Onward Fishing Company hefur selt togara sinn, Norma Mary, til grænlensku útgerðarinnar Polar Seafood. Guðmundur Óli Hilmisson, framkvæmdastjóri Útgerðasviðs Onward, segir að ástæða sölunnar sé brottför Bretlands úr Evrópusambandinu og samningsleysi um veiðiheimildir í kjölfarið.

„Það er bara svoleiðis. Við sáum fram á að það yrðu engin verkefni eftir fyrir skipin út árið, og óljóst með framhaldið. Við vorum svo sem ekkert endilega að leita eftir að selja skipið, en það var leitað til okkar og við vorum alveg tilbúnir til að selja frekar en að láta það liggja kannski í heilt ár.“

Á meðan er starfsfólkið atvinnulaust.

„Við erum að reyna að koma mönnum að þar sem við höfum getað, nýta mannskapinn eins og við getum. En þetta eru karlar sem eru búnir að vera hjá okkur í fleiri ár, og ömurlegt að þurfa að segja þeim þetta. Margir þeirra hafa komið til okkar og sagt: Ég meira að segja kaus með Brexit, djöfull sé ég eftir því.“

Mikil vonbrigði

Vonbrigðin eru því mikil, enda sögðust breskt stjórnvöld ekki síst hafa hagsmuni sjávarútvegsins í huga þegar samið var um Brexit.

„Þeim var lofað endurreisn sjávarútvegsins,“ segir Guðmundur Óli.

Onward Fishing Company, sem er dótturfyrirtæki Samherja hf., keypti skipið frá Færeyjum árið 2010 og hlaut það nafnið Norma Mary, rétt eins og gamla Akureyrin sem hafði borið þetta sama nafn frá því breska fyrirtækið keypti hana af Samherja árið 2002.

Annað breskt fyrirtæki, UK Fisheries, er í helmingseigu Samherja og hefur verið í vandræðum með úthafsveiðitogarann Kirkella, eins og Fiskifréttir hafa áður fjallað um .

„Við eigum þar eftir smotterí á Svalbarða sem við erum að fara að klára núna. Við erum svo sem ekkert á besta tímanum með það, en þetta er það eina sem við höfum. Svo kemur það skip til með að liggja bundið við bryggju.“

Það sem strandar á er að samningar takist milli Bretlands og Noregs um gagnkvæmar veiðiheimildir, en þær samningaviðræður hafa engum árangri skilað og nú hefur þeim sem fyrr segir hreinlega verið hætt.

„Það var svo langt á milli þeirra að þeir ákváðu bara að hætta þessu og reyna aftur að ári. Ætla bara að sjá til með næsta kvótatímabil. Þannig að fyrir okkur er óvissa eins langt og augað eygir.“

Víðtæk áhrif

Guðmundur Óli býr í Þýskalandi þar sem hann er framkvæmdastjóri Evrópuútgerðar Samherja. Hann segir að Brexit hafi einnig haft töluverð áhrif á útgerðina í Þýskalandi.

„Við fórum mjög seint af stað í öðrum verkefnum líka út af samningum. Evrópusambandið samdi beint við Grænland og Noreg og þeir samningar tóku nokkurn tíma þannig að árið byrjaði mjög skrykkjótt.“

Norma Mary var afhent grænlensku útgerðinni fyrir hálfum mánuði en skipið hefur undanfarið verið í Danmörku.

„Þeir eru bara að vinna eitthvað í skipinu, gera það að sínu,“ segir Guðmundur Óli.