Dómsmálaráðuneytið leggur Slysavarnafélaginu Landsbjörg til 115 milljóna króna styrk til eflingar á sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Styrknum verður skipt þannig að 76,5 milljónum króna er veitt til kaupa á björgunarbát á Flateyri og 38,5 milljónum króna er veitt í kaup á björgunarbát á Húsavík. Þetta er gert með hliðsjón af fenginni reynslu og þarfagreiningu á staðsetningu björgunarskipa og báta. Markmiðið er efling á sjóbjörgunargetu á miðunum við landið en einnig að tryggja öryggi íbúa á Flateyri við þær aðstæður sem geta skapast vegna ofanflóðahættu.

Bátarnir verða af gerðinni Rafnar 1100 PRO SAR og eru framleiddir af samnefndu íslensku fyrirtæki. Slysavarnafélagið Landsbjörg er eigandi tveggja báta af sömu gerð. Vonir standa til að bátarnir verði afhentir fyrir áramót.

Auknar siglingar á Skjálfanda

Í niðurstöðum skýrslu vinnuhóps um staðsetningu björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá 2017 segir að leita verði allra leiða til að auka viðbragð á Skjálfanda með hraðskreiðu björgunarskipi eða bát sem staðsett yrði á Húsavík. Mikil umferð farþegabáta sé um Skjálfanda þar sem stærri skip hafa farþegaleyfi fyrir um 100 manns í senn. Björgunarbátur á Húsavík þurfi að geta bjargað sem nemur þeim fjölda sem er leyfilegt hámark hjá þeim farþegabátum sem gera þaðan út. Þá þyrfti björgunarbáturinn að vera það öflugur að hann geti dregið vélarvana fley.

Björgunarbátarnir verða eign Slysavarnafélagsins Landsbjargar en félagið gerir samninga um afnot björgunarbátanna við björgunarsveitirnar Sæbjörg á Flateyri og Garðar á Húsavík.

Landsbjörg skuldbindur sig til þess að tryggja staðsetningu björgunarbátsins á Flateyri í a.m.k. 15 ár eða þar til fullnægjandi snjóflóðavörnum hefur verið komið fyrir og samgöngur til og frá Flateyri teljast viðunandi samanborið við aðra staði á Vestfjörðum. Slysavarnafélagið Landsbjörg skal áfram reglulega meta þörfina á staðsetningu björgunarskipa og báta við Ísland.