Fiskmarkaður Norðurlands, FMN, hefur opnað útibú í nýju húsnæði á Hafnargötu 1 í Hafnarfirði þar sem boðið verður upp á almenna fiskmarkaðsþjónustu og ísframleiðslu. Hafnargata er á tanganum sem liggur út frá Suðurgarði, beint fyrir neðan eldri Fjarðarfrost geymsluna.

Þá hafa iTUB ehf. og Fiskmarkaður Norðurlands (FMN) hafa gert með sér samkomulag um að iTUB sjái fiskmarkaðnum fyrir kerum fyrir landaðan afla sem lagður er upp til fiskmarkaðarins á nýrri starfsstöð FMN í Hafnarfirði.

FMN mun jafnframt sjá um umsýslu kera á Suðvesturhorni landsins fyrir hönd iTUB og verður FMN í Hafnarfirði þannig aðal þjónustustöð iTUB á Suðvesturhorninu.

iTUB mun frá og með 10 mars n.k. þjóna vaxandi hópi viðskiptavina út frá þjónustustöðinni í Hafnarfirði og munu notendur iTUB kera geta skilað kerum inn til FMN og fengið þar ker afhent samkvæmt leigusamningum viðskiptavina.