Blóð í laxfiskum er 7-10% af þyngd hvers fisks og áætla má að við laxfiskaeldi hér við land falli til hátt í 2 þúsund tonn af blóði á ári við blóðgun. Samkvæmt reglugerðum á að farga blóðinu með urðun en það hefur fram til þessa verið losað í sjóinn með ærnum tilkostnaði. Matís hefur nú í samstarfi við Arnarlax, Arctic Protein og Háskóla Íslands hafið rannsókn á því hvernig best er staðið að blæðingu laxfiska og því að skilja blóð frá vinnsluvatni með það að markmiði að nýta lífvirk efni í blóðinu til manneldis.

[email protected]

Segja má að vandamálið sé þríþætt; kostnaður við förgun, neikvæð umhverfisáhrif og að verðmæti fari í súginn. Mikilvægt er að hægt sé að leysa umhverfisvandamál og skapa verðmæti um leið.

Verkefnastjóri er Gunnar Þórðarson sem rekur útibú Matís á Ísafirði.

Þetta er vandamál fiskeldis um allan heim, en blóðvatn úr villtum fiski er losað aftur í sjóinn. En í eldi getur þessu fylgt sýkingarhætta og þannig valdið miklu tjóni fyrir eldisfyrirtækin og eins haft neikvæð umhverfisáhrif, sem og stuðlað að sjónmengun við sláturhús/-báta.

Með nýjum aðferðum við blæðingu ætti ennfremur að opnast tækifæri til að auka enn frekar gæði aðalafurðanna, þ.e.a.s. flakanna. Matís hefur um áraraðir stundað rannsóknir á blæðingu þorskfiska og þróað aðferðir til að tryggja sem besta blæðingu. Litið er á blóðleifar í flökum sem gæðavandamál, bæði veldur það þránun við geymslu og styttir geymsluþol afurðanna. Í verkefninu verður farið í að þróa bestun blæðingar með líkum hætti og gert hefur verið við villtan fisk.

Þurrblæðing

Gunnar segir að tvær leiðir séu einkum til skoðunar. Sú fyrri er þurrblæðing sem felst í því að fiskurinn er látinn blæða án þess að vera í vatni. Talið er að 70% blæðing geti farið fram með þessari aðferð. Í framhaldi af þurrblæðingunni er fiskurinn settur í vatnsblæðingu og látinn klára sig þar.

„Við þurfum líka að negla það niður hvaða hlutfall fisks og vatns gefur bestu blæðinguna og hversu oft þarf að skipta um vatn. Þarf að vera sírennsli eða hvenær er best að skipta um vatn? Einn mikilvægasti þáttur verkefnisins verður þó að þróa búnað til að hreinsa blæðingar- og vinnsluvatn þannig að engin lífræn losun sé út í náttúruna, og á sama tíma verða til tækifæri til nýsköpunar í framleiðslu og verðmætasköpun,“ segir Gunnar.

Samstarf við fiskeldið

Umhverfissjóður sjókvíaeldis veitir fjármuni til rannsóknarinnar og verður verkefnið unnið í nánu samstarfi við Arnarlax á Bíldudal, enda leggja þeir mikla áherslu á umhverfisvæna framleiðslu. Einnig kemur Arctic Protein í Borgarnesi að verkefninu en Arctic Protein sérhæfir sig í framleiðslu á fóðri fyrir gæludýr. Vörurnar eru alfarið unnar úr slógi og afskurðum af íslenskum laxfiskum.

Í verkefninu verður blóðið efnagreint og skimað fyrir verðmætum eiginleikum þess. Þetta verður grunnur fyrir frekari rannsóknir og hugsanlega vöruþróun á verðmætum afurðum úr blóðinu. Gunnar segir að horft sé til þess að nýta blóðið til framleiðslu á vörum til manneldis. Mikill markaður er omega fitusýrur og eins fyrir ensím í blóði takist að einangra þau. Þar gætu kaupendur verið snyrtivöru- og lyfjaframleiðendur og framleiðendur hollustufæðu. Járn er bundin við blóðrauðann og hægt er að einangra það og framleiða. Gunnar segir vinnslu af þessu tagi og vöruþróun vera óplægðan akur.

Umfang fiskeldis í Noregi er mikið á heimsvísu og þar er allt blóð og blóðvatn urðað í jörðu. Þetta er stórt vandamál þar í landi því kostnaðurinn við urðina er mikill. Norðmenn eru því með svipaðar rannsóknir í gangi. Gunnar kveðst eiga von á því að frekari frétta af verkefninu megi vænta á vormánuðum 2019.