Útgerðarfélagið Ventura AS í Fosnavåg í Noregi fékk nýverið afhentan nýjan yfirbyggðan Cleopatra 50 netabát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Aðaleigandi Ventura AS er Martin André Leinebø. Í heildina eru í Noregi nálægt 150 bátar í rekstri frá Trefjum.

Nýji báturinn heitir Ventura. Báturinn er 15 metrar á lengd og mælist 30 brúttótonn. Fosnavåg er nærri Álasundi og á þessu svæði eru sjö bátar í rekstri frá Trefjum. Þetta svæði er þekktara fyrir útgerð stórra skipa en þar eru líka smærri bátar. Meirihluti Trefjabátanna hefur samt farið til Norður-Noregis, þ.e. frá Lófoten og enn norðar.

„Í Noregi er útgerðarmynstrið fjölbreyttara en við eigum að venjast. Þar er til að mynda talsvert um gildruveiðar á suðursvæðunum. Þar er til dæmis veiddur humar og brúnkrabbi sem svipar dálítið til grjótkrabbans í Hvalfirði hvað stærð varðar og þéttleika. Svo er kóngakrabbi veiddur í gildrur í Norður-Noregi en sú veiði stendur reyndar stutt yfir. Við erum að útbúa báta fyrir net í Noregi eins og þennan nýja bát sem Ventura hefur fengið afhentan. Það er því meiri fjölbreytni í smábátaútgerð í Noregi meðan hér er nánast eingöngu gert út á línu og handfæri í strandveiðunum,“ segir Högni.

Aðalvél nýja bátsins sem fór til Noregs er af gerðinni Scania D16 625 hk tengd frístandandi ZF 665 V-gír. Hann er með vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringunni. Netabúnaður og vinnslubúnaður á dekki kemur frá Noregi. Löndunarkrani er af gerðinni TMP500L frá Vinnuvélum/Ásafli. Í bátnum er ARG250 stöðugleikabúnaður. Lífbátar og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Rými er fyrir allt að 43 460 lítra kör í lest. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og stór borðsalur er í brúnni. Svefnpláss er fyrir sex í lúkar í þremur klefum, auk eldunaraðstöðu með eldavél, bakarofni, örbylgjuofn og ísskáp. Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.