Hafdís Sturlaugsdóttir er líklega eini vísindamaðurinn hér á landi sem fæst við rannsóknir á marhálmi. Hún er landnýtingarfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða og fékk síðla árs 2015 það verkefni að kortleggja marhálm fyrir Vegagerðina.

„Þetta var á hinu flotta Teigskógarsvæði og þar er útbreiðslan mest og reyndar einnig inni í Hvammsfirði og meðfram Skarðsströndinni og væntanlega Fellsströndinni llíka,“ segir Hafdís.

Marhálmur er grastegund sem vex í sjó og finnst einkum við vestanvert landið. Mest er af honum í Breiðafirði.

„Mig langar mjög mikið til þess að fara meira um Breiðafjörðinn og líka annars staðar. Hann er samt óvíða annars staðar nema í kringum Bessastaði og við Reykjavík, en ekki í svona miklu magni og miklum þéttleika eins og í Breiðafirði.“

Flatfiskarnir hoppa
Hafdís segist hafa heyrt frá sjómönnum að þeir líti marhálminn hornauga því hann þvælist í skrúfunni hjá þeim þegar siglt er yfir grunnt vatn. En fiskaseiði kunna vel við sig í marhálminum. Hann veitir þeim skjól og þegar Hafdís gekk leirurnar sá hún töluvert mikið af seiðum.

„Ég hafði gaman af að sjá þessa litlu flatfiska hoppa upp úr leðjunni fyrir framan mig, en þeir eru ótrúlega fljótir að hverfa aftur,“ sagði Kristín í erindi sínu.

Árið 1930 kom upp sjúkdómur og megnið af marhálmi drapst, bæði hérlendis og erlendis. Hafdís segir marhálminn þó hafa verið að ná sér á strik undanfarið, þó líklega sé hann ekki búinn að ná sömu útbreiðslu og hann hafði hér við land áður en áfallið dundi yfir.

Marhálmur var nýttur mjög mikið hérna áður fyrr og ennþá er hann eitthvað nýttur til beitar,“ segir Hafdís. „Kindur sækja í hann ef þær komast í hann. En aðallega eru þetta fuglar sem nýta hann og svo nýta lítil seiði marhálminn sem skjól.“

Margvísleg not
Í Náttúrufræðingnum árið 1936 er að finna grein sem Árni Friðriksson fiskifræðingur skrifaði um marhálminn. Þar segir að hann hafi áður verið „notaður til skepnufóðurs, til áburðar, sem einangrunarefni, til þess að fylla með dýnur, og á margan annan hátt hefir hann verið hagnýttur, ekki sízt í Hollandi og Danmörku, þar sem blómgazt hefir marhálmsiðnaður í stórum stíl.“

Marhálmurinn er OSPAR-tegund, sem þýðir að hann nýtur verndar samkvæmt OSPAR-samningnum frá 1992 um verndun Norðaustur-Atlantshafsins.

Hafdís segir hins vegar óheppilegt að marhálmurinn hafi orðið útundan þegar Náttúrufræðistofnun Íslands gerði vistgerðarflokkun sína hér á landi.

„Þetta er grastegund en hún er úti í sjó, þannig að þeir sem voru uppi á landi fóru ekkert úti í sjó og hinir tóku þetta ekki með. Þannig að marhálmurinn lenti þarna einhvers staðar á milli. Við erum þess vegna ekki með nema punktgögn um hvar marhálmur hefur fundist,“ segir hún.