Kleifabergið verður innan tíðar fljótandi hótel við norðausturströnd Grænlands fyrir hóp á vegum ástralsks námuvinnslufyrirtækis sem vinnur að rannsóknum þar í landi. Kleifabergið, sem var smíðað í Póllandi 1974, hét áður Engey RE og er eitt aflahæsta skip í sögu togaraútgerðar á Íslandi. Útgerðarfélagið Brim keypti Kleifaberg frá Ólafsfirði árið 2007 en skipinu  var lagt eftir langan og gifturíkan feril á Íslandsmiðum á síðasta ári.

Síðustu átta árin sem Brim hf. gerði út Kleifabergið, þ.e.a.s. frá og með 2012 og til og með 2019, nam heildar aflaverðmæti skipsins tæpum 11 milljörðum króna. Skipstjóri Kleifabergsins allt frá árinu 1997 var hinn kunni aflakóngur Víðir Jónsson.

Skipið er nú í eigu Skipaþjónustunnar í Reykjavík. Ægir Örn Valgeirsson rekur fyrirtækið með bróður sínum, Braga.

Þyrlupallur í skut

„Kleifabergið verður þjónustuskip með áhöfn og starfsmenn námuvinnslufyrirtækisins gista um borð. Hluti af hópnum eru vísindamenn og þeir munu standa fyrir borunum og sýnatökum á landi. Við sigldum með hópinn þarna yfir í fyrra og þá gisti hann í landi. Núna þjónustum við þá að öllu leyti og verðum með verkstæði með rennibekkjum og allri aðstöðu.“

Allur búnaður til fiskveiða hefur verið fjarlægður úr Kleifaberginu. Gálginn hefur verið fjarlægður og settur verður þyrlupallur í skut skipsins. Hópurinn verður ekki stærri en svo að allir komast fyrir í kojum sem eru 28 talsins. Ekki er ljóst hvor bræðranna verður með í þessum leiðangri en Ægir Örn segir að lagt verði í hann þegar ísa leysir á þessu svæði. Það verði líklega ekki fyrr en í næsta mánuði. Áætlað er að hópurinn verði við Grænland meðan veðurglugginn er opinn og þar til ísinn hrekur þá til baka á ný.

Leitað er verðmætra málma á svæðinu, kopars, zinks og jafnvel gulls. Í jörðu á Grænlandi er einnig að finna málma sem eru notaðir í hátækniiðnaði, t.a.m. í snjallsíma, rafbíla og vopn. En núna er hópurinn að taka sýni og að þreifa sig áfram fyrir hugsanlega vinnslu til framtíðar litið. Ægir Örn segir að verkefnið nú verði umtalsvert stærra í sniðum en það var í fyrra svo það virðist sem niðurstöðurnar sem fengust þá lofi góðu um framhaldið.

Náðugt framundan hjá Kleifaberginu

„Gamla Kleifabergið á að geta haft það náðugt núna við ankeri við Grænland eftir öll átökin úti á miðunum við Ísland áratugum saman. Það er búið að streða nóg og fiska nóg,“ segir Ægir Örn.

2019 keypti Skipaþjónustan skuttogarann Mars RE sem áður hét Sturlaugur Böðvarsson AK sem HB Grandi gerði út og fór í sína síðustu veiðiferð í febrúar 2018. Skipið var smíðað hjá Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi árið 1981. Ægir Örn segir að búið sé að ganga frá sölu á skipinu til brotajárnsvinnslu til fyrirtækis í Belgíu. Skipið var tekið í slipp og sótt hefur verið um tilskilin leyfi til Samgöngustofu til að sigla því til meginlands Evrópu. Hann segir að gott verð fáist fyrir brotajárn um þessar mundir og seljendur og kaupendur eru sáttir með viðskiptin.