Bráðbirgðaniðurstöður mælinga sýna að þéttleiki makríls í íslenskri landhelgi er nú álíka og síðasta sumar en útbreiðslusvæðið var minna.

Þetta kemur fram í frétt frá Hafrannsóknarstofnun þar sem segir frá þátttöku rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar í árlegum alþjóðlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum.

Segir að í nítján daga leiðangri Árna kringum landið hafi verið teknar 43 togstöðvar og sigldar um 3.250 sjómílur eða sex þúsund kílómetra. Gerðar hafi verið sjómælingar og teknir átuháfar á öllum yfirborðstogstöðvum.

Minni útbreiðsla makríls

„Rannsökuð var útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi að undanskildum suðaustur hluta hennar sem Færeyingar rannsökuðu.

Bráðbirgðaniðurstöður mælinga á Árna sýna að þéttleiki makríls í íslenskri landhelgi var álíka og síðasta sumar en útbreiðslusvæðið var minna,“ segir í fréttinni.

Makríll er sagður aðallega hafa fundist á landgrunninu og landgrunnsbrúninni meðfram suðurströnd landsins. Fáeinir fiskar hafi fengist fyrir vestan landið.

„Líkt og undanfarin ár var norsk-íslenska vorgotssíld að finna á flestum togstöðvum fyrir norðan og austan landið og íslenska sumargotssíld á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið,“ segir á hafogvatn.is.

Kaldari sjór fyrir norðan

Kynþroska kolmunni er sagður hafa mælst við landgrunnsbrúnina sunnan og vestan við landið í álíka þéttleika og síðasta sumar.

„Bráðabirgðaniðurstöður sýna að hitastig í yfirborðslagi sjávar var álíka og sumarið 2022 fyrir sunnan og vestan landið en kaldara fyrir norðan,“ segir ennfremur í fréttinni þar sem sjá má myndrænar skýringar á leiðangrinum nýafstaðna.

Rætt er við Önnu Heiðu Ólafsdóttur leiðangursstjóra í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.