 milljarða króna

Í uppgjörinu kemur fram að EBITDA hafi verið 29 milljónir evra og EBITDA hlutfall þannig 25,7%. Eignir hækkuðu um 105 milljónir evra og námu 1.047 milljónum evra í lok tímabilsins. Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta fjórðungs árins 2023 (1 evra = 152,3 ISK) voru tekjur 17,3 milljarðar króna, EBITDA 4,4 milljarðar og hagnaður 2,9 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2023 (1 evra = 148,3 ISK) voru eignir samtals 155,3 milljarðar króna, skuldir 91,1 milljarðar og eigið fé 64,2 milljarðar.

Í tilkynningu frá Brim er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni forstjóra:

„Gæftir voru góðar á ársfjórðungnum og veiðin var góð, einkum á uppsjávartegundum. Afurðaverð voru almennt góð en kostnaður jafnt við veiðar, vinnslu og sölu jókst. Birgðastaðan er all mikil sem ætti að skila sér í auknum tekjum á næstu fjórðungum.

Bolfiskveiðar gengu ágætlega og skiptir þar miklu að frystiskip félagsins í Barentshafi veiddu mjög vel. Hins vegar lét ufsinn ekki sjá sig og á undanförnum misserum hafa veiðiheimildir á þorski og karfa verið skornar niður. Verðin á afurðum voru góð.

Rétt er hins vegar að árétta að aðstæður á mörkuðum eru erfiðar. Það mun því reyna á okkar sölunet og sölu- og markaðsfyrirtæki á næstu misserum. Það geisar enn þá stríð í Evrópu og víða ríkir mikil óvissa. Kostnaðarhækkanir eru alls staðar mjög miklar og verðbólga er meiri en þekkst hefur í áratugi.“