Þetta kemur fram í frétt frá Náttúrustofu Suðvesturlands en í frétt stofnunarinnar segir að áður höfðu tvö eintök af fáfnisskel ( Ensis magnus ), fundist dauð í fjöru við Lónsfjörð árið 1957. Í millitíðinni hefur ekkert til hnífskelja spurst hér á landi, segir þar.

Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnar hnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams“ einmitt komið. Hnífskeljar geta orðið 20 sentímetra langar og þykja hnossgæti.

Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund hefur nýlega verið lýst í fyrsta sinn og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa.

Mögulegur skaði

Flutningur sjávarlífvera af manna völdum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær áfastar skipskrokkum eða með kjölvatni skipa. Á Líffræðiráðstefnunni sem haldin var 14.-16. október var sagt frá fundi sindraskeljar hér við land, en rannsókn á tegundinni er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Anishinabek/Ontario Fisheries Resource Centre, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands.

Sterkar líkur eru á því að sindraskelin hafi borist til Íslands með kjölfestuvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður Ameríku, mögulega fyrir 5 til 10 árum. Bætist sindraskelin því í sístækkandi hóp framandi tegunda við Ísland. Vert er að hafa áhyggjur af þeirri þróun því flutningur framandi lífvera er í dag talin önnur helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika í heiminum á eftir búsvæðaeyðingu. Vöktun sindraskelja er því mikilvæg.

33 tegundir skráðar

Á Íslandsmiðum hafa verið skráðar 33 framandi tegundir síðustu sex áratugi, þar af sextán á síðustu tveimur áratugum. Um fjölbreyttar tegundir er að ræða með fulltrúum úr hópum plöntusvifs, stórþörunga, krabbadýra, hveldýra, samloka, möttuldýra og fiska.

Nokkrar af þessum nýju landnemum eins og  sagþang, grjótkrabbi, sandrækja, hnúðlax og glærmöttull - geta talist ágengar, eða hætt er við því að þær verði það, þar sem þær hafa annaðhvort sýnt tilburði til slíks með mjög hraðri útbreiðslu eða eru þekktar fyrir að valda neikvæðum áhrifum á ný svæði sem þær gera að heimkynnum sínum.

Hækkandi hitastig á Íslandsmiðum síðustu tvo áratugi hefur valdið því að fjölbreyttara safn landnemategunda getur sest hér að.