Félag uppsjávariðnaðarins hefur hafið vinnu við forritun á mælaborði fyrir fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur landsins sem miðar að því að hámarka gæði afurða með notkun gervigreindar. Von er á fyrstu útgáfu mælaborðsins á næstu vikum. Félag uppsjávariðnaðarins er samstarfsvettvangur uppsjávarfyrirtækjanna um rannsóknar- og þróunarstarf.

Grettir Jóhannesson, nýsköpunarstjóri uppsjávariðnaðarins, segir grunninn að þessu verkefni í raun og veru liggja hjá fiskmjölsverksmiðjunum sjálfum. Verksmiðjurnar geri efnagreiningar á því mjöli og lýsi sem þær framleiða við hverja útskipun. Megintilgangurinn með þeim er að kanna hvort mjöl og lýsi uppfylli þær kröfur sem gerðar hafa verið í samningum við kaupendur. Þar er einkum horft til prótein innihalds í mjöli og fjölómettaðra fitusýra í lýsi. Fjölómettuðu fitusýrurnar eru verðmetnar eftir tilteknu viðmiði hlutfalls í hverju tonni. Við hvert prósentustig umfram þetta viðmið eykst verðmæti lýsisins. Grettir segir að samtal við aðila innan greinarinnar hafi í raun valdið straumhvörfum. Þessi aðili sagðist hafa það sterklega á tilfinningunni að kaupendur mjöls og lýsis viti meira um vöruna en þeir sem selji hana. Grettir segir að þessu þurfi að sjálfsögðu að snúa við og meiri þekking geti stuðlað að aukinni verðmætasköpun á þessu sviði.

Grettir Jóhannesson nýsköpunarstjóri Félags uppsjávariðnaðarins.
Grettir Jóhannesson nýsköpunarstjóri Félags uppsjávariðnaðarins.

Viðhalda gæðum í vinnsluferlinu

Auk efnagreiningarinnar í afurðunum eru reglulega gerðar mælingar inni í verksmiðjunum sem eru ætlaðar til þess að menn hafi yfirlit um stöðuna í hverri verksmiðju fyrir sig. Grettir segir að fram að þessu hafi þessar mælingar ekki heldur verið nýttar til fulls. „Hugmyndin um gagnagrunninn og mælaborðið varð til út frá þessari rannsóknavinnu. Ætlunin er að safna saman þessum gögnum og búa til skjáborð fyrir verksmiðju- og gæðastjóra í verksmiðjunum. Það á að nýtast þeim til að geta brugðist fyrr við til að viðhalda gæðum í vinnsluferlinu og helst bæta þau. Á skjáborðinu birtast rauntímagögn og söguleg gögn sem auðveldar samanburð við mismunandi tímabil. Kerfið getur líka vaktað það þegar framleiðslan fer undir ákveðin gildi og viðmið og brýnt verksmiðju- og gæðastjóra til að bregðast fyrr við,“ segir Grettir.

Hann segir að með gervigreindinni geti verksmiðjustjórar á grunni sögulegra gilda sem benda til þess að gæði fari lækkandi til dæmis næsta sólarhringinn, brugðist við. Viðbrögðin fælust þá í endurstillingu á framleiðslutækjunum.

Mikið í húfi

„Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni og teljum að það geti leitt til aukinna gæða og þar með aukinna útflutningsverðmæta,“ segir Grettir.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands námu heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða um 353 milljörðum króna. Þar af voru verðmæti uppsjávarafurða 110 milljarðar króna, eða 31% af heildarverðmætum. Ef horft er sérstaklega til útflutningsverðmæta á fiskimjöli og lýsi námu verðmætin 61 milljarði króna, eða 17% af heildarútflutningi og 55% af útflutningsverðmætum uppsjávarafurða.

„Það er því til mikils að vinna að viðhalda gæðunum í það minnsta. Svo ekki sé minnst á það að auka gæðin sem gæti skilað auknum útflutnings verðmætum gangi þetta allt saman eftir,“ segir Grettir.

Nú eru tíu fiskmjölsverksmiðjur á landinu í hverjum landsfjórðungi nema Vesturlandi og Norðurlandi. Verkefni Félags uppsjávariðnaðarins fékk 3ja milljóna króna styrk frá Matvælasjóði. Verkefnið er unnið í samstarfi við Matís með góðri aðstoð Sigurjóns Arasonar, fyrrum yfirverkfræðings hjá Matís.