Í umfjöllun um fiskeldi á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávaraútvegi, SFS, segir að ekki sé óraunhæft að horfa til þess að á næstu 15-20 árum megi byggja upp atvinnugrein í fiskeldi, með um 550 þúsund tonna framleiðslu á landi og í sjó. Gangi slíkar áætlanir eftir gæti það þýtt útflutningsverðmæti að andvirði í kringum 450 milljarða kr. Á síðastliðnu ári nam samanlagt útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða tæplega 400 milljörðum kr. Þessi mögulega aukning á laxeldi ein og sér þýddi því ríflega tvöföldun á þeim verðmætum.

Ráðgjafafyrirtækið McKinsey vann greiningu fyrir SFS á tækifærum til uppbyggingar fiskeldis við Íslandsstrendur sem kynnt var í fyrra. Við greiningarvinnuna lagði McKinsey mat á fræðilegt hámark laxeldis í sjó við Íslandsstrendur með því að draga saman þá landfræðilegu eiginleika sem einkenna góð sjókvíasvæði við Noregsstrendur.

Niðurstöðurnar sýndu að fræðilega hagnýtanleg landssvæði gætu staðið undir heildarframleiðslugetu fyrir 4,4 milljónir tonna af eldisfisk en að teknu tilliti til ýmissa hliðaráhrifa gæti heildarframleiðslugetan numið 1,1 milljón tonna.

Í grein SFS segir að ætla megi að heildarframleiðsla upp á 1,1 milljón tonna sé óraunhæft markmið með tilliti til fjárfestingargetu fyrirtækja, burði stjórnsýslu til að sinna uppbyggingu, framkvæmdaáhættu og hraða þróunar þjónustugreina fiskeldis. Þá sé jafnframt ljóst að taka verði tillit til mögulegra áhrifa á hrygningar- og veiðisvæði helstu nytjastofna.

Stórtæk áform í landeldi

Samkvæmt greiningu McKinsey nýta Norðmenn um 9% af fræðilega mögulegum framleiðslustæðum sínum. Ef sama hlutfall væri notað hér á landi gæfu 9% af 4,4 milljónum tonna numið alls um 400 þúsund tonnum í heildarframleiðslu í sjókvíaeldi, miðað við óbreytta tækni og afköst sjókvía.

Í grein SFS segir að hvert íslenska landeldisfyrirtækið á fætur öðru hafi boðað stórtæk áform um uppbyggingu landeldis og þá fyrst og fremst á laxi.

„Þau áform eru mislangt á veg komin, en gangi öll verkefni eftir sem eru á teikniborðinu gæti ársframleiðsla á eldisfiski numið hátt í 160 þúsund tonnum og skapað mikil verðmæti. Þessi uppbygging mun hins vegar taka tíma því framkvæmdir eru í flestum tilvikum áfangaskiptar.“

Tækifæri til uppbyggingar landeldis grundvallist m.a. á aðgangi að tilteknum landgæðum sem munu styðja við eldið. Að mörgu leyti séu að aðstæður til uppbyggingar landeldis hvergi í heiminum ákjósanlegri en hér á landi. Mikilvægt sé að stjórnvöld séu meðvituð um þetta og tryggi að öll skilyrði til þessarar uppbyggingar og rekstrar séu eins og best verður á kosið.

„Af umræðu má greina að einhverjir séu þeirrar skoðunar að landeldi geti komið í stað sjókvíaeldis. Það má telja bæði óraunhæft og óskynsamlegt. Flestir sérfræðingar eru sammála um að framleiðsla úr landeldi muni ekki koma í stað framleiðslu úr sjókvíaeldi, heldur verði henni til viðbótar. Því má jafnframt halda til haga að þær aðstæður sem styðja við uppbyggingu landeldis á suðvesturhorni landsins eru ekki fyrir hendi á Austfjörðum og Vestfjörðum þar sem sjókvíaeldi er stundað í dag.“