Hvalur 8 hélt til hvalveiða snemma á þriðjudagsmorgun og von er á fyrsta hvalnum til vinnslu í hvalstöðinni í Hvalfirði jafnvel í dag. Hvalur 9 er í slipp þar sem hann er gerður klár fyrir veiðarnar. Þessi tvö skip Hvals hf. munu veiða útgefinn kvóta upp á 161 langreyð auk 20% af ónýttum kvóta síðasta árs. Samtals eru þetta því vel á þriðja hundrað dýr.

Síðast voru stundaðar veiðar á langreyð sumarið 2015. Vonir standa til að hægt verði að selja hvalkjöt nú til Japans auk þess sem hluti afurðanna verður nýttur til vinnslu á fæðubótarefnum.

Undirbúningur fyrir hvalveiðarnar er fyrir löngu hafinn. Hvalur 8 var tekinn í gegn og skveraður og sams konar vinna stendur nú yfir á Hval 9 í slippnum í Reykjavík. Í hvalstöðinni í Hvalfirði verða um 100 manns að störfum og þar er, samkvæmt heimildum Fiskifrétta, allt til reiðu.  Alls koma um 150 manns nálægt hvalveiðunum í sumar. Svo mikill áhugi er fyrir störfum í hvalstöðinni að ekki þurfti að auglýsa eftir starfsfólki sem og það jafnvel þótt atvinnustigið í landinu sé hátt um þessar mundir í landinu. Að stórum hluta eru sömu starfsmenn í hvalstöðinni og þar hafa unnið árum saman þegar hvalur hefur verið veiddur.

Árið 2015 veiddust 155 langreyðir við landið. Á þessu ári er heimilt að veiða 161 dýr auk 77 langreyða vegna flutnings á veiðiheimildum frá fyrra ári. Samtals má því veiða 238 dýr. Útlit er fyrir að hvalveiðarnar standi yfir í um 100 daga.