Meðafli sjávarspendýrategunda, sérstaklega útsels, er metinn töluvert lægri en á árunum 2020 til 2023 en árinu þar á undan.

Þetta eru helstu niðurstöður nýútkominnar skýrslu Hafrannsóknastofnunar um meðafla fugla og sjávarspendýra í grásleppuveiðum árin 2020-2023.

„Að sama skapi var meðafli fugla metinn aðeins lægri en áður sem skýrist að mestu leyti að minni sókn. Erfitt er að fullyrða um ástæður minnkunar á meðafla á land- og útsel milli tímabila, en farið var í ýmsar aðgerðir til að minnka meðafla eftir 2020. Helstu aðgerðir snérust að svæðalokunum og auknu eftirliti, bæði með fjarstýrðum loftförum og með eftirlitsmönnum um borð í bátum, og gætu þær aðgerðir hafa minnkað meðaflann,“ segir á hafro.is.

Landselur algengastur í meðafla á grásleppuveiðum

Segir á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar að líkt og áður hafi algengustu sjávarspendýrin sem veiddust verið landselur, útselur og hnísa, á meðan algengustu fuglarnir hafi verið æðarfugl, teista, langvía og skarfar.

„Á þessum fjórum árum var lítill munur á meðaflatíðni sjávarspendýra milli veiðisvæða, dýpis og mánaða, en nokkur munur var á meðaflatíðni fugla milli veiðisvæða,“ segir á hafro.is þar sem fram kemur að matið á meðaflanum byggi á gögnum úr alls 220 róðrum veiðieftirlits Fiskistofu. Meðaflatíðni hafi verið reiknuð út frá róðrum veiðieftirlits á hverju veiðisvæði og síðan uppreiknuð með sókn allra báta.

Nálgast má skýrsluna í heild hér (athugið að skýrslan sem hér um ræðir er efst - frá 7. febrúar 2024.)